Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:29:00 (7181)

1996-06-04 13:29:00# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:29]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú standa fyrir dyrum hinar árlegu sumarlokanir á sjúkrahúsum sem eru viðhafðar að því er sagt er í sparnaðarskyni og til að starfsfólkið komist í sumarleyfi. Að vísu hefur seinni röksemdinni verið mótmælt af ýmsum þeim sem telja að vel sé hægt að hagræða sumarleyfum starfsfólks eins og tíðkast á öðrum stofnunum. Sparnaðinn hef ég miklar efasemdir um og tel að mikið skorti á að það dæmi hafi verið reiknað til enda. Hvað með fárveikt fólk sem sent er heim til umönnunar hjá ættingjum sem oft þurfa að taka leyfi frá störfum til að annast sjúklingana auk þess sem heimahjúkrun þarf að koma til? Hvað með alla sjúklingana sem eru á biðlistum eftir sjúkrahúsvist, oft óvinnufærir? Og biðlistarnir lengjast auk þess sem öryggi sjúklinganna er stefnt í voða þegar þeir eru útskrifaðir allt of snemma af þeim yfirfullu sjúkradeildum sem þó eru starfræktar. Ég verð að segja að ég tek mark á ýmsu sem kemur frá Ríkisendurskoðun. En ég tek ekki neitt sérstakt mark á því þótt þeir gefi einhverjar sérstakar yfirlýsingar um heilsufar sjúklinga sem eru á biðlistum eftir sjúkrahúsvist, þið verðið að fyrirgefa. Ég tala nú ekki um heilsu starfsfólksins sem hrakar undir svo miklu álagi eins og skapast þegar um yfirfullar örfáar sjúkradeildir er að ræða. Þetta er allt þjóðhagslega óhagkvæmt og þyrfti að skoða heildardæmið. Þjóðfélagið borgar þó peningarnir fari ekki út af reikningi sjúkrahússins. Við þurfum að taka allt með í reikninginn og ef það væri gert tel ég að enginn sá sparnaður sem reynt er að sýna fram á af lokun sjúkradeilda geti vegið upp það tap sem felst í að láta veikt fólk bíða heima óvinnufært eftir lækningu.