Frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:18:35 (7198)

1996-06-04 14:18:35# 120. lþ. 160.94 fundur 344#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar# (um fundarstjórn), RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Snörp viðbrögð 8. þm. Reykv. og ósk hans um að breyta þeirri dagskrá sem fyrir liggur í dag voru mjög eðlileg í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram skömmu fyrir þinghlé og eins viðbrögð okkar þingflokksformanna sem höfum viljað leggja okkar af mörkum til að eiga gott samstarf við forseta þingsins sem ég hef ítrekað lofað í erfiðri stöðu.

Ég fagna því að niðurstaða hefur náðst í málinu og vek athygli á því að þingflokksformenn hafa fallist á tillögu forseta og formanna þingflokka stjórnarflokkanna um að við höldum áfram með þá dagskrá sem hér er. Um það mál hefur náðst sátt og við munum standa við þetta samkomulag sem gert var á fundi forseta fyrir stundu.