Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:44:18 (7187)

1996-06-04 13:44:18# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. En ég hefði frekar viljað að hún snerist um það sem skiptir kannski mestu máli, þ.e. hver framtíðin er. Framtíðin hlýtur að vera skipulagsbreytingar. Menn hafa rætt hér fram og til baka hvernig ástandið er í dag. Það hefur hópur manna, fagaðilar frá öllum þessum sjúkrahúsum sem hefur verið rætt um hér í dag, komist að sameiginlegri niðurstöðu. Hundrað aðilar komust að þeirri sömu niðurstöðu að það ætti að setja á stofn svæðisráð og það ætti að auka samvinnuna milli sjúkrahúsanna hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég hélt að menn væru sammála um að ræða það. En það kom í ljós í morgun að menn stoppuðu það að hægt væri að hafa það hér á dagskrá. Það var ekki í fyrsta skipti sem það er stöðvað. Það hefur áður gerst að það hefur verið hér á dagskrá og hefur verið stöðvað. (ÁRJ: Ætlar hún að svara spurningunum?) Ég er að svara framtíðarspurningum, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Það er nefnilega ekki dagurinn í dag sem skiptir máli heldur framtíðin. Þegar skipulagsbreytingar eru lagðar fram þá tel ég að Alþingi Íslendinga eigi að ræða um það.

Hér hefur líka komið fram að það þurfi ekki lagabreytingar, að það sé hægt að gera þetta allt án lagabreytinga. Það þarf lagabreytingu til því að hver einasta stofnun lítur á sig sem sjálfstæða einingu.

Ég ætla ekki að draga úr þeim vanda sem sumarlokanirnar valda. Það er vandamál. Þess vegna skiptir máli að horfa á málið í heild sinni. En ég vil samt að það komi fram vegna þess að hér hefur sérstaklega verið talað um geðdeildirnar að samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í morgun frá Ríkisspítölum eru minni lokanir á geðdeildinni en var í fyrra. Það eru upplýsingar sem ég fæ frá Ríkisspítölum og ég vona að þær séu réttar. Ég tel að með þessu sé ég búin að svara þeirri spurningu sem hér er lögð fram.

Hver er fjárvöntun sjúkrahúsanna spyr hv. frummælandi? Fjárvöntun sjúkrahúsanna er um 400 millj. kr. En til þess að þær 400 millj. komi að gagni þá verða menn að vera tilbúnir til að taka á þeim skipulagsbreytingum sem eru nauðsynlegar því það er framtíðin.