Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:01:48 (7174)

1996-06-04 13:01:48# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÁÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:01]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að gera fjárhagsvanda sjúkrahúsanna og sumarlokanir sem við blasa að umtalsefni í dag. Mér þykir það við hæfi að hæstv. heilbrrh. upplýsi Alþingi um stöðu sjúkrahúsanna og þann veruleika sem við blasir á sjúkrahúsunum og þá sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu nú í sumarbyrjun.

Fyrir rúmri viku var það ástand sem skapast hefur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til umræðu í fjölmiðlum. Þar kom fram að sumarlokanir voru farnar að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga sem fylltu ganga og salerni sjúkrahússins vegna þeirra miklu lokana sem stjórn sjúkrahússins hefur orðið að grípa til vegna kröfu sem gerð hefur til stjórnarinnar um sparnað á árinu. Samanburður á lokunum sjúkradeilda og þar með fækkun legudaga sem hlutfall af hámarkslegudagafjölda á Ríkisspítölunum sýnir að árið 1991 voru lokaðir legudagar á handlækningasviði 8.148 eða um 17,7% af hámarkslegudagafjölda en árið 1995 voru lokaðir legudagar orðnir 13.792. Á lyflækningasviði voru lokaðir legudagar 3.591 árið 1991 en eru á árinu 1995 13.791. Á barnalækningasviði hefur lokuðum legudögum fjölgað úr 3.391 árið 1991 og á árinu 1995 í 3.754 en þetta er um 15,8% af hámarkslegudagafjölda barnalækningasviðs.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega beina sjónum mínum í dag að geðlækningasviði, öryggi spítalanna og þjónustu við geðsjúka. Á geðlækningasviði voru á árinu 1991 lokaðir legudagar alls 936 eða 1% af hámarkslegudagafjölda geðlækningasviðsins. En nú hefur lokuðum legudögum fjölgað í 8.080, þ.e. lokanir á geðdeildum hafa tífaldast á þessum árum og enn eru stórfelldar lokanir boðaðar í sumar.

Hæstv. forseti. Þessar staðreyndir tala auðvitað sínu máli og það hlýtur að valda áhyggjum nú í sumarbyrjun hver staða sjúklinga og kannski geðsjúkra sérstaklega verður. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér eru áhyggjur starfsfólks sjúkrahúsanna fyrir komandi sumri mjög miklar. Áform um lokanir á geðdeildum munu að öllum líkindum leiða til þess að lítið sem ekkert verður hægt að sinna nauðsynlegri viðhaldsmeðferð með því að leggja sjúklinga inn eins og nauðsynlegt er talið þegar á þarf að halda. Það mun draga úr öllum innlögnum nema úr brýnustu bráðaþjónustunni. Þannig munu læknar og starfsfólk geðdeilda lítið geta stjórnað og skipulagt þjónustu við geðsjúka. Þetta veldur auðvitað miklum áhyggjum og hlýtur að vekja upp áleitnar spurningar um hvert stefni í málefnum geðsjúkra. Margt bendir til þess að til sé hópur alvarlegra geðsjúkra sem þannig mun mæta afgangi hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Þetta fólk margt á sér engan samastað nema göturnar ef þrek ættingja til að annast þá brestur.

Herra forseti. Nýútkomin er skýrsla Ríkisendurskoðunar, greinargerð um lokanir sjúkrahúsa sem er um margt fróðleg og er þar auðvitað bent á ýmsar staðreyndir sem snúa að lokunum sjúkradeilda. Það sem m.a. er vakin athygli á í þessari skýrslu er hið aukna álag sem leggst á starfsfólk sjúkrahúsanna, aukin veikindi sem virðast hafa lagst á starfsfólk í kjölfar lokana og þar er enn fremur dregin sú ályktun að þessar sumarlokanir leiði ekki til sparnaðar í heild þegar dæmið er skoðað til enda. Þær ályktanir Ríkisendurskoðunar að sumarlokanir leiði ekki til aukins álags á bráðadeildum sjúkrahúsanna vekja furðu við lestur þessarar skýrslu og maður hlýtur að spyrja hvernig þessir ágætu menn komast að slíkum niðurstöðum. Það er hins vegar staðreynd, herra forseti, að umræðan um lokanir á sjúkrahúsum undanfarin ár hefur að öllum líkindum leitt til þess að sjúklingar veigra sér við að leita þjónustu sjúkrahúsanna á mesta annatímanum yfir sumarmánuðina. Þess vegna eru þetta vafasamar ályktanir sem Ríkisendurskoðun leyfir sér að draga í þessari skýrslu. Það vekur líka furðu að skýrslan bendir ekki á neinar leiðir til lausnar.

Ég vil nú, herra forseti, leyfa mér að beina spurningum til hæstv. heilbrrh. og vænti svara við þeim hér í dag.

Í fyrsta lagi. Hver er fjárvöntun sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn mæta henni ef það er áform hæstv. ríkisstjórnar að gera það? Miðað við lokanir sem hafa verið að dynja á sjúkrahúsunum undanfarin ár og enn eru boðaðar, telur hæstv. heilbrrh. að einhverjum endamörkum séð náð núna? Eða telur hún að sjúkrahúsin geti brugðist við auknum lokunum? (Forseti hringir.)

Ég fer að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil enn fremur beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort vænta megi nokkurrar skipulagningar og endurskoðunar á málefnum sjúkrahúsanna í heild og hvernig hún hyggst bregðast við hinum sívaxandi vanda sem deildirnar búa við.