Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:49:10 (7204)

1996-06-04 14:49:10# 120. lþ. 160.6 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi svör valda mér miklum vonbrigðum. Ég hélt satt að segja að ég gæti gengið í ræðustól eftir ræðu ráðherrans þar sem ráðherrann mundi lýsa því yfir að hún mundi beita sér fyrir því að aldraðir þyrftu ekki að sæta þessari tvísköttun. Vissulega er það tvísköttun þegar verið er að fara með sama peninginn, sömu tekjurnar sem aldraðir hafa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi að láta þær virka á lífeyrisgreiðslurnar til skerðingar og í annan stað að taka af þessum sömu krónum fjármagnstekjuskatt. Þetta er ekkert annað en tvísköttun. Ég trúi því ekki að ráðherrann láti umræðuna líða án þess að lýsa því yfir að hún telji þetta óréttlátt og að hún muni stuðla að því og beita sér fyrir því að reyna að breyta þessu. Nái ráðherrann því ekki í gegn um ríkisstjórnarflokkana þá skil ég það. En ráðherrann hefur þá a.m.k. reynt. Hún hefur ekki einu sinni uppi tilburði til þess að verja aldraða og segjast a.m.k. ætla að reyna að fá það í gegnum Sjálfstfl. að um tvísköttun verði ekki að ræða.

Hæstv. heilbrrh. veldur mér miklum vonbrigðum. Ég spyr aftur: Getur verið að ráðherrann ætli ekki að beita sér fyrri að afnema þessa tvísköttun? Ef svo er ekki þá er ráðherrann mjög langt leiddur. Ég trúi því ekki að í þessu máli muni Sjálfstfl. enn rúlla yfir Framsfl.

Ég nefndi ekki happdrættin. Ég sagði að stundum hefðu verið uppi áform um að skattleggja happdrættin en nú ætti að fara að skattleggja líknarfélög og íþróttafélög. Ég spurði hvort ráðherrann væri sammála því. Ég ítreka þá spurningu og spyr aftur hvort ég hafi virkilega heyrt rétt áðan að ráðherrann var að lýsa því yfir að það væri allt í lagi þó að aldraðir hefðu tvísköttun af fjármagnstekjum af sínum vaxtatekjum. Ég trúi þessu ekki.