Umræður um dagskrármál

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:33:43 (7249)

1996-06-04 20:33:43# 120. lþ. 160.98 fundur 355#B umræður um dagskrármál# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að gera athugasemd við það að forseti velji að taka heilbrigðismál af dagskrá og hefja umræðu um úthafsveiðar. Ég vil eingöngu vekja athygli á hversu undarleg vinnubrögð eru oft viðhöfð á Alþingi. Hér er búin að vera smellumræða þannig að eftir er tekið, fyrir hádegi í dag, stjórnarandstaðan ásökuð og í framhaldi af því, eftir japl og fuður, er málið tekið á dagskrá og hér hefur farið fram síðan um eftirmiðdaginn ágætis umræða um þá tillögu sem ráðherranum er svo í mun að fá að koma til nefndar. Ég ætla að leyfa mér að upplýsa forseta um það að ég hef tekið þetta mál mjög alvarlega. Við erum búin að vera í önnum hér frá morgni til kvölds að undanförnu, frá morgni til kvölds í nefndarvinnu, í þingstörfum, í skjalalestri og ég veit ekki hvað á helst að nefna. Ég er, virðulegi forseti, búin að gera mitt til að lesa þá skýrslu sem liggur nú fjölrituð í hliðarherbergi vegna þess að skýrslan barst okkur þingmönnum á háannatíma okkar. Flest okkar hafa þurft að leggja skýrslurnar sem berast í bunka á borðin sín og bíða með lestur þeirra þar til hlé er á þingstörfum. Ég hefði talið það smekkleg vinnubrögð eftir það sem á undan hefur gengið í dag að láta okkur þingflokksformenn vita ...

Virðulegi forseti. Ég er að tala við forseta og ég gagnrýni það harðlega að á meðan ég er að tala við forseta skuli ráðherra standa hér að baki mér og trufla hann við stjórn fundarins þannig að hann hefur ekki hugmynd um hvaða gagnrýni ég var að bera á borð hér úr þessum ræðustóli.

Ég var að enda við að segja það, virðulegi forseti, að ég hefði talið það notalegri vinnubrögð eftir það sem hér hefur gerst í dag að upplýsa okkur þingflokksformenn um það fyrir kvöldmat að hér yrði ekki tekið til við þetta mál að loknum kvöldverði. Ég hefði nefnilega þá snúið mér að því að skoða það sem ég á ólokið varðandi úthafsveiðar en ekki eytt kvöldmatnum í að skoða skýrslu ráðherra um heilbrigðismál. Þetta, virðulegi forseti, er umræða um vinnubrögð. Ég er nú fegin því að næsti ráðherra tefur forsetann ekki mjög lengi en ég mun heldur ekki tefja lengur í þessum ræðustól, virðulegi forseti. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð. Ég gagnrýni tillitsleysi við okkur þingflokksformenn en við leggjum okkur fram um góða samvinnu hér í þinginu.