Staðgreiðsla opinberra gjalda

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:56:31 (7207)

1996-06-04 14:56:31# 120. lþ. 160.10 fundur 449. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (persónuafsláttur barna, uppsafnaður persónuafsláttur) frv. 102/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fyrr á þessum vetri flutti ég ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur frv. sem fól í sér tvær efnisbreytingar. Í fyrsta lagi að einstæðir foreldrar gætu nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna sinna, sem er mikið réttlætismál og margoft hefur verið flutt á þingi, að þeir gætu nýtt ónýttan persónuafslátt með sama hætti og hægt er að nýta hann á milli hjóna. Þetta væri leið til þess að bæta verulega framfærslukostnað heimilanna eða heimila einstæðra foreldra en því miður, virðulegi forseti, hefur ekki náðst samstaða um það í efh.- og viðskn. að mæla með slíkri breytingu. Þessi liður frv. verður því væntanlega endurfluttur á næsta hausti og aftur gerð tilraun til þess að freista þess að ná samstöðu um þann þátt málsins.

Hins vegar er fyllsta ástæða til þess að þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir það að mæla með síðari efnisþætti frv. sem er mjög mikilvægur fyrir atvinnulausa. Þessi leið felur í sér að hægt verður að nýta sér ónýttan persónuafslátt á árinu hversu lítill sem hann er en núverandi regla gerir ráð fyrir að rétturinn falli niður ef launamaður hefur nýtt meira en 50% af persónuafslætti sínum þegar komið er fram yfir mitt staðgreiðsluár eða flutt hann til maka. Í frv. er líka fellt niður skilyrði um að komið þurfi að vera fram yfir mitt staðgreiðsluár. Þannig getur t.d. launþegi sem hefur starfað 1. apríl á staðgreiðsluári farið fram á að fá að nýta sér uppsafnaðan afslátt fyrir fyrstu þrjá mánuði. Ég tel að þó að þetta frv. sé ekki stórt í sniðum feli það í sér bætur, lagfæringu fyrir fólk sem er t.d. atvinnulaust. Því fagna ég að hv. efh.- og viðskn. hefur tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem við settum fram í frv. og vænti ég þess, virðulegi forseti, að þetta frv., þessi þáttur málsins, verði þá að lögum á þessu þingi.