Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:31:21 (7182)

1996-06-04 13:31:21# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hve langt þarf að ganga til að ríkisstjórnin bregðist við því ófremdarástandi, því neyðarástandi sem ríkir á sjúkrahúsunum? Nægir ríkisstjórninni ekki sú viðvörun sem komið hefur fram hjá talsmönnum sjúkrahúsanna að öryggi sjúklinga geti verið stefnt í hættu vegna niðurskurðarins og álag á starfsfólk sé orðið óverjandi? Samt er ekki komið að sumarlokunum en þá er talið að að meðaltali verði helmingi og allt að þriðjungi sjúkrarúma á Sjúkrahúsi Reykjavíkur lokað. Hæstv. ráðherra verður að fara að gera sér grein fyrir því að heilbrigðiskerfið og sjúkrahúskerfið verður ekki lengur blóðsogið ef forðast á að stefna öryggi sjúklinga í hættu. Hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin verður að fara að gera sér grein fyrir því líka að það er ekki velferðarkerfið og heilbrigðisþjónustan á Íslandi sem er að vaxa okkur yfir höfuð. Það hefur verið sýnt fram á að umsvif hins opinbera hérlendis og umsvif velferðarkerfisins eru miklu minni en gerist t.d. á Norðurlöndunum þar sem umsvifin eru helmingi meiri. Hæstv. heilbrrh. hefur þá skyldu að vernda öryggi sjúklinga og tryggja að hér sé viðunandi heilbrigðisþjónusta. Láti hún áfram viðgangast að niðurskurðinum sé beitt með svo óbilgjörnum hætti gegn þeim sem síst skyldi í þjóðfélaginu eins og sjúkum, öldruðum og öryrkjum ráðlegg ég henni að íhuga alvarlega hvað hún er að gera í stóli heilbrrh. Við erum komin að endimörkum þess sem við getum boðið sjúklingum án þess að stefna öryggi þeirra í hættu. Hvað ætlar ráðherrann að gera? Hæstv. ráðherra getur ekki komist hjá því að svara þessari spurningu.