Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:38:29 (7185)

1996-06-04 13:38:29# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Menn munu ekki reikna vandamálin út úr tilverunni með þeim hætti sem hér var reynt af hæstv. ráðherra. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði að menn greindu ekki á milli af hvaða sökum lokanir kæmu til, hverjar væru ástæðurnar. Menn hafa gert það. Hluta af þessum lokunum má rekja til tilrauna til að spara fjármuni. Það segir hins vegar í greinargerð frá Ríkisendurskoðun að þær hafi ekki skilað þeim fjárhagslega ávinningi sem að var stefnt til lækkunar heildarútgjalda. Þetta var einn tilgangurinn að reyna að spara peninga og það hefur ekki haft tilætluð áhrif. Síðan segir hér, og ég vil taka undir það sem fram kom í máli Kristínar Halldórsdóttur, hv. þm., enn fremur: ,,Við sumarlokanir á öldrunardeildum sjúkrahúsanna flytjast hjúkrunarsjúklingar í meira mæli til nánustu aðstandenda. Því má gera ráð fyrir að umönnun og beinn og óbeinn kostnaður henni tengdur færist að einhverju marki yfir á heimilin í landinu en sá kostnaður verður ekki metinn í þessari greinargerð.``

Þetta er einnig úr greinargerð Ríkisendurskoðunar. Þetta á líka við um aðra sjúklinga. Hér er ég með bréf frá Geðhjálp undirritað af Ingólfi H. Ingólfssyni, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Ég vil leyfa mér að vitna í þetta bréf. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Geðdeildum verður ekki lokað eins og hátæknideildum þar sem slökkt er á tækjum og sjúklingar fara á biðlista. Fjölskyldurnar ráða ekki við geðveikan einstakling á heimilum sínum. Samskipti eru í molum, börnum stafar ógn af ástandinu, fjölskyldurnar örmagnast og sjúklingarnir hrökklast að heiman og eru í reiðileysi á götum úti.``

Síðan er þetta rakið áfram. Nú er staðreyndin sú, hversu mjög sem menn reyna að reikna þessi vandamál út úr tilverunni og drepa þeim á dreif, að lokanir á geðdeildum eru svipaðar og þær voru í fyrra og þótti þá mörgum nóg um. (Gripið fram í: Meiri, meiri.) Já, vandinn er ekki minni en hann var í fyrra.

Að lokum vil ég segja í tilefni ummæla hæstv. heilbrrh. varðandi frv. um svæðisráð: Við skulum ræða þessi mál. Hér er talað um heimild til ráðherra.

(Forseti (GÁS): Tíminn er búinn.)

Ráðherra getur falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar- og endurhæfingarsamninga við starfsfólk. Hér eru boðaðar miklar kerfisbreytingar. Ég lýsi vilja til að ræða þetta en þá verðum við líka, hæstv. forseti, að fá tíma til þess. Það mun ekki standa á mér eða öðrum úr stjórnarandstöðunni að ganga til slíkra viðræðna.

(Forseti (GÁS): Forseti minnir á að hér er ræðutími tvær mínútur samkvæmt þingsköpum.)