Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:33:46 (7233)

1996-06-04 17:33:46# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:33]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði að því hvort það væri ekki nær að ræða það fyrst hvort það eigi að taka upp svæðisskipulag áður en byrjað er að framkvæma það. Sú umræða og stefnumótun á algerlega eftir að fara fram á Alþingi hvað sem líður tillögum nefndarinnar sem hugsanlega er að skila af sér á næstu dögum. Mér finnst miklu eðlilegra að menn séu fyrst búnir að móta stefnuna áður en byrjað er að framfylgja henni. En það er ekki þar með sagt að þetta ráð komi ekki til greina og sjálfsagt getur samvinna og samræming milli sjúkrahúsanna sparað heilmikið. Ég er ekkert að draga það í efa. Ég er einfaldlega að reyna að átta mig á því, hvað það er sem hér er verið að tala um.

Varðandi þessa þjónustukjarna þá stendur einfaldlega í frv., með leyfi forseta: ,,Jafnframt getur ráðherra falið ráðinu rekstur þjónustukjarna ...`` og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að ráðið eigi að annast rekstur eða sjá um reksturinn innan þessa skipulags sem væntanlega er undir yfirráðum þess hvort sem það er innan eða utan sjúkrahúsa eða hvernig það er. Þarna þarf einfaldlega að kynna sér hvað býr að baki.

Það er búið að útvega okkur þessa skýrslu. Þökk sé þeim sem það gerði og þar með verður þessi umræða kannski markvissari ef hægt er í leiðinni að fletta upp í skýrslunni og átta sig á því hvaða hugmyndir það eru sem búa að baki. En ég ítreka það aftur að málið er flókið og þarf að fá góða umræðu og viðbrögð þeirra sem eiga að vinna undir þessu skipulagi.