Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:23:26 (7179)

1996-06-04 13:23:26# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:23]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú ekki tími til að ræða heilbrigðismálin í heild í þessari stuttu utandagskrárumræðu. Ég vil segja eitt um stöðu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið í gangi vinna til þess að finna leiðir til samstarfs og samræmingar sem mundu skila sparnaði. Þegar þeirri vinnu er lokið þarf að endurmeta þeirra fjárhag. Ég veit að það er vilji til að gera það bæði hjá stjórnarliðum hér á Alþingi og eins hæstv. heilbrrh.

Varðandi sumarlokanir, þá eru þær mikið vandamál og valda óþægingum. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Hins vegar finnst mér umræðan um sumarlokanir á undanförnum árum hafa verið dálítið áróðurskennd vegna þess að ekki er greint sundur hvað er vegna skorts á fjárveitingum og hvað er vegna þess að ekki fæst fólk til að leysa af í sumarfríum og eins hvað er vegna viðhalds á sjúkrahúsunum. Það er talað um þetta allt í einu, eins og öll þessi óþægindi séu vegna lítilla fjárveitinga. Ég ætla ekki að skorast undan því að taka ábyrgð á því að hluti af þessum lokunum kunni að vera vegna lítilla fjárveitinga. En það er algerlega út í hött að tala um þetta mál þannig að sumarlokanir heyri fortíðinni til aðeins ef það væru nægar fjárveitingar í þennan málaflokk. Það er algerlega út í hött vegna þess að það verður ætíð svo að það verður að draga úr þjónustu sjúkrahúsanna yfir sumartímann. En við verðum að leita leiða til þess að það valdi heimilunum sem minnstum óþægindum, t.d. með því að athuga hvort (Forseti hringir.) hægt er að efla heimahjúkrun eða með einhverjum slíkum úrræðum. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum óþægindum en mér finnst að þessi umræða megi stundum vera markvissari en hún hefur verið á undanförnum árum.