Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 18:45:18 (7244)

1996-06-04 18:45:18# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[18:45]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Jú, við erum að tala um tvö aðskilin mál. Við erum að tala um vanda dagsins í dag sem er mjög alvarlegur hjá mörgum sjúkrastofnunum og sjúkradeildum, að mínu mati sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Síðan erum við að tala um framtíðarskipun heilbrigðismála í landinu. Ég tel að það þurfi einmitt að gefa sjúkrahúsunum hér á höfuðborgarsvæðinu vinnufrið og ró til að geta sinnt þeirri mikilvægu þjónustu sem þeim ber að sinna á meðan verið er að vinna að heildarskipulagi. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir að vinnutillögur um skipan sjúkrahúsmála á landsbyggðinni séu að líta dagsins ljós og því hefði verið mjög fróðlegt fyrir Alþingi að sjá þessar tillögur í heild sinni í samhengi við þær tillögur sem hér eru fram bornar. Ég tel að við séum að tala um tvö aðskilin mál. Það þarf að leysa þennan bráðavanda í dag til þess að sjúkrahúsin hafi vinnufrið í sumar og geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Og þegar þing kemur saman í haust verður vonandi komin sátt um það hvernig málum skuli skipað til framtíðar.