Umræður um dagskrármál

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:40:12 (7252)

1996-06-04 20:40:12# 120. lþ. 160.98 fundur 355#B umræður um dagskrármál# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:40]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan að það komi fram að það hefur aldrei áður gerst á þessu þingi að skipt hafi verið um mál af þessu tagi án þess að rætt hafi verið við þingflokksformenn. Ég tel að hér sé ekki um að ræða það sem kalla má skipuleg vinnubrögð. Ég harma að svona er að málum staðið vegna þess að það fólk sem var á mælendaskrá fyrir þetta heilbrigðismál hefur væntanlega notað matarhléið til að undirbúa sig fyrir umræðurnar. Síðan er skyndilega skipt um efni núna og látið í veðri vaka að e.t.v. verði málið einhvern tímann seinna tekið fyrir í kvöld. Mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð. Ég segi það alveg eins og er. Mér finnst þetta líka staðfesta að það eru auðvitað stjórnarmeirihlutinn og forsetinn sem ráða taktinum hér í málum. Það erum ekki við sem höldum þannig á málum og ákveðum hvort heilbrigðismál eru rædd eða ekki. Það var í raun og veru að okkar kröfu að þau mál voru rædd í dag. Sú umræða var held ég langt komin eða mér skilst að það hafi verið einir þrír á mælendaskrá eða svo þegar fresturinn var tekinn um kvöldmatarleytið. Ég vil spyrja til fróðleiks hæstv. ráðherra, um leið og ég tek undir með forseta að auðvitað þarf að ræða þessi mál og það væri skynsamlegast að gera hlé í þeim efnum til að ræða þetta við forseta og með formönnum þingflokkanna: Var hæstv. heilbrrh. með í ráðum um að fresta þessu máli?