Frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:54:23 (7194)

1996-06-04 13:54:23# 120. lþ. 160.94 fundur 344#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:54]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Ég óska eftir að gert verði hlé á þessum fundi og þessi mál rædd og dagskránni verði breytt. Það er ekki nóg fyrir mig eftir að hafa setið undir svigurmælum hæstv. heilbrrh. að þetta mál sé þarna númer 13, 14 eða 15 eða 20 á einhverri dagskrá. Ég óska eftir að fundinum verði frestað þannig að menn geti rætt málin.

Ég vísa því algerlega á bug sem hæstv. heilbrrh. sagði áðan að ég hefði stoppað málið. Ég er einn af 63 af þessu þingi. Sá sem ræður dagskránni er forseti Alþingis, hann ræður dagskránni. Og við höfum sagt við forseta aftur og aftur og reyndar hér í þessum ræðustól: Við leggjumst ekki gegn því að málið verði tekið fyrir, það er ykkar að ráða því. Ef meiri hlutinn vill sitja fram eftir sumri yfir þessu máli þá er það hans mál.

Ég held því að það sé alveg óhjákvæmilegt að fara fram á það við hæstv. forseta að núna verði gert hlé á þessum fundi þannig að það verði hægt að ræða um þingstörfin almennt. Ég óska eftir því sem formaður míns þingflokks að þær umræður fari fram til að það komi líka fram hvað hæstv. heilbrrh. vill. Er ráðherrann að gera kröfu um að þetta mál verði rætt og afgreitt og gert að lögum án þess að viðkomandi aðilar fái að segja sína skoðun á málinu? Það rignir hingað inn skeytum og bréfum og áköllum um að fólk fái að fjalla um þetta mál. Er ráðherrann að gera kröfu um að það fáist ekki og verði ekki gert eða hvað? Hvað á þessi yfirgangur ráðherrans að þýða í þessu máli?