Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:36:20 (7234)

1996-06-04 17:36:20# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að undrast það að hæstv. heilbrrh. skuli leggja hér fram svona gagngera breytingu á málefnum sjúkrahúsanna á suðvesturhorninu á næstsíðasta degi þingsins samkvæmt áætlun þingforseta. Það getur vel verið að þessar tillögur ráðherrans geti sparað eitthvað. Ég ætla ekki að mótmæla því að það geti verið einhver sparnaður í því að samræma störf og verkefni þeirra sjúkrahúsa sem eru á þessu svæði. Aftur á móti eru margir miklir gallar á frv., a.m.k. vafamál sem þarf að ræða og skýra nánar.

Ég vil byrja á því að benda á það atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í upphafsmáli sínu þegar hún mælti fyrir frv., og nú þegar hefur verið ákveðið að taka út úr frv., og það er að ráðherra geti falið þessu svokallaða svæðisráði að annast samninga við starfsfólk. Það hefði náttúrlega verið fullkomlega óeðlilegt að ráðherra hefði farið að hlutast til um samninga við starfsfólk t.d. Sjúkrahúss Reykjavíkur því að þar er um borgarstarfsmenn að ræða og því hefði ráðherra verið að blanda sér í málefni Reykjavíkurborgar ef hún hefði falið ráðinu að annast samninga við starfsfólk þannig að ég fagna því að ráðherrann skuli hafa séð þann galla á þessari lagagrein. (Heilbrrh.: Gjöf Njarðar?) Ég er nú ekki á því að það eigi að kalla þetta gjöf Njarðar.

Aftur á móti vil ég nefna skýrsluna sem hæstv. ráðherra lét vinna í ráðuneytinu um aukna samvinnu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég man að ég fékk þessa skýrslu ekki alls fyrir löngu í hólfið mitt í þinginu en ákvað að geyma aðeins að lesa hana vegna þess mikla pappírsflóðs sem yfir okkur þingmenn flæðir þessa dagana og hefur mér ekki gefist tóm til að skoða skýrsluna sem skyldi vegna anna í þinginu. A.m.k. hafa stjórnarandstæðingar haft nóg annað að gera en að lesa slíkar skýrslur.

Mig langar einnig til að nefna í því sambandi að í heilbrrn. hefur verið unnin allmikil skýrsluvinna undanfarin ár um einmitt sjúkrahús og heilbrigðisþjónustu. Ég vil minna á skýrslu sem útlent fyrirtæki var látið vinna fyrir einn af fyrrv. heilbrrh., fyrirtæki sem heitir Ernst og Young. Síðan er --- ég er bara með nokkrar af þessum skýrslum sem ég tók af rælni úr hillunni hjá mér --- skýrsla sem gerð var 1992 frá fyrrv. heilbr.- og trmrh., Sighvati Björgvinssyni, sem vinnuhópur, áreiðanlega ekkert minni en vinnuhópur hæstv. ráðherra nú, vann um málefni sjúkrahúsa en það var heilmikil vinna sem var í gangi í ráðuneytinu á hans tíma og kom með tillögur í málefnum sjúkrahúsanna. Ríkisendurskoðun er nýbúin að senda okkur góðan doðrant um stjórnsýsluendurskoðun á m.a. Sjúkrahúsi Suðurnesja sem er dágóð lesning og ýmsar aðrar skýrslur hafa okkur borist. Ég vil líka nefna stefnumótun ráðherrans, um heilsugæslustofnanir og stjórnsýslu, sem enn önnur nefndin vann fyrir hæstv. ráðherra og kom sú stefnumótun út í júní 1995 þar sem þessar hugmyndir um kjördæmastjórnir í heilsugæslunni eru. Ég ætla ekki að lasta neitt þá vinnu sem farið hefur fram hjá þessum hópum en hefði talið æskilegt að þingmenn sem eiga eftir að fjalla um þessi mál hefðu farið og fengið kynningu á þessu, ekki aðeins í skýrsluformi heldur kannski einnig tekið umræðu, t.d. um þessa skýrslu um heilsugæslustofnanir og stjórnsýslu, hvað þá skýrslu nefndarinnar sem vann forvinnuna fyrir frv. sem hér er til umræðu nú. Mikil hefur skýrsluvinnan verið í heilbrrn. og veitir svo sem ekkert af að vinna ýmsa stefnumótunarvinnu þar.

Eins og komið hefur fram hjá þeim sem talað hafa á undan mér, þá er þarna um þó nokkuð miklar breytingar að ræða. Mig langar aðeins að varpa nokkrum spurningum fram um atriði sem mér hafa fundist nokkuð óljós í þessu máli ráðherrans, svo sem það atriði í hlutverki ráðsins þar sem segir að ráðherra geti falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar og endurhæfingar. Það hefur ekki komið fram hvers vegna það væri aðeins á sviði öldrunar og endurhæfingar. Ég ætla ekki aðeins að spyrja um það heldur einnig um samræmingu á starfsmannastefnu. Ég hefði gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hún hefur hugsað sér að starfsmenn kæmu þá að þeirri vinnu ef ráðið á að fara að hlutast til um starfsmannastefnuna.

Mig langar einnig til að spyrja hæstv. ráðherra út í það hlutverk ráðsins að heilbrrh. geti falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna. Hann getur falið ráðinu rekstur þjónustukjarna, sérfræðinga á einstökum lækningasviðum o.s.frv. og ég velti því fyrir mér hvort þarna sé verið að fara út á einhverja einkavæðingarbraut. Er þarna verið að opna á það í þessu máli? Mér finnst ekki koma ljóst fram í greinargerðinni eða í frv. hvort að sé vilji ráðherrans.

Auðvitað hefur þessi nefnd sem starfaði fyrir ráðherrann verið að vinna þarna ákveðna stefnumótunarvinnu fyrir hæstv. ráðherra. En ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að stefnumótunin á að vera stjórnmálamannanna og sú stefnumótun þarf auðvitað að fara fram á Alþingi. En það sakar þó ekki að sérfróðir aðilar hafi unnið forvinnuna.

Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að þau sjúkrahús sem hér er talað um að eigi að sameina eða auka samstarfið hjá hafa nánast sent út neyðarkall með ósk um að fá að koma að málinu og lýsa yfir sínum skoðunum, koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Að sjálfsögðu er það alveg ljóst þegar maður skoðar þetta mál betur að það þarf að fara fram mjög gagnger umræða um málið í hv. heilbr.- og trn. Það þarf að kalla til fulltrúa þessara sjúkrahúsa og fleiri.

Ég hefði líka gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hver sé staða stjórna sjúkrahúsanna gagnvart þessu yfirráði eða svæðisráði sem hæstv. ráðherra hyggst koma á laggirnar hér á suðvesturhorninu. Ég velti því líka fyrir mér, og gerði það strax þegar ég las þetta í gegn, hvers vegna fleiri sjúkrahús á þéttbýlissvæðinu voru ekki með og það hefur einmitt verið spurt um það hér. Hvers vegna ekki sjúkrahús Akraness og hvers vegna ekki Sjúkrahús Suðurlands? Heilbrigðisráðherrar hafa ekki vílað fyrir sér að senda t.d. hjúkrunarsjúklinga héðan úr Reykjavík út á land, á Suðurland langt fjarri heimahögunum til að eyða þar ævikvöldinu og hefur það verið gagnrýnt mjög. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna menn ættu þá ekki að geta farið til Selfoss eða á Akranes í ákveðnar aðgerðir sem er þá yfirleitt styttri dvöl. Ég hef ekki fengið viðhlítandi skýringar ráðherrans á því hvers vegna þetta var einskorðað við þau sjúkrahús sem nefnd eru í frv., en þau eru sjúkrahúsin í Reykjavík og á Reykjanesi, þ.e. Ríkisspítalarnir, Sjúkrahús Reykjavíkur, Sjúkrahús Suðurnesja í Reykjanesbæ og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði.

[17:45]

Ég hef heldur ekki fengið alveg greinilega fram hjá hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst spara með frv. Auðvitað geta menn sagt sér það sjálfir að ef farið er út í verkaskiptingu, þá ætti það auðvitað að spara að einhverju leyti. En ég get ekki séð að það sé nauðsynlegt að setja þetta ráð á laggirnar til þess að gera slíkar sparnaðarráðstafanir. Ég get ekki séð að það séu nauðsynlegt.

Mig langar líka aðeins til að varpa fram gagnrýni minni á það hvernig þetta ráð er skipað. Það er gert ráð fyrir að formenn stjórna sjúkrahúsanna verði í þessu svæðisráði. Það má geta þess að yfirleitt eru formenn sjúkrahússtjórna pólitískt skipaðir og yfirleitt flokksmenn ráðherrans (Gripið fram í.) eða samstarfsflokksins. En síðan ætlar ráðherrann að skipa þrjá fulltrúa til viðbótar og formann ráðsins. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé eðlilegt varðandi skipan stjórnarinnar. Er ekki ráðherrann nánast kominn með alræðisvald í þessu ráði?

Hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag að við þyrftum að ræða framtíðarsýn og ég get heils hugar tekið undir það. Auðvitað þarf að hafa framtíðarsýn í heilbrigðismálum þó ég verði að segja, því að ég hafði ekki tækifæri til þess fyrr í dag þegar ráðherrann lét þessi orð falla, að framtíðarsýnin hjálpar ekki þeim sjúklingum sem eru í vanda nú, vegna umræðunnar fyrr í dag. Vandi þeirra er jafnmikill þó að framtíðarsýnina vanti. Aftur á móti tek ég undir að það þarf að ræða framtíðarsýnina. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að ráðherra hefði kynnt betur þessa skýrslu 100 manna nefndar sinnar eða þeirra hundrað aðila sem komu að forvinnu við frv. Mér fyndist eðlilegt að ráðherra hefði látið svo lítið að fara yfir niðurstöður nefndarinnar, ekki aðeins sent önnum köfnum þingmönnum skýrslu í hólf til að lesa. Það hefði verið eðlilegt og þá hefðu t.d. heilbrigðis- og trygginganefnarmenn getað komið að málinu og þá varpað fram spurningum ef spurningar hefðu vaknað. Það hefðu verið eðlileg vinnubrögð í framhaldi af slíkri vinnu.

Ég vil líka minna á það nefndarstarf sem kom til tals hjá hv. þm. sem talaði á undan mér, en það er vinna í nefnd um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu sem er ákaflega mikil og þörf vinna sem er í gangi í ráðuneytinu og við nokkrir þingmenn eigum aðild að. Þegar slík vinna er í gangi og er vel á veg komin, þá hefði maður talið eðlilegt að breyting eins og kemur fram í frv. ráðherrans um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu hefði beðið eftir niðurstöðum nefndar um forgangsröðunina því að auðvitað er þetta allt saman hluti af einni heild og það þarf að skoða þessa hluti í samhengi. Fyrir tveimur til þremur árum var unnin skýrsla um skipan sjúkrahúsmála og skilað 1993 í heilbrrn. Mjög merkilegar upplýsingar koma fram í þeirri skýrslu. Nefndin sem vann það starf og skilaði af sér 1993, komst að þeirri niðurstöðu að nóg af sjúkrarúmum séu í landinu í heild. Þau eru of mörg úti á landi en of fá í Reykjavík og nágrenni þar sem 60% þjóðarinnar búa. Jafnframt eru of mörg sjúkrarúm á nokkrum stöðum úti á landi. Kostnaður við rekstur litlu sjúkrahúsanna er hár miðað við þá þjónustu sem þau veita. Þetta eru niðurstöður nefndar sem vann fyrir fyrrv. heilbrrh., Sighvat Björgvinsson, þannig að í framhaldi af þeim niðurstöðum hefði e.t.v. mátt spyrja hvort ekki hefði þurft að grípa til einhverra annarra ráðstafana en þeirra sem hér er verið að gera þó svo ég efist ekki um að þær gætu verið til bóta.

Ég ítreka að málið þarfnast nákvæmrar skoðunar í heilbr.- og trn. Við þurfum að fá upplýsingar um hvernig ráðherrann hafði hugsað sér þau verkefni sem ráðinu er ætlað að annast framkvæmd á, í hvaða formi sú framkvæmd ætti að vera, hvort hér sé um einkavæðingaráform að ræða og aðrar spurningar sem hafa vaknað varðandi ýmsa þætti frv.

Ég ætla ekki að fara að grípa niður í þessar skýrslur að sinni þó að hér sé af ýmsu að taka sem vert væri að fara yfir varðandi framtíðarsýn og stefnumótun í málefnum sjúkrahúsanna hér á suðvesturhorninu. En ég hefði talið eðlilegt að það hefði verið farið í vinnu við að endurskoða verkaskiptingu allra sjúkrahúsa á landinu, ekki aðeins á suðvesturhorninu. Ég tel að það væri fullkomlega eðlilegt að líta á þessa hluti í heild og ítreka að þeir fulltrúar sem óskað hafa eftir því að fá að veita umsagnir um þetta mál, þ.e. þeir aðilar sem um getur í frv. og einnig t.d. fulltrúar Reykjavíkurborgar sem eiga þarna verulegra hagsmuna að gæta, geti komið á fund heilbr.- og trn. og lýst viðhorfum sínum til málsins. Reyndar tel ég eðlilegt að málið fari til heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu og verði þar í vinnslu fram á haust. Síðan gætum við skoðað málið aftur þegar þing kemur saman að loknu sumarleyfi og þá verða án efa ýmis óvissumál ljósari.