Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:33:09 (7183)

1996-06-04 13:33:09# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:33]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Sumarlokanir hafa viðgengist árum saman á sjúkrahúsum landsins. Menn verða að átta sig á því að slíkar aðgerðir eru ekki lengur í rauninni sparnaðaraðgerðir sem farið er í til að bregðast við niðurskurði og samdrætti í fjárveitingum heldur eru stjórnir sjúkrahúsanna þegar búnar að gera ráð fyrir sumarlokunum deilda í sínum fjárhagsáætlunum. Svo er nú komið í flestum rekstrarþáttum að aðhald og sparnaður er þegar innbyggður í starfsemina og starfsáætlanir og fátt til ráða lengur.

Því miður er reyndar enn verið að auka lokanir deilda í ljósi naumrar fjárhagsstöðu. En þeim mun meiri ástæða er til að efla umræðu um þetta mál. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka málið upp og vekja athygli á hvaða áhrif allar þessar aðgerðir hafa á einstaklinga, á fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Menn geta ekki bara lokað augunum um leið og þeir loka deildunum. Menn verða að horfast í augu við afleiðingarnar og taka með í reikninginn þjáningar þeirra sem þjónustuna þurfa og erfiðleika þeirra sem verða að reyna að leysa málin þegar í óefni er komið.

Ég get ekki, herra forseti, á þessum fáu mínútum komið mörgum atriðum að í þessu mikilvæga og yfirgripsmikla máli en ég vil aðeins að lokum vitna í niðurlag margnefndrar skýrslu eða greinargerð Ríkisendurskoðunar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Vegna sumarlokana á öldrunardeildum eru þeir sjúklingar sendir heim sem hægt er að senda heim. Starfsfólk heimahjúkrunar og heimaþjónustu Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar eru sammála um að þeir sjúklingar sem verið er að sinna nú í heimahúsum séu að jafnaði verr á sig komnir en þeir voru fyrir nokkrum árum. Hjúkrunarsjúklingar flytjast enn fremur í nokkrum mæli til nánustu aðstandenda þegar til sumarlokana kemur. Því má gera ráð fyrir að umönnun og beinn og óbeinn kostnaður henni tengdur færist að einhverju marki yfir á heimilin í landinu en sá kostnaður verður ekki metinn í þessari greinargerð.``

Ég vil leggja áherslu á þennan þátt málsins í ræðu minni hér. Menn verða að fara að gera sér grein fyrir því hverra herðar það eru sem verða að bera byrðarnar af þessum sumarlokunum og þessu ástandi í heilbrigðismálunum.