Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:31:17 (7232)

1996-06-04 17:31:17# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:31]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að minna á að ríkið rekur allar þessar stofnanir og auðvitað reynir maður að finna hagkvæmustu lausnina fyrir ríkið. Hér talaði hv. síðasti ræðumaður um að þetta væri aðeins örlítill biti af heildardæminu. Hér erum við að tala um stærsta bitann. Við erum að tala um 12 milljarða veltu. Og hún spyr líka: Hvernig rímar þetta við svæðaskipulagið? Þetta rímar algerlega við svæðisskipulagið og næstu daga mun sú nefnd sem hefur verið að vinna að svæðaskipulaginu skila af sér. Ég hef séð fyrstu drög og þetta rímar nákvæmlega við. Það svarar spurningu, af hverju Selfoss er ekki þarna inni og af hverju Akranes er ekki þarna inni. Vegna þess að þeir eru í annarri heild, þar sem ein stjórn er fyrir allt heila héraðið.

Hér hefur líka mikið verið spurt að því hvað það þýði að þessi stjórn tekur að sér visst skipulag. Stjórnin eða svæðisráðið mun ekki reka t.d. þetta teymi sérfræðinga heldur mun það skipuleggja það. Síðan mun stjórnin reka framkvæmdina eins og verið hefur. Ég nefni sem dæmi að ef skipulagningin yrði á höndum svæðisráðs þá gæti t.d. lýtalæknir eða beinasérfræðingur verið á fleiri en einu sjúkrahúsi og farið á milli eftir því sem hentar varðandi skurðstofur, aðstöðu og annað.

Varðandi samræmda starfsmannastefnu, þá tel ég það vera mjög mikilvægt að allir starfsmenn búi við svipuð skilyrði. Þetta eru allt starfsmenn ríkisins þegar upp er staðið.

Ég tel að ég hafi svarað öllum spurningum nema þessari: ,,Hvað sparar þetta?`` Samkvæmt nefndarálitinu sem ég hef nú vitnað í nokkrum sinnum, mun þetta spara á ársgrundvelli kringum 230 millj. Að vísu er stofnkostnaður í upphafi en þegar þetta fer að rúlla, þá mun þessi eina breyting spara a.m.k. 230 millj. í rekstrarkostnaði.