Frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:47:07 (7188)

1996-06-04 13:47:07# 120. lþ. 160.94 fundur 344#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar# (um fundarstjórn), SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:47]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum hæstv. heilbrrh. áðan þá vil ég endilega leyfa mér að fara fram á það að þegar í stað verði efnt til umræðu um þetta frv. til laga um heilbrigðisþjónustu og að hún hefjist núna og að menn taki þann tíma í þá umræðu sem þarf. Það er bersýnilegt að stjórnarliðið hefur ákveðið að láta það mál hafa forgang. Það getur ekki verið að stjórnarandstaðan hafi minni áhuga á að ræða það mál miðað við að stjórnarandstaðan hefur aftur og aftur krafist utandagskrárumræðu um málið. Ég vísa því algjörlega á bug að sitja undir því þegjandi að það sé stjórnarandstaðan sem sé að stöðva mál af þessu tagi. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvenær hefur það gerst? Ræður ekki forseti dagskránni? Af hverju er hæstv. heilbrrh. að gera lítið úr hæstv. forseta í þessu máli? Auðvitað ræður forseti dagskrá Alþingis. Er ráðherrann að bregða forsetanum um svik og að forsetinn vinni ekki sín verk? Eða er hæstv. ráðherra að reyna að gera lítið úr forseta Alþingis í þessu máli? Hvað á þessi málflutningur að þýða?

Hér höfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar undanfarna sólarhringa aftur og aftur gert tilraunir til að halda þannig á málum að hlutirnir gengju sem eðlilegast fram þrátt fyrir gífurlegan ágreining um öll mál. Hvað gerist þá? Þá kemur hæstv. heilbrrh. sjálfur og stofnar til ófriðar enn á ný um þinghaldið við þingflokkinn. Það verður auðvitað hver að liggja eins og hann býr um sig í þessu máli. Ef hæstv. heilbrrh. vill fá umræðu um heilbrigðismál þá skal heilbrrh. fá umræðu um heilbrigðismál. Ég krefst þess sem þingmaður af forsn. að hér verði efnt til umræðu um heilbrigðismál og það strax.