Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:23:38 (7202)

1996-06-04 14:23:38# 120. lþ. 160.6 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:23]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það fer nú að draga að lokum umræðunnar um fjármagnstekjuskattinn og ástæða til að segja nokkur orð um þetta frv. sem hér er til umræðu miðað við stöðu þess eins og það var lagt fyrir við 1. umr.

Það er ljóst af þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir þessari umræðu að ekki hafa orðið neinar grundvallarbreytingar sem máli skipta í meðförum efh.- og viðskn. á þessu frv. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að meiri hlutinn hefur kosið að taka ekki meira mið af tillögum minni hlutans og þess frv. sem við þrír formenn stjórnarandstöðuflokkanna lögðum fram en raun ber vitni.

Það er staðreynd að pólitísk samstaða er um það á þingi og úti í þjóðfélaginu að leggja á fjármagnstekjuskatt. En spurningin er um útfærsluna. Einmitt það hefur okkur greint á um í þessari umræðu. Í mínum huga er það grundvallaratriði þegar við leggjum á fjármagnstekjuskatt að þetta sé raunverulegur skattur á fjármagnseigendur, þá sem eiga peninga í þessu þjóðfélagi og að það fjármagn sem við fáum út úr þeim skatti verði nýttir til að lækka skattbyrði á fólk með lágar tekjur og meðaltekjur. Einnig er grundvallaratriði í mínum huga að í fjármagnstekjuskattinum sé útfærslan með þeim hætti að í honum felist ákveðið frítekjumark sem tryggi að almennum sparnaði sé hlíft við skattlagningu.

Ekkert af þessum almennu atriðum er að finna í þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Ég held að í hugum flestra úti í þjóðfélaginu, nema kannski þeirra sem eiga fjármagnið, sé fjármagnstekjuskattur eitthvað sem þýðir að þeir sem bera meira úr býtum í þjóðfélaginu, þeir sem eiga peningana og fjármagnið leggi sinn eðlilega skerf til þjóðfélagsins til að jafna byrðarnar og jafna kjörin. Ég hygg að þegar fólkið í landinu fer að finna fyrir útfærslunni á fjármagnstekjuskattinum verði það fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að það er ekki bara í þessari útfærslu að ekki er verið að skattleggja fólk sem á peningana, sem á eignirnar í þjóðfélaginu, heldur er verið að draga úr skattlagningunni á þetta fólk. Fjármagnstekjuskatturinn er raunverulega skattur á venjulegan almennan sparnað hjá launafólki og þeim sem eitthvað lítilræði geta lagt fyrir. Að auki er það grundvallaratriði þegar við skoðum þessar tvær útfærslur sem hér hafa verið til umræðu að sú útfærsla, sem við leggjum til, felur bæði í sér það að jafna kjörin, flytja fjármagn frá þeim sem eiga peningana til þess að jafna kjörin í þjóðfélaginu og hún skilar líka miklu meira inn í ríkissjóð. Þannig liggur það fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar munu einungis skila um 800 millj. kr. í ríkissjóð en tillögur sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram munu skila um 1.700 millj. kr.

Það sem helst er ámælisvert við frv. er að það er verið að mismuna fólki í landinu eftir því hvort það aflar sér tekna sinna með beinum launagreiðslum eða hvort það hefur tekjur af arði og söluhagnaði. Þannig er ljóst að þeir sem greiða til samfélagsins af sínum tekjum borga um 40% skatt en þeir sem hafa stóran hluta tekna sinna af arði eða söluhagnaði munu einungis greiða um 10%. Í þessu felst mikið óréttlæti, virðulegi forseti, sem mig undrar að meiri hlutinn hafi ekki séð ástæðu til að breyta. Enn meira undrar mig það þegar ASÍ, sem hefur talað fyrir þessari útfærstu, sér svart á hvítu hvernig útfærslan er sem er ekki til hagsbóta fyrir almennt launafólk í landinu, skuli ekki bregðast við og reyna að fá breytt þeirri útfærslu sem hér liggur fyrir. BSRB hefur aftur á móti skilað inn áliti sínu, umsögn sinni, þar sem þeir raunverulega taka undir útfærslu þá sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til og færa fyrir því sambærileg rök og við höfum gert.

Ég nefndi hvernig arður og söluhagnaður er skattlagður núna með 10% skatti eftir þessar breytingar en hjá launafólki er skatturinn yfir 40%. Það sem kemur fram, m.a. í nál. meiri hlutans, er einmitt athyglisvert. Það er möguleiki á því og við verðum bara að horfast í augu við það hvað er raunverulega að gerast. Þó ekki sé hægt að segja að verið sé að auka skattsvik í þjóðfélaginu með þessu frv. þá er verið að heimila löglega en siðlausa leið til að flytja fjármagn yfir í arð og söluhagnað til þess að greiða af honum einungis 10% skatt í staðinn fyrir 40%. Þannig segir í nál. minni hluta:

[14:30]

,,Samþykkt stjórnarfrv. gerir þeim aðilum, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni, mögulegt að breyta þeim rekstri í einkahlutafélög og taka úr því félagi í formi arðs verulegan hluta þess fjár sem áður hefur verið skattlagt hjá þeim sem reiknað endurgjald eða rekstrarhagnaður. Með því að taka það út úr fyrirtækjunum sem arð verður það einungis skattlagt með 10% skatti í stað rúmlega 40% nú. Ekki þurfa miklar breytingar að verða til þess að skatttekjur ríkisins minnki verulega.``

Í raun og veru er verið að segja að hér geti verið um stórfellda fjármagnsflutninga að ræða. Þeir sem eiga peningana geta í stað þess að greiða af þeim 40% skatt eins og launamenn gera breytt sínu rekstrarformi á þann hátt að þeim verður gert kleift að greiða stóran hluta í formi arðs eða söluhagnað sem einungis er skattlagður með 10%.

Virðulegi forseti, á meðan ég er að ræða þennan þátt málsins vil ég óska eftir því að hæstv. heilbrrh. verði gert viðvart. Ég þarf að eiga við hana orðastað undir þessari umræðu.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess.)

Ég vil minna á að það er búið að opna leið fyrir sjálfstæða einstaklinga og rekstraraðila til að breyta rekstrarformi sínu yfir í einkahlutafélög. Ég spurðist fyrir um það, virðulegi forseti, á þessu þingi hve margir hefðu nýtt sér þá breytingu sem varð á lögum um einkahlutafélög, hve mörg hlutafélög og einkahlutafélög hefðu verið skráð frá því að lög um einkahlutafélög tóku gildi 1. jan. 1995 og hvernig þau skiptust eftir starfsgreinum. Þar kemur fram að einkahlutafélög skráð 1995 eru 628 og einkahlutafélög sem áður voru hf. eru 404. Það er því alveg ljóst að það eru margir sem hafa nýtt sér þetta rekstrarform sem felur í sér skattalegt hagræði og skattstjórar raunverulega viðurkenna það í umsögn sinni til efh.- og viðskn. Og þegar fleiri fara að átta sig á þessu skattalega hagræði sem er í rekstri að breyta þessu yfir í einkahlutafélög þá er ég hrædd um að einkahlutafélögum muni verulega fjölga. Það kemur greinilega fram að skattyfirvöld hafa áhyggjur af þessu og vekja athygli á hættunni í sinni umsögn sem útfærsla ríkisstjórnarflokkanna getur falið í sér. Þeir orða það ekki þannig að þetta sé löglegt undanskot en í raun og sanni er það það sem hægt er að lesa í gegnum línurnar í umsögnum skattyfirvalda.

Minni hluti efh.- og viðskn. hefur tekið dæmi um hvað það raunverulega þýðir að greiða einungis 10% skatt af fjármagnstekjum sínum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hægt er að taka dæmi um félag sem hefði greitt 10% arð, alls 50 millj. kr., og ef 30 eigendur hefðu átt í þessu félagi þyrftu þeir samkvæmt núgildandi skattalögum að greiða 19,3 millj. kr. í skatt. Ef hins vegar frumvörp ríkisstjórnarinnar verða samþykkt munu þessir eigendur hlutafjárins einungis greiða 5 millj. kr. í skatt. Þeir fá þannig 14,3 millj. kr. skattalækkun, ...``

Hér er, virðulegi forseti, einungis verið að taka lítið dæmi. Annað dæmi er hér tekið:

,,Einnig er hægt að sýna fram á einfalt dæmi um 800 millj. kr. söluhagnað eigenda sem seldu hlutabréf í fyrirtæki sínu. Í núverandi kerfi mundu þeir greiða 330 millj. kr. skatt. Frumvörp ríkisstjórnarinnar gera hins vegar ráð fyrir að þeir muni einungis greiða um 80 millj. kr. í skatt. Í þessu dæmi er um skattalækkun að ræða sem nemur um 250 millj. kr.``

Það er alveg ótrúlegt að ræða hér fjármagnstekjuskatt og loksins þegar hann virðist í höfn er verið að lækka gífurlega skatta með þeirri aðferð sem ríkisstjórnin ætlar að beita þeim til handa sem raunverulega eiga fjármagnið í þjóðfélaginu. Við erum því að útbúa hér farveg fyrir miklar fjármagnstilfærslur sem fela í sér aukið fjármagn til þeirra sem fjármagnið hafa fyrir í þjóðfélaginu en þeir sem þurfa að bera fjármagnstekjuskattinn eru aldraðir, launafólk sem tekst að kreista eitthvað af sínum launum inn á sparireikning o.s.frv. Það er ótrúlegt. Mér finnst ótrúlegt að vita til þess núna þegar þetta frv. verður kannski að lögum á þessum sólarhringi að útfærslan sé með þessum hætti og stjórnarflokkarnir hafi ekki séð að sér.

Hér er t.d. tekið dæmi um Sameinaða verktaka og þar segir orðrétt: ,,Nú bíða 2--3 milljarðar af óskattlögðu eigin fé Sameinaðra verktaka þess að frumvarp ríkisstjórnarinnar verði samþykkt.`` Þeir bíða þess að það sé verið að útfæra fjármagnstekjuskattinn með þeim hætti að þeir hafi enn meiri gróða en þeir áður hafa haft. Mér finnst alveg skelfilegt, virðulegi forseti, að útfærslan skuli vera með þessum hætti. Ég nefndi aldraða hér áðan og ég þakka fyrir að hæstv. heilbrrh. er mættur til umræðunnar. Mig fýsir að vita hvort virkilega eigi að afgreiða frv. nú við þessa umræðu án nokkurrar yfirlýsingar frá hæstv. heilbrrh. um það hvort virkilega eigi að haga útfærslunni með þeim hætti að það eigi að tvískattleggja aldraða. Það lá mikið á að skattleggja gamla fólkið fyrir jólin. Menn vildu endilega flýta sér að setja fjármagnstekjuskatt á aldraða þannig að 50% af vaxtatekjum þeirra samkvæmt lögum nú eiga 1. sept. nk. að koma til frádráttar bótum og lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Nú erum við að setja á fjármagnstekjuskatt sem á að taka gildi nk. áramót. Þá spyr ég: Eiga aldraðir að sæta því að vaxtatekjur hafi áhrif til skerðinga á bætur lífeyrisþeganna, bætur gamla fólksins, bætur öryrkjanna og þurfa jafnframt að borga 10% vaxtaskatt af sínum fjármagnstekjum? Mér fannst hæstv. ráðherra tala þannig fyrir jólin að hann mundi af alefli beita sér fyrir því ef fjármagnstekjuskattur kæmist á að honum yrði hagað með þeim hætti að það yrði ekki um tvísköttun að ræða á gamla fólkið. Því vil ég ekki, virðulegi forseti, að þessari umræðu ljúki án þess að hafa heyrt afstöðu hæstv. ráðherra til þeirrar niðurstöðu sem virðist blasa við gamla fólkinu og öryrkjum reyndar líka.

Ég ræddi um einkahlutafélögin áðan og hvernig væri hægt að nýta þau samfara þessu frv. til að auka fjármagnstekjur þeirra sem meira mega sín og talaði þar um skattrannsóknastjóra í því sambandi. Ég ætla að vitna til þess sem fram kemur í Tímanum í dag í þessu efni. Þar segir:

,,Í umsögn frá skattrannsóknastjóra um frumvarpið kemur fram að um verulega hagsmuni verði að ræða fyrir einstaklinga í atvinnurekstri að stofna til einkahlutafélaga og taka síðan greiðslur frá þeim í formi arðs. Ríkisskattstjóri tók í sama streng og skattrannsóknastjóri í sinni umsögn og taldi að ef allar fjármagnstekjur væru skattlagðar með mun lægri skattaprósentu en launatekjur muni það örugglega hafa þau áhrif að þeir aðilar er eiga þess kost muni taka laun sín út sem arð, vexti og leigu.``

Þetta eru ekki orð stjórnarandstöðuþingmanna sem hafa talað gegn þessari útfærslu, virðulegi forseti. Þetta er álit sem kemur fram í umsögn hvorki meira né minna en frá skattrannsóknastjóra og skattyfirvöldum að sá leikur verði leikinn að færa tekjur yfir í arð og söluhagnað til að borga einungis af þeim 10% skatt í staðinn fyrir yfir 40%. Mér hrýs hugur við því, virðulegi forseti, til hvers þetta leiðir og í hvaða ógöngur við erum að fara með þessari útfærslu sem hér er lögð til.

Ég hélt satt að segja líka og það væri gott að fá álit hæstv. heilbrrh. á því að það yrði fallið frá því að láta þessa skattlagningu koma niður á félagasamtökum, líknarfélögum, íþróttafélögum og sjúkrasjóðum o.s.frv. Er hæstv. heilbrrh. sammála því að skattlagningin komi niður á þessum hópum sem ég hélt nú satt að segja að væri pólitísk samstaða um að hlífa við skattlagningu? Það hafa stundum verið nefndar leiðir þegar menn hafa verið í vandræðum með hvar eigi að afla tekna í ríkissjóð að fara í happdrættin sem íþróttafélögin og líknarfélögin hafa fjármagnað sinn rekstur með. En menn hafa aldrei lagt í það. Menn hafa bundist um það pólitískri samstöðu að það væri ekki rétt að skattleggja þannig mikilvæga starfsemi líknarfélaga og íþróttafélaga. Ég veit ekki betur en íþróttahreyfingin berjist í bökkum fjárhagslega. Nú á að fara að setja fjármagnstekjuskatt á líknarfélög og íþróttafélög. Ég veit að hæstv. heilbrrh. talar mikið fyrir forvarnastarfi og heilbrigði. Ég hélt að íþróttir væru þáttur í því og það væri því hvorki rétt né eðlilegt né í samræmi við stefnu ráðherrans að vera að skattleggja íþróttahreyfinguna eða íþróttafélög.

Þannig er ýmislegt, virðulegi forseti, í þessari útfærslu sem segir okkur bara það eitt að þetta frv. er stórgallað. Mér finnst nokkuð alvarlegt að það skuli ekki vera neitt frítekjumark í þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin leggur upp með. Samkvæmt þeim tillögum sem við höfum lagt fram sem ekki hefur því miður verið mikið hlustað á erum við einmitt að hlífa almennum sparnaði í landinu. Samkvæmt okkar útfærslu geta hjón t.d. fengið 137 þús. kr. í vaxtatekjur á ári án þess að greiða af þeim neinn skatt og einstaklingur um 70 þús. kr. í vexti án þess að greiða af þeim skatt. Þetta jafngildir því að hjón eigi 2,4 millj. kr. í innstæðu án þess að greiða af þeim vaxtaskatt. Nei, það er ekki farin sú leið að veita þarna ákveðið frítekjumark heldur er fundin leið til að auðvelda þeim sem í raun eiga fjármagnið að flytja sínar tekjur yfir í arð til að greiða af þeim 10% skatt í staðinn fyrir 40%. Mér finnst alveg ótrúlegt, herra forseti, að það hafi frekar verið horft til þess hvernig hægt væri að hlífa hinum raunverulegu fjármagnseigendum í staðinn fyrir að velta fyrir sér hvernig væri hægt að hlífa venjulegum smásparnaði hjá launafólki í landinu. Fyrir því eru líka færð rök í því frv. sem við höfum lagt fram að 50% af skattinum myndist á tveimur efstu tekjubilum framteljenda eða þeim sem mestar fjármagnstekjur hafa. Við sýnum jafnframt fram á í okkar tillögum að í frv. ríkisstjórnarinnar yrði létt sköttum af þeim sem mest hafa fyrir.

Ég yrði ekki hissa, virðulegur forseti, og skal ég nú fara að ljúka máli mínu, þó fram kæmi tillaga hér á þinginu næsta haust um að lækka eignarskattinn. Nýta fjármagnið. Ef ríkisstjórnin hefur yfirleitt eitthvert fjármagn af þessum fjármagnstekjuskatti. Ef þetta rennur ekki allt út úr ríkissjóði vegna þess að svo margir munu nýta sér t.d. einkahlutafélagaformið og að færa verulegan hluta af þessu yfir í arð að það fari meira út úr ríkissjóði en komi ekkert í hann. En ef svo færi að þetta skilaði nú einhverjum tekjum þá kæmi mér ekki á óvart að hér yrðu lagðar fram tillögur um að lækka eignarskattinn og að fjármagnið sem af þessu hugsanlega fengist yrði nýtt með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Allt ber að því sama í þessu frv. Útfærslan er meingölluð og hún gengur gegn þeim meginmarkmiðum sem á að vera með upptöku fjármagnstekjuskatts, þ.e. að hinir raunverulegu fjármagnseigendur beri hann, að það sé ákveðið frítekjumark þannig að tryggt verði að almennum sparnaði verði hlíft og að tekjur af fjármagnstekjuskatti verði nýttar til að lækka skatta hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Ekkert af þessum markmiðum næst fram í þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin leggur til og er það miður. Raunverulega er eina vonin að ríkisstjórnin fari sem fyrst frá þannig að stjórnarmeirihluta sem hefur jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi gefist sem fyrst tækifæri til þess að breyta þeim lögum sem eru að ganga í gegn á þessum sólarhring. Ég hef miklar áhyggjur af því að þessar breytingar muni fela í sér mikla fjármagnsflutninga til þeirra ríku og ekki vera sá fjármagnstekjuskattur sem fólkið í landinu hefur beðið eftir og hefur haft trú á að mundi jafna hér kjörin. Því miður erum við að fara aðra leið í útfærslunni og harma ég það mjög.

Að lokum ítreka ég tvær spurningar sem ég bar fram við hæstv. ráðherra. Þær eru varðandi tvísköttun á aldraða sem ég lít svo að að sé með því að enn stendur eftir að 1. sept. nk. munu vaxtatekjur skerða bætur almannatrygginga. Eins spyr ég hæstv. heilbrrh., sem hefur mikinn áhuga á forvörnum og hefur viljað leggja því lið og halda á lofti þeirri stefnu, hvort hún sé því virkilega sammála að skattleggja líknarfélögin og íþróttafélögin í landinu?