Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 21:17:46 (7263)

1996-06-04 21:17:46# 120. lþ. 160.14 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, Frsm. minni hluta SighB
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[21:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég vík að máli því sem er til umræðu vil ég færa hæstv. forseta þakkir fyrir þá ákvörðun hans að ræða við þingflokksformenn um framhald mála og taka til við það síðar á fundinum að gera hlé og leitast við að ná samkomulagi um vinnuna í kvöld og fram á nóttina. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt til að hægt verði að ljúka þeim málum sem á annað borð er möguleiki á að afgreiða og ég endurtek að ég þakka hæstv. forseta fyrir hlutdeild hans að því máli.

Áður en ég geri grein fyrir nál. minni hluta sjútvn. vegna frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um aðdraganda málsins og um hvað mál þetta snýst.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mjög lengi hafa íslenskar fiskveiðar verið dæmigerðar strandveiðar, þ.e. Íslendingar hafa ekki haft mjög víða sýn út yfir þröngan fiskveiðisjóndeildarhring heldur verið um flest dæmigerð strandveiðiþjóð. Vissulega má segja að nokkuð hafi þetta breyst við útfærslu fiskveiðilögsögunnar, fyrst í 12 síðan í 50 og loks í 200 mílur. En engu að síður hafa viðhorf stjórnvalda verið viðhorf stjórnvalda strandríkis en ekki viðhorf stjórnvalda fiskveiðiríkis sem stundar jafnt úthafsveiðar sem strandveiðar. Það hefur því fremur komið í hlut framsækinna útgerðaraðila og sjómanna að leita að möguleikum fjarri heimabyggð eða fjarri strandveiðislóðinni fremur en að það hafi verið stjórnvöld sem hafi í einu eða öðru efni stuðlað að því fremur en öðru. Sú reynsla sem við höfum náð okkur í sem úthafsveiðiþjóð sem hefur ekki orðið fyrr en nú upp á síðkastið hefur fyrst og fremst verið að þakka þeim útgerðarmönnum og sjómönnum sem hafa lagt það á sig að leita uppi fjarlæg mið í þeirri von að styrkja undirstöðu þjóðarbúsins og bæta afkomu útgerðar og sjómanna.

Virðulegi forseti. Þetta kemur m.a. fram í því að við Íslendingar höfum verið ótrúlega sinnulausir um réttindi okkar á fiskimiðum sem hafa ekki verið alveg í næsta nágrenni við okkur sjálfa. Í því sambandi vil ég gjarnan rifja upp samninginn frá árinu 1980 um Jan Mayen og loðnuveiðar á þeirri fiskislóð þar sem við fengum raunverulega Norðmönnum í hendur fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen og samþykktum lögsögu þeirra gegn heimild til veiða úr loðnustofninum og raunar öðrum deilistofnum ef samkomulag næðist um. Þar fengum við Norðmönnum mjög stór hafsvæði sem við viðurkenndum lögsögu þeirra á. Þó að við höfum fengið nokkuð í aðra hönd með loðnuveiðisamningnum fyrir þá viðurkenningu held ég að því verði ekki á móti mælt eftir á að við höfum spilað nokkuð af okkur og fært Norðmönnum, þessari heimsyfirráðaþjóð yfir norðaustanverðu Atlantshafi, mikilvæg réttindi í hendur sem þarflaust hefði verið af okkur að veita þeim viðurkenningu á. Einnig má segja að við höfum verið sofandi þegar Svalbarðasáttmálinn var gerður á sínum tíma. Við höfðum ekki áhuga á því þá að gerast aðilar að honum. Það stafaði að sjálfsögðu af því að við vorum þá og erum hvað hugsunarhátt stjórnvalda varðar dæmigerð heimaveiðiþjóð, dæmigerð strandveiðiþjóð, og okkur hefur sést yfir þá miklu hagsmuni sem Ísland getur haft af því að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Engu að síður hafa Íslendingar um langan aldur stundað úthafsveiðar og þá fyrst og fremst fyrir frumkvæði útgerðarmanna sjálfra og sjómanna. Við höfum stundað úthafsveiðar við Grænland um langan tíma. Íslensk fiskiskip fundu hin auðugu karfamið við Nýfundnaland og á tímabili á unglingsárum mínum var mikil atvinna bæði í landi og á sjó við veiðar og verkun karfa af þessum auðugu miðum. Við höfum lengi stundað veiðar við Bjarnarey í Hvítahafi og einnig fóru menn til síldveiða við Svalbarða. Þetta voru allt ákvarðanir sem voru teknar af útgerðarmönnum og sjómönnunum sjálfum en þeir nutu afskaplega lítils stuðnings íslenskra yfirvalda sem sýndu oft skilningsleysi á þörfum okkar Íslendinga við að verða okkur úti um afla og veiðireynslu á fjarlægum miðum. Þetta hefur verið að breytast hin síðari ár, einkum og sér í lagi hin síðustu þrjú ár. En það er ekki lengra síðan en þrjú ár að fyrst var löglegt að skrá skip hérlendis til veiða utan efnahagslögsögunnar. Það skip sem fyrst var skráð var skipið Otto Wathne frá Seyðisfirði en í kjölfar þeirrar útgerðar hafa fylgt mörg önnur skip sem stunda nú veiðar á fjarlægum miðum. Svo þröngt var sjónarhorn íslenskra yfirvalda þegar þessar miklu úthafsútgerðir voru að slíta barnsskónum þegar ákveðið var að reyna við veiðar í Smugunni að stjórnvöld voru komin á fremsta hlunn með að reyna að stöðva þær veiðar, jafnvel þó að þær veiðar væru grundvallaðar á veiðirétti á úthafinu sem hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna sem nú er í gildi sem alþjóðalög tryggir öllum aðildarríkjum samtakanna. Engu að síður var gerð tilraun til að koma í veg fyrir þær veiðar og hefði verið reynt að gera það ef það hefði ekki verið stöðvað þá með inngripi hæstv. utanrrh. og stuðningi hæstv. forsrh. við það inngrip. Þannig má segja að svo langt náði skilningsleysið á hagsmunum úthafsveiðiflotans íslenska og þeim tækifærum sem bíða okkar á úthafinu að minnstu munaði að þær veiðar yrðu stöðvaðar jafnvel þó svo að hafréttarsáttmálinn tryggði Íslendingum eins og öðrum aðildarríkjum sáttmálans frjálsan veiðirétt á úthafinu.

Vissulega hefur það orðið til góðs að þessi úthafsveiði fékk að slíta barnsskónum því engin atvinnugrein blómstrar nú eins mikið og íslensku úthafsveiðarnar gera. Þau verðmæti sem þessi útgerð hefur fært þjóðarbúinu á umliðnum þremur árum hafa verið svo mikil að þau hafa breytt aðstæðum í íslenskum þjóðarbúskap og hafið þjóðarskútuna upp úr þeim öldudal sem hún var komin í. Ef þessi úthafsútgerð hefði ekki verið fyrir hendi væru efnahagsaðstæður á Íslandi ósköp svipaðar nú eins og þær voru fyrir þremur árum síðan. Þá væri hér enn þá lægð í efnahagslífinu, þá væri hér enn þá stöðnun þá hefði kaupmáttur ekki aukist, þá væri líklegt að það hefði orðið ófriður á vinnumarkaði og þá væru ekki þau tækifæri til framfara í augsýn sem við sjáum þó í dag. Úthafsveiðarnar hafa því fært okkur Íslendingum þann efnahagsbata sem við höfum notið á umliðnum þremur árum og eru meginstoðin undir því að við getum horft bjartari augum fram á veginn.

Fjöldi skipa á úthafsveiðum í íslenskri eigu er u.þ.b. 50. Það eru um 50 skip sem stunda úthafsveiðar frá Íslandi og er þá átt við skip sem veiðiheimildir hafa innan lögsögunnar og einnig þau sem hafa ekki veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu en eru engu að síður gerð út frá Íslandi af íslenskum útgerðum, sigla undir íslenskum fána og eru að langmestu leyti skipuð íslenskum áhöfnum. Fjöldi á þessum skipum er nú um 1.100 manns. Það eru því um ellefu hundruð manns sem hafa nú atvinnu af því að fiska á skipum úthafsútgerðanna, sem varla þekktist fyrir nokkrum árum síðan. Ef taldir eru með þeir sem hafa vinnu í landi þá er hér um að ræða atvinnu fyrir u.þ.b. 5.000 manns, þ.e. um 15.000 einstaklingar ef að meðaltali eru þrír einstaklingar í fjölskyldu hafa meginafkomu sína af þessari útgerð. Ef úthafsútgerðirnar verða neyddar til að flagga út með lögum eins og þeim sem nú stendur til að setja á Íslandi þá gæti það valdið því að þessar útgerðir mundu taka þá ákvörðun að ráða ekki Íslendinga í skipsrúm eins og þær hafa gert, skapa ekki atvinnu í landi fyrir íslenskar hendur eins og þær hafa gert og ef svo yrði þá mundi það þýða tvöföldun atvinnuleysisins eins og það er á Íslandi í dag. Svo snar og ríkur þáttur er úthafsveiðiútgerðin orðin í atvinnulífi okkar Íslendinga að ef hún yrði fyrir áfalli þá mundi svo að segja á einni nóttu geta svo farið að atvinnuleysi á Íslandi tvöfaldaðist. Ellefu hundruð sjómenn misstu atvinnu sína, 4.000 fiskverkamenn og þjónustuaðilar í landi og ekki er um auðugan garð að gresja hjá þeim aðilum að leita sér að nýrri atvinnu.

Við skulum líka huga að því að þetta er engin úgerð á horriminni sem þarna er vegið að vegna þess að hásetahlutur á þessum úthafsútgerðarskipum er 300--500 þús. kr. á mánuði. Hér eru því mikil verðmæti í húfi, háar tekjur einstaklinga og miklar tekjur sem þar af leiðir fyrir ríkisvaldið, fyrir ríkissjóð og sveitarfélög í formi tekjuskatts og tekjuútsvars. Enn fremur njóta þessi skip mikillar fyrirgreiðslu frá íslenskum aðilum svo sem eins og olíufélögum, veiðarfærasölum, aðilum eins og Hampiðjunni, og J. Hinriksson hf. sem þessi skip kaupa allan veiðibúnað sinn af. Heildarkaupgreiðslur á vegum þessara útgerða sem við erum hér að tala um gætu numið 4--5 milljörðum kr. árlega. Hér eru mikil verðmæti í húfi hvernig sem á það er litið, hvort sem við lítum á þau verðmæti sem útgerðarfélögin færa þjóðarbúinu sem felast í kaupgreiðslum til áhafnameðlima eða í greiðslum til fyrirtækja og þjónustuaðila sem keypt eru af veiðarfæri, olía og þjónusta eða við lítum á þær tekjur sem þessi útgerð skapar sveitarfélögum og ríkissjóði í gegn um skattgreiðslur.

[21:30]

Þá ber þess líka að geta að það eru úthafsveiðarnar sem kynna einkum íslenska tækniþekkingu í sjávarútvegi og það er fyrir tilstilli íslenskra úthafsútgerða t.d. sem veruleg viðskipti hafa skapast við úthafsveiðiflota annarra ríkja um veiðibúnað og tækjabúnað um borð í fiskiskipum sem eru nú að veita nýjum fjárstraumum inn í íslenskt efnahagslíf og skapa áður óþekkt tækifæri fyrir þá sem framleiða veiðibúnað og tæknibúnað fyrir fiskveiðar og fiskvinnslu af þessu tagi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að viðskiptin sem þarna er verið að skapa gætu þýtt tugi milljarða fyrir íslenskan iðnað og mér er mætavel kunnugt um það sem fyrrv. iðnrh. að iðnfyrirtæki sem stunda framleiðslu á varningi sem tengjast sjávarútvegi binda einmitt miklar vonir við að framtíðartækifæri íslensks iðnaðar á þessu sviði sé í þjónustu við erlend veiðiskip sem komast á snoðir um hvað Íslendingar standa vel að vígi hvað tækniþekkingu varðar fyrir tilstilli þess að hafa getað fylgst með og séð íslensk úthafsveiðiskip að störfum. Ef við lítum síðan á hvaða afla þessi skip bera að landi, ef við lítum aðeins á þau 13 skip sem ekki hafa leyfi til veiða innan efnahagslögsögunnar, þá afla þessi skip um 7--10% af heildarsjávarafla Íslendinga. Af þessu má því sjá að hér eru engar aukvisar á ferð. Hér er verið að opna fyrir nýja atvinnumöguleika sem eru stórkostlegir þegar þessi 13 skip, sem ekki er há tala, skila um 7--10% af heildarsjávarafla Íslendinga á öllum veiðum.

Það er áætlað að þjóðarframleiðsla á Íslandi aukist um 3--5% á yfirstandandi ári, en hlutur þessara veiðiskipa í verðmætasköpuninni er svo mikill að ef úthafsútgerðin flyst úr landi mundi ekki aðeins svo fara að þjóðarframleiðslan ykist ekki um þessi 3--5% sem henni er spáð á þessu ári, heldur mundi hún bókstaflega dragast saman. Framtíðartækifæri okkar í sjávarútvegi liggja því ótvírætt í þessari grein eins og ég hef sýnt fram á með þessum tilvitnunum. Áætlað verðmæti alls úthafsafla á ársgrundvelli verður í ár milli 8 og 12 þús. millj. kr. en það er áþekk upphæð og ferðaþjónusta Íslendinga, meðtaldar flugferðir heiman og heim, veltir árlega. Það er oft sagt að í ferðaþjónustunni liggi vaxtarbroddurinn í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi á ókomnum árum. Það er horft til þess hvað ferðaþjónustan hafi skapað mörg atvinnutækifæri og hafi aukið mjög þjónustu sína og umsvif á Íslandi og hæstv. samgrh. hefur á Alþingi farið mörgum og fögrum orðum um það hve framtíðarvonir okkar Íslendinga væru bundnar við ferðaþjónustugreinarnar. En menn skyldu huga að því að öll þessi ferðaþjónusta að meðtöldum flugferðum til og frá landinu veltir ekki hærri upphæðum en nemur því áætlaða verðmæti sem úthafsveiðifloti okkar Íslendinga aflar á hverju ári. Þannig að þeir hagsmunir sem hér eru í húfi eru miklir. Það sem hér er að gerast er álíka og ef samgrh. legði fram lagasetningu á Alþingi sem gæti þýtt það að íslensk ferðaþjónusta legðist meira eða minna af í svo til einu vetfangi. Við erum að tala um jafnmikil verðmæti fyrir þjóðarbúið eins og öll ferðaþjónustan skapar. Og mér er sem ég sæi hæstv. samgrh. leggja fram frv. á Alþingi sem stefndi þeirri tekjuöflun í jafnmikla hættu og það frv. gerir sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram um veiðar utan fiskveiðilögsögunnar. Hér er ekki aðeins um að ræða tölur sem ég hef yfir að ráða og hafa verið teknar saman á Íslandi heldur vitna ég í þessu sambandi til greinar úr Fiskaren frá 3. maí 1996. Hún sýnir vel hve úthafsafli Íslendinga hefur vaxið ört á stuttum tíma. Í greininni segir t.d. að úthafsafli Íslendinga hafi árið 1993 verið 2,2 milljarða íslenskra króna virði sem eru um 43% af heildarsjávaraflanum. Árið 1994 var úthafsaflinn 5,2 milljarða kr. virði, íslenskra króna, eða 10% af heildarsjávaraflanum og árið 1995 var úthafsaflinn 6,1 milljarðs kr. virði eða 11,4% af heildarsjávaraflanum og í ár er gert ráð fyrir, eins og ég sagði hér áðan, 8--12 milljarða kr. veltu af úthafsveiðum Íslendinga. Hér er um að ræða veltutölur sem á aðeins fjórum árum hafa aukist úr 2,2 milljörðum kr. í 8--12 milljarða kr. og mér er sem ég sjái þá atvinnugrein aðra sem hefur skilað svo miklum vexti í þjóðarbúið. Af þessu má sjá hvaða atvinnugrein það er sem hefur staðið öðrum fremur undir þeirri aukningu þjóðartekna og þjóðarframleiðslu sem átt hefur sér stað á þessum tíma. Það er úthafsútgerðin sem hefur staðið undir þessum vexti og það má segja að illa sé verkalaununum veitt til hennar fyrst á að kæfa þessa útgerð nánast í fæðingu, því það má segja að þessi útgerð sé nánast nýfædd í útgerðarsögu okkar Íslendinga, með þeim aðgerðum sem nú á að grípa til.

Að veiðum á Flæmingjagrunni nú nýverið eða í lok þessa mánaðar voru hvorki meira né minna en 28 íslensk skip og af því má enn sjá að hér er enginn smáfloti á ferðinni, hér er engin smáreynsla sem menn eru að afla sér, bæði í meðferð nýrra veiðarfæra, í nýrri veiðitækni, í stjórnun íslenskra skipa á fjarlægum miðum og í veiðireynslu sem mun koma Íslendingum til góða þegar fram í sækir og samstaða næst í kjölfar þess þegar úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna verður fullgiltur, hvenær svo sem það verður, að settir verði aflakvótar á hinum fjarlægu miðum byggðir á reynslu þeirra skipa sem þar hafa stundað veiði. Og ég spyr, virðulegi forseti: Hvernig halda menn að staðan hefði verið ef hæstv. sjútvrh. hefði árið 1993 fengið sett lög eins og þau sem hér eru til meðferðar þegar heildaraflaverðmæti úthafsafla Íslendinga var aðeins 2,2 milljarðar kr. samanborið við 8--12 milljarða kr. veltu á árinu 1996? Hvernig halda menn að úthafsveiðiflotanum hefði gengið að byggja upp aflareynslu sína eins og hann hefur gert á þessum fjórum árum ef hæstv. sjútvrh. hefði fengið heimild til þess árið 1993 að beita þennan flota svipuðum ákvæðum og hann er nú að óska eftir að Alþingi beiti til þess að takmarka veiðar þessa flota? Menn ættu að sjá af þeim tölum sem ég hef rakið hversu mikið mál það er fyrir okkur Íslendinga að úthafsveiðiflotinn haldi áfram að fá að veiða frjálst eins og alþjóðalög heimila þar til þeim lögum hefur verið breytt og heyja sér aflareynslu á þeim árum sem eftir eru þangað til settar verða alþjóðlegar reglur um kvótasetningu á þeim veiðum. Það eru engin smáverðmæti sem bætast við aflareynslu Íslendinga eða íslenska úthafsveiðiflotans á hverju ári eins og þessar tölur sýna og það er tvímælalaust í hag þjóðinni og þjóðarbúinu að þessi aflareynsla verði sem allra mest þegar að því kemur að settur verði kvóti í samræmi við veiðireynslu á úthafinu. Og ég fæ ekki séð hvaða nauður rekur hæstv. ráðherra til þess að setja fót fyrir þessa þróun einmitt nú þegar hún hefur sýnt það og sannað með hve miklum blóma hún hefur verið á undanförnum árum og hvaða verðmætum menn hafa verið að skila þarna í þjóðarbúið.

En á hvaða grundvelli skapaðist þessi reynsla? Hún skapaðist á grundvelli hafréttarsáttmálans sem er alþjóðalög, en hafréttarsáttmálinn kveður á um það að veiðar skuli vera frjálsar á úthafinu. Alþjóðalög sem fylgt er í dag kveða á um það að veiðar á úthafinu skuli vera frjálsar og það er með stoð í þessum lögum sem íslenski úthafsveiðiflotinn hefur getað náð svona mikilli aflareynslu og skilað svona miklum aflaverðmætum í þjóðarbúið. Og hvaða nauður rekur okkur Íslendinga, eina þjóða í heiminum, til þess að gera breytingu á, eins og hæstv. sjútvrh. ætlar sér að gera, á meðan áfram eru í gildi alþjóðalög sem heimila öllum öðrum þjóðum frjálsar veiðar á úthafi sem ekki á að heimila okkur Íslendingum? Hvaða ástæða er til þess að við förum nú að setja viðskiptahömlur eða veiðihömlur öllu heldur á okkur sjálfa einir þjóða á meðan engin önnur þjóð hefur gripið til slíkra úrræða og áfram verða í gildi um allmörg ár lög sem heimila öðrum þjóðum frjálsar veiðar á úthafinu, frjálsar veiðar sem þeirra eigin stjórnvöld ætla sér ekki að skerða? Að minnsta kosti ekki að því er séð verður því að ekki er kunnugt um neina aðra þjóð en okkur Íslendinga sem er um þessar mundir að setja lög á sínu þjóðþingi sem takmarka veiðiréttindi á úthafi með sama hætti og nú á að gera gagnvart íslenskum skipum. Og hver er ástæðan, herra forseti, sem rekur hæstv. sjútvrh. til þess að leggja það til að svipta Íslendinga þeim heimildum sem hafréttarsáttmálinn veitir öllum þjóðum heims? Og það mörgum árum áður en aðrar þjóðir grípa til slíkra úrræða og mörgum árum áður en við höfum hugmynd um hvort til slíkra úrræða verður gripið af öðrum þjóðum og þá með hvaða hætti. Við erum ekki með þessari lagasetningu að ryðja neina nýja braut. Við erum ekki að verða fyrirmynd annarra. Við erum að setja einhliða takmarkanir á okkur sjálfa. Við erum að svipta íslenska útgerðar- og fiskimenn þeim réttindum sem alþjóðleg lög veita þeim til jafns við þegna annarra ríkja gersamlega að þarflausu án þess að hafa hugmynd um hvort aðrir munu feta í þau fótspor okkar eða hvernig aðrar þjóðir munu haga þeim málum. Væri nú ekki viturlegra, virðulegi forseti, að bíða eitthvað eftir því og sjá hvað aðrar þjóðir hyggjast fyrir í þessum efnum, hvort aðrar þjóðir ætla sér að staðfesta úthafssáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem engin þjóð, ekki einu sinni Íslendingar, hefur enn þá gert. Ef svo verður að nægilega margar þjóðir staðfesta úthafsveiðisáttmálann þannig að hann taki gildi sem alþjóðalög er viturlegra að bíða og sjá með hvaða hætti þær þjóðir sem sáttmálann staðfesta ætla sér að framkvæma hann og ætla sér að standa að framkvæmdinni. Það er eðlilegt og skynsamra manna háttur að halda þannig á málum, undirbúa sig með viðtölum við aðrar fiskveiðiþjóðir á meðan sá tími er að líða, sem getur tekið mörg ár, að úthafsveiðisáttmálinn taki gildi sem alþjóðalög, ef nógu mörg ríki hafa staðfest hann til þess að svo geti orðið. Komi að því ætti að hafa samstarf við önnur fiskveiðiríki um það hvernig menn ætla að skipa lögum hver í sínu landi til að standa við ákvæði úthafsveiðisáttmálans. Þetta ætlar íslenska ríkisstjórnin ekki að gera. Hún beitir ekki hestinum fyrir vagninn heldur vagninum fyrir hestinn því að áður en lagt er fram á Alþingi frv. til staðfestingar á úthafsveiðisáttmálanum er lagt fram frv. um hvernig ætti að standa að framkvæmd þess sáttmála eftir að hann hefur öðlast lagagildi en mörg ár geta liðið áður en það verður.

[21:45]

Þessi lagasetning á sér vissulega talsverða forsögu. Ætli það séu ekki um það bil þrjú ár síðan hæstv. sjútvrh. byrjaði að undirbúa þá lagasetningu og raunar löngu áður en úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur. Það gerðist ekki fyrr en að mig minnir 4. ágúst á síðasta hausti þannig að þá þegar hafði sérstök nefnd á vegum hæstv. sjútvrh. setið í tvö ár til þess að vinna að framkvæmd sáttmála sem þá hafði ekki einu sinni verið gerður. Sú nefnd lauk störfum tæplega ári eftir samþykkt úthafsveiðisáttmálans og skilaði hæstv. sjútvrh. niðurstöðum sínum og á niðurstöðum þeirrar nefndar hefur hæstv. sjútvrh. síðan byggt frv. sitt. En ef betur er að gáð kemur í ljós að nefndin var aldeilis ekki sammála þegar hún skilaði ráðherra niðurstöðum sínum. Það var mikill ágreiningur bæði um meginefni málsins og ekkert síður um einstakar greinar í því frv. sem hæstv. sjútvrh. kynnti.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Alþfl., átti sæti í úthafsveiðinefndinni og hún skilaði Geir H. Haarde, formanni nefndarinnar, athugasemdum sínum þann 24. apríl árið 1996. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa athugasemdir hv. þm. sem var fulltrúi þingflokks Alþfl. í úthafsveiðinefndinni og hafði á mörgum fundum samráð við þingflokkinn um hvernig hún stóð að málum í úthafsveiðinefndinni þannig að það sem hún sendi til formannsins sem athugasemdir sínar voru athugasemdir sem hv. þm. hafði borið undir þingflokk Alþfl. og þingflokkur Alþfl. var samþykkur. En athugasemd hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, formanns þingflokks Alþfl. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hér eru athugasemdir mínar við frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

1. Innan þingflokks Alþfl. eru þau sjónarmið til staðar að ekki þurfi nein ný lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í lögunum nr. 34/1976 séu fyrir hendi nægilegar lagaheimildir til þess að stjórna veiðum utan fiskveiðilandhelgi Íslands, þessi lagasetning sé því óþörf.

2. Að þessu sögðu tel ég að á þessu frv. séu þrír megingallar.

2.1 Með frv. er athafnafrelsi íslenskra skipa á úthöfum skert og óeðlilega mikið vald fengið sjútvrn. Þó frv. hafi tekið jákvæðum breytingum þá byggir það enn í of ríkum mæli á þeirri neikvæðu grunnhugsun að ekkert sé frjálst, allt sé bannað sem ekki er leyft af ráðherra.

2.2 Með frv. er verið að yfirfæra reglur núverandi kvótakerfis sem gildir innan landhelginnar yfir á úthafið. Það getur leitt til ofstjórnunar og heft framtak og frjálsræði íslenskra útgerða. Að úthluta veiðiheimildum í samræmi við þær reglur sem gilda innan landhelginnar er afar umdeilanlegt þó ekki sé sterkara að orði komist þar sem um allt annars konar veiðireynslu er að ræða.

2.3 Þingflokkurinn er þeirrar skoðunar að frv. kunni að brjóta gegn efni og anda 87. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem gerir ráð fyrir frelsi til veiða á úthöfunum.

3. Þá viljum við koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við einstakar greinar frv.:

3.1 Við 3. gr. Breyta á: ,,Ráðherra skal``, í: ,,Ráðherra er heimilt``, og orðið ,,lifandi`` falli niður.

3.2 Við 4. gr. 1. mgr. orðist svo: ,,Öllum skipum eru heimilaðar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem leiða af samningum Íslands við önnur ríki.`` 2. mgr. orðist svo: ,,Ráðherra veitir leyfi til veiða íslenskra skipa á úthafinu þegar leyfisveiting reynist nauðsynleg vegna samninga við önnur ríki.`` Síðasta málsgrein falli út.

3.3 Hvað snertir efni greina 5--10, þá er þingflokkurinn í samræmi við það sem sagt er hér að framan þeirrar skoðunar að þessar greinar eigi að falla burt með þeirri einu undantekningu sem greint er frá á eftir.

Meginrökin eru þau að greinarnar fjalli um efni sem betur er fyrir komið í reglugerð en með lögum. Í staðinn fyrir núverandi 5.--10. gr. komi ein grein svohljóðandi sem verði 5. gr.: ,,Sé ákveðinn heildarafli úr öðrum stofnum en þeim sem lög nr. 38/1990 taka til á grundvelli samnings sem Ísland er aðili að, skal ráðherra setja reglur um veiðar íslenskra skipa á þeim hluta heildaraflans sem kemur í hlut Íslands. Skulu þær reglur tryggja að aflinn verði innan umsaminna marka og getur ráðherra í því skyni skipt veiðiheimildum úr stofninum á hverju veiðitímabili milli einstakra íslenskra skipa.``

Röksemdir okkar eru þær að yfirleitt séu heimildir ráðherra allt of opnar eða of víðtækar, þetta hefta athafnafrelsi sé í flestum tilvikum óþarft og gangi mun lengra en samningar við erlend ríki geri ráð fyrir.

3.4 Til þrautavara má hugsa sér að efni 7., 8. og 9. gr. standi í lögunum enda séu heimildir í upphafi 7. og 8. gr. þrengdar og allar heimildir miðaðar við ákvæði í eða kröfur samkvæmt samningum við erlend ríki sem hlýtur ætíð að vera meginviðmiðun okkar þegar veiðistjórnun á úthafinu er annars vegar.

3.5 Um 10. gr. Við viljum snúa neikvæðum reglum samkvæmt 10. gr. í jákvæðar. Í staðinn fyrir: ,,Óheimilt er``, komi: ,,Heimilt er að landa afla erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum nema veiðarnar brjóti í bága við samninga sem Íslandi er aðili að.`` Aðrar málsgreinar 10. gr. falli burt.

3.5 Að síðustu leggjum við til að tvær síðustu málsgreinar 11. gr. falli brott.``

Þar með lýkur, herra forseti, athugasemdum Rannveigar Guðmundsdóttur, formanns þingflokks Alþfl., sem sendar voru formanni úthafsveiðinefndar, Geir H. Haarde, þann 24. apríl 1996. Af þessum athugasemdum má glögglega ráða:

Í fyrsta lagi. Það var ágreiningur í úthafsveiðinefnd, ekki bara um meginefni frv., þ.e. sjálfan grundvöll fyrir lagasetningunni heldur um nærfellt hverja einustu grein í frv. efnislega.

Í öðru lagi. Tillögur voru gerðar í nefndinni um grundvallarbreytingar á frv., allt frá því að frv. af þessu tagi yrði ekki flutt til þess að frv. yrði flutt en með grundvallarbreytingu á hverri einustu grein. Það er því með öllu út í hött að halda því fram að starf úthafsveiðinefndar hafi lagt þann grundvöll sem frv. hæstv. ráðherra er. Svo var ekki. Það náðist aldrei samkomulag í nefndinni um þann grundvöll. Það var mikill ágreiningur í nefndinni bæði um meginefni og atriði máls og um einstakar greinar þess. Og til þess að koma í veg fyrir misskilning vil ég taka það fram að það var ekki aðeins hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem lét í ljós þennan ágreining sem er meginágreiningur um efni frv. heldur gerðu það einnig aðrir sem í úthafsveiðinefndinni sátu þannig að frv. er lagt fram í fullri óþökk margra sem í nefndinni sátu og það er alls ekki hægt að lýsa því svo að úthafsveiðinefnd hafi skapað einhvern grundvöll að því frv. sem hér er lagt fram.

Í athugasemdunum þar sem hv. þm. lýsir afstöðu þingflokks Alþfl. til frv. vil ég leggja áherslu á tvennt:

Í fyrsta lagi er það meginafstaða okkar eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lýsti, að það sé ástæðulaust að setja ný lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands því í lögunum frá nr. 34/1976 eru fyrir hendi nægilegar heimildir til að stjórna veiðum utan fiskveiðilögsögu Íslands. Skoðun okkar er því sú að það kalli ekkert nú á nýja lagasetningu. Lögin frá 1976 duga okkur fyllilega til þess að stjórna fiskveiðum eins og við teljum eðlilegast og að okkur henti best.

Í öðru lagi þá er það meginafstaðan í þingflokki okkar að ef á annað borð er talið nauðsynlegt að setja ný lög sem leysa lögin frá 1976 af hólmi, þá eigi það að vera meginregla í þeim lögum sem segir í hafréttarsáttmálanum, þ.e. að veiðar eigi að vera frjálsar íslenskum fiskiskipum á úthafinu nema samningar Íslands við önnur ríki kveði á um annað. Meginreglan í íslenskum lögum um úthafsveiðar sé að virða ákvæði hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um frjálsar veiðar á úthafinu nema að Íslendingar hafi gert samning við aðrar þjóðir sem takmarki þær á einn eða annan hátt. Því aðeins að Íslendingar hafi samið um takmörkun veiðanna við aðra, eigi að veita ráðherra heimild til að stýra veiðum úthafsveiðiflotans, en þar sem slíkt hafi ekki verið gert eigi veiðar úthafsveiðiflotans að vera frjálsar. Þetta er okkar afstaða, þ.e. ekki sú að allt eigi að vera bannað sem ráðherra ekki leyfi, heldur hin þveröfuga afstaða að allt eigi að vera leyft svo lengi sem alþjóðalög leyfa það og Ísland er ekki samningsaðili eða hefur ekki samið við aðrar þjóðir um takmarkanir. Á því er að sjálfsögðu alveg grundvallarmunur hvorri stefnunni menn fylgja.

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að fara nokkrum fleiri orðum um úthafsveiðisamninginn sem sagt er að eigi að vera grundvöllur og sé grundvöllurinn að frv. því sem hér er flutt. Fyrir ekki löngu síðan var flutt athyglisvert erindi á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þann 15. nóvember 1995 um úthafsveiðisamninginn, erindi flutt af Tómasi Heiðar, þar sem tekin eru fram nokkur meginefni þess samnings. En ég ítreka það enn og aftur svo að menn gleymi því ekki að þessi úthafsveiðisamningur sem samþykktur var eftir lok úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þann 4. ágúst hefur enn ekki verið staðfestur af einni einustu þjóð, ekki einu sinni okkur Íslendingum og hefur því ekkert lagagildi að alþjóðalögum og getur þess vegna ekki verið neinn grundvöllur að lagasetningu eins og þeirri sem hér á að fara fram. Í erindi Tómasar H. Heiðars voru meginefnin rakin í þessum úthafsveiðisamningi og ég tel fyllstu ástæðu til þess að vitna í hvað hann sagði í erindi sínu.

Hann minnti í fyrsta lagi á að þann 4. ágúst, þegar úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk, voru liðin þrjú ár frá því að samkomulag varð um það á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að kalla þessa ráðstefnu saman. Samningurinn mun liggja frammi til undirritunar í eitt ár, til 4. desember 1996. Sá tími er nú ekki enn liðinn, þ.e. ekki liðinn nema um helmingur af þeim tíma sem samningurinn liggur frammi til undirritunar. Og þó ekki einu sinni sé liðinn sá frestur sem gefinn er til að undirrita samninginn, ætla Íslendingar að rjúka til og setja á Íslandi lög um það hvernig eigi að framkvæma þennan samning meðan enn er beðið eftir að fá að vita hvaða ríki ætla að undirrita hann.

[22:00]

Við eigum enn eftir að bíða í hálft ár til að vita hvaða aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ætla að undirrita samninginn. Við fáum ekki að vita það fyrr en 4. des. 1996. Samningurinn mun ekki taka gildi fyrr en 30 ríki hafa undirritað sáttmálann og þá munu líða 30 dagar þangað til sáttmálinn getur tekið gildi. Hins vegar er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að ríki geti af frjálsum og fúsum vilja, segir Tómas H. Heiðar, beitt samningnum til bráðabirgða sín á milli þar til hann hefur tekið gildi. Geri ríki samninga hvert við annað um skipti á deilistofnum geta viðkomandi ríki ef þau vilja það sjálf beitt samningnum til bráðabirgða sín á milli þar til hann hefur tekið gildi en það er athyglisvert að ekki er talað um það að ríki geti einhliða byggt á þessum samningi til bráðabirgða til þess að setja veiðiskipum sínum takmarkanir til veiða á veiðisvæðum þar sem Ísland er ekki aðili að neinum samningum um skiptingu veiða við önnur ríki en það er það sem verið er að gera hér. Það er ekki aðeins verið að beita þessum úthafsveiðisamningi sem hefur ekki enn öðlast gildi til að styðjast við hann til bráðabirgða á veiðum á hafsvæðum þar sem Ísland hefur gert samninga við önnur ríki, heldur á líka að beita honum, þó að hann hafi ekki öðlast gildi, til þess að takmarka einhliða réttindi íslenskra fiskiskipa til veiða á úthafinu þar sem engir samningar eru í gildi um veiðar og Íslendingar hafa ekki gert samninga við nokkur ríki um skiptingu um veiðar á. Ég hef stundum sagt að Íslendingar væru allra þjóða lagnastir við að beita sjálfa sig viðskiptahindrun. En skyldi nokkur þjóð nota samning sem hefur ekki öðlast alþjóðalög til þess einhliða að beita eigin sjómenn skerðingum á veiðiréttindum sem engin önnur þjóð gerir en sú íslenska? Mér er spurn.

Hér gengur hæstv. ráðherra langt fram úr því sem var sérstaklega tekið fram í umræddu erindi að hægt væri að nota samninginn til til bráðabirgða, í algerri þarf- og erindisleysu. Síðan segir í umræddu erindi, með leyfi forseta:

,,Samningurinn hefur almennt gengið undir nafninu úthafsveiðisamningurinn en rétt heiti hans er samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. des. 1982, um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim.`` Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Langflestir þeirra fiskstofna sem veitt er úr á úthafinu teljast annaðhvort deilistofnar, þ.e. stofnar sem halda sig bæði innan og utan efnahagslögsögu, eða víðförulir fiskstofnar og falla því undir samninginn. Sem dæmi um deilistofna má nefna norsk-íslenska síldarstofninn, þorskstofninn í Barentshafi, úthafskarfann á Reykjaneshrygg, íslenska loðnustofninn og rækjustofninn á Flæmingjagrunni. Helstir í flokki víðförulla fiskstofna eru túnfiskstofnar víðs vegar í heiminum.``

Hvað er sagt hér? Það er sagt hér að umræddur úthafsveiðisamningur sé samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. des. 1982. Hver eru ákvæði hafréttarsáttmálans frá 10. des. 1982, um þessi efni sem eru í gildi í dag, sem eru lög í dag? Þau ákvæði eru um frjálsar fiskveiðar. Þau eru um frjáls réttindi fiski- og útgerðarmanna allra aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna til veiða á þeim fiskstofnum sem hér hefur verið lýst nema þau hafi samið um annað við aðrar þjóðir. Nú stendur til að breyta þessu en það hefur ekki gerst vegna þess að breytingin hefur ekki tekið gildi. Þangað til breytingin hefur tekið gildi eru frjálsar veiðar alþjóðalög og mér er sem ég sæi þann alþingismann á Alþingi Íslendinga sem mundi samþykkja þá lagatúlkun að það bæri að fara eftir lagasetningu frá Alþingi sem breytti öðrum lögum áður en sú lagasetning hefur tekið gildi.

Við alþingismenn tökum oft ákvörðun um það þegar við samþykkjum lög sem breyta ákvæðum annarra laga að hin nýju lög taki ekki gildi fyrr en eftir 1--2 ár og einstaka dæmi eru um að gildistaka dragist lengur. Hvað þýðir það? Það þýðir að hin nýju lög taka ekki gildi fyrr en eftir þann tíma sem ákveðinn er og á meðan eru gömlu lögin í gildi. Mér er sem ég sæi þann alþingismann eða þann dómara sem vildi sniðganga gildistökuákvæði og dæma eftir breytingunum en ekki gildandi lögu. En það er það sem verið er að gera hér vegna þess að breytingin sem á að gera á hafréttarsáttmálanum með úthafsveiðisamningnum hefur ekki verið gerð. Á meðan hún hefur ekki verið gerð gilda hin gildandi ákvæði sem eru frjáls fiskveiðiréttur og við höfum ekki hugmynd um hversu margar þjóðir munu undirrita þennan sáttmála. Við höfum ekki hugmynd um hve langur tími líður áður en hann verður staðfestur og við höfum ekki hugmynd um hvenær hann tekur gildi. Samt sem áður ætlum við að fara að framkvæma ákvæði hans og raunar miklu harkalegar en úthafssáttmálinn gerir ráð fyrir eins og kom í ljós þegar farið var yfir frv. hæstv. sjútvrh. í upphaflegri mynd í sjútvn. og það borið saman við texta úthafsveiðisáttmálans eins og hann var raunverulega því að þar kom í ljós að hæstv. ráðherra hafði lagt til í frv. að honum væri skylt að setja takmarkandi reglur á veiðar íslenskra úthafsfiskimanna og vísaði þar til ákvæðis úthafsveiðisáttmálans en í úthafsveiðisáttmálanum stóð að hafnríki geti sett slíkar reglur. En hæstv. ráðherra vildi hafa það þannig að honum væri skylt að setja reglurnar með vísun í úthafsveiðisáttmálann en í úthafsveiðisáttmálanum stóð: ,,Hafnríki getur sett reglur.`` Þannig er oftúlkunin, virðulegi forseti, bæði á meginefni úthafsveiðisáttmálans, hvaða áhrif hann hefur á íslenska lagasetningu og einnig á einstök atriði í sáttmálanum. Það er eins og hæstv. ráðherra sé á höttunum eftir því að fá eins mikið vald og hann mögulega getur, miklu meira vald en úthafsveiðisáttmálinn krefst til þess að setja íslenskum fiskimönnum og útgerðarmönnum sem stunda veiðar á úthafinu fjarri Íslands ströndum takmarkandi reglur. Meira að segja er gengið svo langt að oftúlka ákvæði í sáttmálanum, láta í veðri vaka að þau geri íslenska löggjafanum skylt að setja takmarkandi reglur um veiðar fiskiskipa í úthöfunum þegar úthafsveiðisáttmálinn segir að hafnríki geti gert slíkt.

Í erindi Tómasar Heiðars er fjallað nokkuð um aðdragandann að setningu úthafsveiðisamningsins og ég ætla aðeins að grípa þar niður sem hann segir, með leyfi forseta:

,,Með hafréttarsamningnum frá 1982 voru settar ítarlegar reglur um landhelgina, efnahagslögsöguna og landgrunnið. Hins vegar má segja með nokkrum rétti að úthafið hafi verið skilið eftir út undan. Áfram var fylgt þeirri hefðbundnu meginreglu þjóðaréttar að veiðar á úthafinu væru öllum ríkjum frjálsar. Þær reglur sem settar voru um verndun fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim á úthafinu og áttu að takmarka þetta frelsi voru of almenns eðlis til að geta þjónað tilgangi sínum og þörfnuðust nánari útfærslu. Það var hlutverk úthafsveiðiráðstefnunnar að bæta hér úr, að útfæra nánar ákvæði hafréttarsamningsins um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim og hrinda þeim í framkvæmd. Sú staðreynd þrýsti mjög á að ráðstefnan yrði haldin að sókn í fiskimiðin á úthafinu hefur stóraukist og leitt til ofveiði víða um heim. Er nú svo komið að um 70% fiskstofna í heiminum verði fullnýttir, ofnýttir eða að hruni komnir samkvæmt skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Þjóðir heims hafa í vaxandi mæli gert sér grein fyrir að koma verður í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á úthafinu. Allar þær deilur sem sprottið hafa á undanförnum árum um þessar veiðar hafa og fært mönnum heim sanninn um nauðsyn bindandi samkomulags.``

Herra forseti. Svo mörg voru þau orð og allt er þetta rétt. Allir vita að það stendur til að setja í framhaldi af fullgildingu úthafsveiðisáttmálans reglur um þessar veiðar. Hvað haldið þið að aðrar fiskveiðiþjóðir, úthafsveiðiþjóðir geri þá? Hvað gera þær þá á meðan veiðarnar eru frjálsar, vitandi að það á eftir að staðfesta reglur um stjórn fiskveiðanna og grípa síðan til einhvers konar úthlutunar til þeirra þjóða sem hafa veiðireynslu á þessum svæðum? Hvað gera þær þá? Þær safna sér veiðireynslu. Það segir sig sjálft. Auðvitað gera þær út skip sín að því marki sem veiðarnar bera sig því enginn útgerðarmaður fer að borga með sér og enginn gerir út á veiðar sem eru reknar með tapi. Menn gera að sjálfsögðu út á veiðarnar meðan þær borga sig til þess að ná sér í veiðiréttindi, til þess að ná sér í veiðireynslu þegar að því kemur að kvótum verður skipt með einum eða öðrum hætti milli þjóða eftir veiðireynslu þeirra.

Hvað ætla Íslendingar að gera? Íslendingar ætla að stöðva flota sinn. Íslendingar ætla ekki að taka þátt í þessu kapphlaupi. Íslendingar ætla að láta úthafsveiðiflota sinn sitja heima á meðan aðrar þjóðir eru að heyja sér veiðireynslu úr þessum stofnum. Og hver verður þá hlutur íslensku úthafsútgerðarinnar þegar upp verður staðið frá því samningaborði?

Síðan segir í umræddu erindi, með leyfi forseta: ,,Á úthafsveiðiráðstefnunni tókust á nokkuð ólík sjónarmið strandríkja annars vegar og úthafsveiðiríkja hins vegar. Í upphafi var þó ljóst að niðurstaða ráðstefnunnar mundi hvorki felast í því að fullveldisréttur strandríkja innan 200 mílna efnahagslögsögunnar yrði færður út fyrir hana né í því að viðurkenndar yrðu frjálsar veiðar á úthafinu heldur yrði að finna málamiðlun. Eftir því sem leið á ráðstefnuna mjókkaði bilið milli aðila og að lokum náðist samstaða um bindandi alþjóðlegan samning, úthafsveiðisamninginn.``

[22:15]

Nokkru síðar segir í þessu erindi, með leyfi forseta: ,,Segja má að úthafsveiðisamningurinn byggist á fimm meginþáttum: Fyrsti þátturinn eru þær reglur sem verndun stofnanna og stjórnun veiða úr þeim skuli byggð á. Hér er annars vegar um að ræða hina almennu reglu 5. gr. samningsins en meðal þeirra er sú að verndunar- og stjórnunarráðstafanir skuli byggðar á bestu vísindalegu niðurstöðum sem tiltækar eru. Þessu tengd eru ákvæðin um söfnun gagna um veiðar sem nánar er fjallað um í I. viðauka við samninginn og um eflingu vísindarannsókna. Hins vegar er hér um að ræða ákvæði 6. gr. um varúðarleiðina. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að ríkið skuli sýna sérstaka varúð þegar upplýsingar um viðkomandi stofn eru óvissar eða ónógar. Einnig er ríkjum skylt að ákveða svonefnd viðmiðunarmörk fyrir hvern stofn um sig, en nánar er fjallað um þau í II. viðauka við samninginn.

Þær reglur sem hér hafa verið nefndar gilda ekki aðeins á úthafinu heldur einnig innan efnahagslögsögunnar, svo og einnig um ákvæði 7. gr. sem ég kem að á eftir,`` segir Tómas H. Heiðar í erindi sínu á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins í haust. Hann heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Annar meginþáttur úthafsveiðisamningsins og kjarni hans eru reglur þriðja hluta hans um samstarf ríkja. Þar er gert ráð fyrir því að strandríki og úthafsveiðiríki starfi saman á vettvangi svæðisbundinna veiðistjórnarstofnana, að verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim. Ef fyrir hendi er svæðisbundinn stofn sem er bær til að ákveða verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna tiltekinna stofna skulu ríki sem veiða úr stofninum á úthafinu og viðkomandi strandríki uppfylla samstarfsskyldu sína með því að gerast aðilar að stofnuninni ef þau eru það ekki fyrir. Aðild að slíkri stofnun er opin öllum ríkjum á jafnræðisgrundvelli sem hafa raunverulega hagsmuni af viðkomandi fiskveiðum. Ríki telst væntanlega hafa raunverulega hagsmuni af veiðum úr stofni ef það hefur stundað slíkar veiðar eða ef stofninn heldur sig að einhverju leyti innan efnahagslögsögu þess. Þetta skilyrði er mikilvægt því að aðeins þau ríki sem eru aðili að slíkri stofnun eða fallast á að hlíta þeim verndunar- og stjórnunarráðstöfunum er stofnunin hefur ákveðið eiga möguleika á að fá aðgang að þeim auðlindum sem þessar ráðstafanir ná til. Það að ríki fái aðild að slíkri stofnun leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að það fái veiðiheimildir. Það ræðst af þeim viðmiðunarreglum sem taldar eru upp í 11. gr. samningsins. Ef svæðisbundin veiðistjórnarstofnun er ekki fyrir hendi skulu viðkomandi strandríki og þau ríki sem veiða úr viðkomandi stofni á úthafinu í sameiningu koma henni á fót.``

Hverju er verið að lýsa þarna? Það er verið að lýsa ferli sem samkvæmt úthafsveiðisáttmálanum á að gilda þegar úthafsveiðisáttmálinn hefur verið fullgiltur og hefur öðlast gildi sem alþjóðalög. Og hvernig á það ferli að vera? Það ferli á að vera þannig að starfræktar séu svæðisbundnar veiðistjórnarstofnanir um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnun á veiði úr þeim. Þessar svæðisbundnu veiðistjórnunarstofnanir eiga síðan m.a. á grundvelli veiðireynslu að taka ákvörðun um stjórn fiskveiða hver á sínu svæði. Og nú spyr ég: Hvar eru þessar veiðistjórnarstofnanir sem eiga þessu hlutverki að gegna og eru forsenda þess að úthafsveiðisáttmálanum sé framfylgt? Hafa þær verið stofnsettar? Er Ísland aðili að þeim? Að sjálfsögðu ekki. Engin af þessum stofnunum er enn orðin til eða a.m.k. fáar þeirra eru enn orðnar til þannig að tækin sem á að nota til þess að framkvæma þá stjórnun sem úthafsveiðisáttmálinn gerir ráð fyrir hafa ekki verið búin til, hafa ekki verið sköpuð. Svo kemur hæstv. sjútvrh. og ætlar bara að gera þetta einn. Hann þarf engar svona stofnanir. Hann ætlar bara að gera þetta einn. Hann ætlar ekki að gera þetta einn fyrir alla. Nei, hann ætlar bara að gera þetta fyrir Íslendinga. Hann ætlar að taka að sér hlutverk þeirra svæðisbundnu veiðistjórnunarstofnana sem eiga samkvæmt úthafsveiðisáttmálanum að setja ríkjum reglur um veiðar á viðkomandi svæðum. Þær eru ekki til. Hann ætlar að taka að sér hlutverk þeirra gagnvart íslenskum veiðum. Hann ætlar að stjórna þessum veiðum eins og hann sé alþjóðastofnun, en sú stjórnun á bara að gilda gagnvart Íslendingum. Og túlkun hans á hlutverki sínu í mynd þessarar stofnunar er svo víðtæk að vald hans til stjórnunar nær meira að segja inn fyrir fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Hann er því ekki bara svæðisbundin veiðistjórnunarstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna í þessu frv. sem hefur að vísu aðeins lögsögu yfir íslenskum veiðimönnum. Hann tekur líka að sér slíka lögsögu innan fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Hann ætlar líka að fá að ráða því hvernig Íslendingar haga veiðum sínum innan fiskveiðilögsögu annarra ríkja; Afríku, Asíu, Ameríku. Hvar sem er. Það þarf engar svæðisbundnar veiðistjórnunarstofnanir þegar við höfum svona mikinn afreksmann í stóli sjútvrh., eða hvað? Hann getur bara gert þetta allt saman sjálfur, einn. Hann þarf ekki einu sinni aðstoðarmanninn með sér. Gerir þetta bara heima við eldhúsborðið. En sá galli er á gjöf Njarðar að þetta gildir bara gagnvart Íslandi. Hann tekur ekki að sér að sjá um veiðistjórnun innan lögsögu annarra ríkja fyrir neina nema íslensk skip. Hann leyfir stjórnvöldum viðkomandi ríkja að sjá um allt hitt sjálf.

Síðan segir, virðulegi forseti, um þessa stofnun sem á að stofna ef úthafsveiðisáttmálinn verður samþykktur og eftir að hann hefur tekið gildi sem alþjóðalög: ,,Innan svæðisstofnunar skulu ríki m.a. koma sér saman um verndunar- og stjórnunarráðstafanir vegna viðkomandi stofna, ákvarða leyfilegan heildarafla úr stofninum, úthluta kvótum til einstakra ríkja, ákveða hver veiðisókn skuli vera, setja reglur um veiðar og veiðarfæri, taka saman og dreifa gögnum um veiðar, fylgjast með ástandi stofnanna og setja reglur um eftirlit með veiðarfærum.``

Íslenski sjútvh. þarf ekki þetta. Hann gerir þetta bara einn, við eldhúsborðið heima hjá sér. Hann tekur það á sínar herðar einn og sjálfur að framfylgja úthafsveiðisáttmálanum sem engin þjóð hefur enn staðfest, enginn veit hvenær hann verður alþjóðalög og enginn veit hvenær þessar svæðisstofnanir verða til sem úthafsveiðisáttmálinn gerir ráð fyrir að verði. Þorsteinn Pálsson, hæstv. ráðherra, tekur þetta að sér einn og sjálfur. Síðan segir í umræddu erindi:

,,Þriðji meginþátturinn sem samningurinn byggist á er ákvæði 7. gr. hans um að verndunar- og stjórnunarráðstafanir fyrir úthafið annars vegar og efnahagslögsöguna hins vegar skuli vera samþýðanlegar. Sem dæmi um slíkar ráðstafanir má nefna ákvörðun um skiptingu leyfilegs heildarafla úr stofni á milli úthafssvæðis annars vegar og efnahagslögsögunnar hins vegar. Sérstaklega er tekið fram að við ákvörðun samþýðanlegra verndunar- og stjórnunarráðstafana skuli ríkið taka tillit til þeirra ráðstafana sem strandríki hafa ákveðið og þau beita vegna sömu stofna innan lögsögunnar og tryggja að ráðstafanir sem samþykktar eru vegna þessara stofna á úthafinu grafi ekki undan áhrifum þessara ráðstafana.``

Hér er annars vegar tekið tillit til þess að fiskstofnanir eru líffræðilegar heildir sem samræmd stjórn þarf að vera á og hins vegar þess að strandríki hafa samkvæmt hafréttarsamningnum óskoraðan fullveldisrétt yfir auðlindum í efnahagslögsögu sinni. Og nú spyr ég, herra forseti: Er í frv. þessu gert ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh. þurfi að taka tillit til afstöðu einstakra annarra ríkja um ákvörðun á veiðiheimildum á úthafinu á svæðum þar sem Íslendingar eru ekki aðilar að samningum um veiðar á? Nei, það er ekki gert. Það er gert ráð fyrir því að Alþingi veiti hæstv. sjútvrh. fulla heimild til þess að taka þá ákvörðun sem honum sjálfum þóknast vegna slíkra svæða. Hann þarf ekki að taka tillit til þess hvað önnur ríki kunna að hafa að segja á þessum svæðum, þ.e. þeim svæðum sem Íslendingar eru ekki samningsaðilar við aðrar þjóðir um veiðar á. Hann hefur það algerlega óskorað í sinni hendi ef frv. verður samþykkt að taka ákvarðanir þar um. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þó að úthafsveiðisamningurinn hafi þannig að geyma viðmiðunarreglur um skiptingu leyfilegs heildarafla úr stofni á milli úthafssvæðis annars vegar og efnahagslögsögunnar hins vegar inniheldur hann engar almennar viðmiðunarreglur um skiptingu kvóta milli einstakra ríkja. Hinum svæðisbundnu veiðistjórnarstofnunum er látið eftir að ákveða hvaða viðmið skuli lögð til grundvallar skiptingu kvóta milli aðildarríkja þeirra.``

Hinum svæðisbundnu veiðistjórnunarstofnunum er látið eftir að ákveða hvaða viðmið skuli lögð til grundvallar skiptingu kvóta o.s.frv. Ekki í frv. sjútvrh. Þar er ekkert minnst á þetta. Þar er allt þetta vald falið honum einum. Þar er ekki gert ráð fyrir að það þurfi neina svæðisbundna veiðistjórnarstofnun til. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Fjórði meginþátturinn sem úthafsveiðisamningurinn er reistur á eru ákvæði fimmta og sjötta hluta hans um eftirlit og framkvæmdarvald. Þeirri meginreglu þjóðarréttarins er fylgt að eftirlit með því að fiskiskip virði verndunar- og stjórnunarreglur á úthafinu og framfylgd þeirra sé fyrst og fremst í höndum fánaríkisins, þ.e. þess ríkis sem skipið er skráð í. Samningurinn leggur þá skyldu á herðar fánaríkinu að það stjórni veiðum skipa sinna á úthafinu með því að leyfisbinda þær og það banni þeim skipum að stunda veiðar sem ekki hafa tilskilin leyfi. Ekki er þó látið við eftirlit og framfylgd af hálfu fánaríkjanna einna sitja. Strandríkin bentu á það á úthafsveiðiráðstefnunni að misbrestur gæti orðið á því að fánaríkin sinntu skyldum sínum í þessum efnum eins og dæmin sýndu, bæði vegna skorts á getu og vilja. Því væri nauðsynlegt að veita öðrum ríkjum heimildir að þessu leyti. Úthafsveiðisamningurinn yrði marklaust plagg ella.``

Nú spyr ég: Hefur Ísland fengið slíka heimild til þess að hafa eftirlit með veiðum skipa annarra ríkja á úthafinu sem strandríki? Hefur það öðlast þá heimild þar sem ekki er um að ræða samninga um veiði úr sameiginlegum fiskstofnum? Getur Ísland fylgst með veiðum skipa annarra ríkja eins og gert er ráð fyrir í samningnum að landið fái? Nei, það getur það ekki. Það getur það ekki. En hæstv. sjútvrh. ætlar sér að fylgjast alfarið með veiðum íslenskra skipa á þessum sömu slóðum og stöðva veiðar þeirra og beita menn kárínum, sektum eða varðhaldi ef þeir fara ekki að fyrirmælum hans eins um veiðarnar. Ekki er um gagnkvæmnisréttindi þar að ræða. Ekki fáum við neina heimild á móti til þess að fylgjast með veiðum annarra skipa á úthafinu þótt þau sniðgangi eins og þau hafa fullan rétt til öll þau viðmið og öll þau markmið sem íslenski sjútvrh. hefur lagt til grundvallar fyrir veiðum íslenskra skipa. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Fimmti og síðasti meginþáttur úthafsveiðisamningsins eru ákvæði áttunda hluta hans um friðsamlega lausn deilumála. Sú leið er farin að láta ákvæði hafréttarsamningsins um skyldubundna og bindandi lausn deilumála gilda um deilur milli aðildarríkja úthafsveiðisamningsins. Deilur þessar geta annars vegar lotið að túlkun eða beitingu samningsins sjálfs og hins vegar að túlkun eða beitingu svæðisbundins fiskveiðisamnings um deilistofna eða víðförula fiskstofna sem ríkin eru aðilar að. Undir hið síðarnefnda falla m.a. deilur um verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim. Ljóst er að það er afar mikilvægt að ríkjum sem ekki geta komið sér saman um ráðstafanir til verndunar tiltekins stofns og stjórnunar veiða úr honum skuli opin sú leið að skjóta deilumáli sínu til alþjóðlegs dómstóls eða gerðardóms til bindandi úrlausnar.``

[22:30]

Meginþátturinn er að tryggja friðsamlega lausn deilumála milli ríkja. Er hæstv. sjútvrh. að tryggja friðsamlega lausn deilumála innan okkar eigin ríkis um fiskveiðar með frv.? Hefur hann tekið tillit til þeirra ábendinga sem t.d. þingflokksformaður Alþfl. kom fram með og aðrir stjórnarandstæðingar í sjútvn. að undanskildum hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem skrifar undir nefndarálit meiri hlutans? Hefur hann tekið tillit til þeirra ábendinga? Nei, hann hefur ekki gert það. Hefur hann tekið tillit til ábendinga Félags úthafsútgerða sem hefur lagt fram rökstutt erindi og meira að segja boðið samvinnu um lausn málsins? Nei, hann hefur ekki gert það. Er þetta friðsamleg lausn deilumála? Er þetta í anda úthafsveiðisáttmálans sem hæstv. ráðherra segist byggja sinn málflutning á? Síðan segir, með leyfi forseta, í þessu athyglisverða erindi Tómasar Heiðars um þýðingu úthafsveiðisamningsins:

,,Þá sé rétt að hafa í huga það markmið hans að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Ljóst er að langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða eru í því fólgnir að þessu markmiði verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar úr þessum stofnum á úthafinu víðsvegar í heiminum.``

Svo segir: ,,Sérstakir hagsmunir strandríkja af verndun slíkra stofna og stjórnun veiða úr þeim eru viðurkenndir með ýmsum hætti í samningnum. Skýrasta dæmið um það er e.t.v. áðurnefnt ákvæði 7. gr. um að við ákvörðun samþíðanlegra verndunar- og stjórnunarráðstafana skuli ríki taka tillit til þeirra ráðstafana sem strandríki hafa ákveðið og þau beita vegna sömu stofna innan lögsögunnar og tryggja að ráðstafanir sem samþykktar eru vegna þessara stofna á úthafinu grafi ekki undan áhrifum þeirra ráðstafana.

Annað dæmi er ákvæði 21. gr. sem áður er nefnt en samkvæmt því hafa önnur ríki en fánaríki almennt einnig rétt til að hafa eftirlit með fiskiskipum annarra ríkja á úthafinu og jafnframt til að fara með framkvæmdarvaldi gagnvart þeim í áðurgreindum tilvikum. Vegna landfræðilegrar nálægðrar og hagsmuna sinna af því að verndunar- og stjórnunarreglur séu virtar á úthafinu er við því að búast að strandríkin komi fyrst og fremst til með að hafa þetta hlutverk á hendi og er ákvæðið þeim því sérstaklega mikilvægt.

Loks má nefna ákvæði 4. gr. samningsins um að ákvæði hans skuli ekki hafa áhrif á réttindi, lögsögu og skyldur ríkja samkvæmt hafréttarsamningnum og að ákvæðin skuli túlkuð til samræmis við ákvæði hans.``

Síðan segir í umræddu erindi, með leyfi forseta:

,,Óhætt er því að fullyrða að almennir hagsmunir strandríkja séu eftir atvikum vel tryggðir í úthafsveiðisamningnum. Jafnframt er þar viðurkennd sérstaða strandríkja á borð við Ísland sem í mjög miklum mæli eru háð fiskveiðum eins og áður er vikið að. Ljóst er að þegar ákvarðanir eru teknar um verndun og stjórnun veiða á deilistofnum sem halda sig bæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar, t.d. norsk-íslensku síldinni og úthafskarfanum á Reykjaneshrygg, skal taka tillit til þessarar sérstöðu Íslands. Og þátttaka Íslands í verndun og stjórnun veiða á stofnum á úthafinu á fjarlægum miðum er tryggð í þeim tilvikum þegar veiðireynsla er fyrir hendi og skilyrðin um raunverulega hagsmuni af veiðunum þar með fullnægt.``

Það er því leitt í ljós hér það sem ég sagði í upphafsorðum mínum að þátttaka Íslands í verndun og stjórnun veiða á stofnum í úthafinu á fjarlægum miðum er aðeins tryggð í þeim tilvikum þegar veiðireynsla er fyrir hendi. Og tillit verður tekið til hagsmuna Íslands samkvæmt þessum sáttmála í réttu hlutfalli við þá veiðireynslu. Hver er þá ástæðan fyrir því að íslenska úthafsútgerðin sem rétt nýlega hefur slitið barnsskónum fái ekki að afla íslensku þjóðinni þeirra mikilvægu réttinda sem felast í veiðireynslu eins og verður ef frv. hæstv. sjútvrh. fer í gegn? Hvernig stendur á því að það á að veita ráðherra vald til þess að stöðva að þessar útgerðir geti tryggt okkur þátttöku í verndun og stjórnun veiða á stofnum í úthafinu á fjarlægum miðum sem aðeins verður tryggð með því að Ísland hafi veiðireynslu á þeim miðum og í þeim stofnum sem þar er verið að fjalla um? Hér er því ekki bara spurning um efnahagsleg atriði. Hér er spurning um áhrif. Hér er spurningin um það hvar Íslendingar geta fengið að hafa áhrif á stjórn veiða í samvinnu við aðrar þjóðir á fjarlægum miðum og þau áhrif getum við ekki fengið nema íslenski úthafsveiðiflotinn verði frjáls til veiða á þeim miðum svo lengi sem sú regla er meginregla í alþjóðalögum samkvæmt hafréttarsáttmálanum. Því þá og þá aðeins höldum við réttindum okkar til jafns við aðra og getum gert okkur vonir um að geta komið íslenskum hagsmunum á framfæri á fjarlægum miðum, ekki bara þeim miðum sem við þekkjum nú heldur einnig á þeim fjarlægu miðum sem ég er sannfærður um að íslenski úthafsveiðiflotinn mun sækja á þegar hann hefur aflað sér þeirrar reynslu og þekkingu sem hann hefur verið að afla sér á fjarlægum miðum á undanförnum árum með þeim árangri sem ég gat um í upphafi ræðu minnar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert hér grein fyrir, með tilvitnun í erindi Tómasar H. Heiðars, nokkrum meginatriðum í úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er vissulega mjög þýðingarmikill samningur, ekki síst fyrir strandveiðiþjóð eins og við Íslendingar höfum verið, sem er að breytast í úthafsveiðiþjóð og á réttinda að gæta og hagsmuna að gæta á öllum miðum nær og fjær í heiminum. En þessi þýðingamikli samningur verður ekki að alþjóðalögum fyrr en einhvern tímann, enginn veit hvenær. Á meðan ríkja alþjóðalögin um frjálsa veiði og frjálsa ferð um veiðislóðir úthafsins. Sá tími sem verður þangað til að úthafsveiðisamningurinn nær lagagildi mun verða notaður af öllum þjóðum til þess að afla sér veiðireynslu á þessum slóðum til þess að geta komið sínum sjónarmiðum að þegar úthafsveiðisamningurinn tekur gildi. Hvers vegna ættum við Íslendingar einir fiskiveiðiþjóða að skerast úr í þeim leik?

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að fara nokkrum orðum um úthafsveiðafrv. sjálft nú eftir að rakin hafa verið nokkur efnisatriði, bæði aðdragandi málsins og efnisatriði í úthafsveiðisamningnum sem hæstv. ráðherra segist byggja frv. sitt á. Þar er um nokkuð auðugan garð að gresja.

Í Morgunblaðinu 29. maí 1996 skrifaði dr. Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttarlögmaður grein þar sem hann fjallar um úthafsveiðifrv. og telur það mjög varhugavert. Gunnlaugur segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það verður að teljast mjög alvarlegt, ef Alþingi ætlar bindandi að veita sjávarútvegsráðherra svo víðtæk völd. Mér verður stundum hugsað til þess,`` --- segir þessi hæstaréttarlögmaður og fyrrum alþingismaður, --- ,,hve mikilvægt það er, að á Alþingi hafa að jafnaði setið þingmenn, sem láta ekki sem vind um eyrun þjóta ýmsa gagnrýni, sem ábyrgir aðilar láta frá sér fara um sitthvað, sem gerist með þjóðinni.``

Nú trúi ég því að hv. fyrrv. þingmaður og hæstaréttarlögmaður sé ekki síst að tala til stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sem standa á bak við hæstv. sjútvrh. og frv. hans. Hann segir við þá: Ég tel það mikilvægt ,,... að á Alþingi hafa að jafnaði setið þingmenn, sem láta ekki sem vind um eyrun þjóta ýmsa gagnrýni, sem ábyrgir aðilar láta frá sér fara um sitthvað, sem gerist með þjóðinni.`` Og skyldi hv. fyrrv. þm. hafa rétt fyrir sér? Að það séu einhverjir til í hópi stjórnarliða sem hlusta á þá gagnrýni á frv. þetta sem fram hefur verið sett? Ég ætla að vona það. En hv. fyrrv. þm., hæstaréttarlögmaðurinn Gunnlaugur Þórðarson, heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Því er þetta nefnt hér, að óvíst er hvar íslenska þjóðin væri á vegi stödd í dag í landhelgismálinu ef gagnrýni sú, sem birtist hér í blaði 6. janúar 1971 undir yfirskriftinni: ,,Uppgjöf í landhelgismálinu``, hefði ekki haft áhrif.

Greinin var gagnrýni á boðað áframhald aðgerðaleysis í landhelgismálinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, eftir að 12 sjómílna landhelgin hafði verið í gildi í rúm 13 ár.

Enginn mun neita því, að sú gagnrýni hratt af stað baráttu fyrir 50 sjómílna landhelgi, sem náði inn í sali Alþingis og lauk með því að 50 sjómílna landhelgin varð að veruleika að afstöðnum kosningum og stjórnarskiptum nokkru síðar. Í framhaldi af því 200 sjómílna landhelgi.``

Og greinarhöfundur heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Menn geta velt því fyrir sér hvernig landhelgismálið horfði við nú ef sjávarútvegsmálin hefðu þá lent í höndum ráðherra með svipað hugarfar og núverandi sjávarútvegsmálaráðherra, þegar hugsað er til smugumálsins, karfans á Reykjaneshrygg og nýgerðs samnings við Norðmenn um síldveiðar, sem opnað hefur íslensku landhelgina fyrir Norðmönnum og Rússum.

Samt er það svo, að þessi sami sjávarútvegsmálaráðherra, sem segist vera talsmaður frelsis í atvinnumálum, seilist nú bersýnilega til meiri afskipta ríkisins af útgerðarmálum íslensku þjóðarinnar, en dæmi eru til áður og æskilegt er. Stjórnarfrumvarp það um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sem nú liggur fyrir Alþingi, gefur þetta óþyrmilega til kynna.``

Greinarhöfundur heldur áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Einkum eru það ákvæði í 3. og 4. gr. frv., sem eru varhugaverð. Í þeim er gert ráð fyrir að sjávarútvegsmálaráðherra fái ótakmarkað vald til að setja reglur um veiðar íslenskra skipa utan landhelgi og jafnvel að veita samþykktum erlendra stofnana lagagildi hér á landi.

Þá vekja 5. og 6. greinar frv. grunsemdir. Tilgangur þeirra er sýnilega að færa kvótakerfið, sem gilt hefur um veiðar íslenskra skipa í landhelgi, yfir á öll úthöf.

Það má teljast mjög alvarlegt ef Alþingi ætlar blindandi að veita sjávarútvegsmálaráðherra svona víðtæk völd og afmá þýðingu sjálfs Alþingis í jafnmikilvægu máli.``

Og greinarhöfundur heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir:

,,Það yrði allt of langt mál að tíunda alla galla frv. Þó er fullkomin ástæða til að benda á, að frv., ef að lögum verður, mun torvelda allt frumkvæði í mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar og gera úthafasveiðar síður eftirsóknarverðar.

Í frv. eru sjö greinar, sem skipta máli. Það er ótrúlegt, að í frv. þessu koma fyrir nærri þrjátíu sinnum orð svo sem: ,,ráðherra skal``, eða ,,ráðherra getur`` eða þá ,,ráðherra er heimilt``. Talar það sínu máli um hin víðtæku völd, sem Alþingi er ætlað að afsala sér í hendur sjávarútvegsmálaráðherra.

Ef nauðsynlegt er að endurskoða löggjöf um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu landsins, má Alþingi ekki gefa sjávarútvegsmálaráðherra jafn lausan tauminn til að ráðskast með mikilvægasta atvinnuveg íslensku þjóðarinnar og stefnt er að með frv. þessu`` segir hæstaréttarlögmaðurinn í lokin.

Herra forseti. Hér er umsögn manns sem ekki hefur bara setið á Alþingi Íslendinga heldur var mjög framarlega í umræðum um landhelgismál hér á útfærsluárunum og skrifaði meira en flestir aðrir um þau mál. Dr. Gunnlaugur Þórðarson setti sig mjög vel inn í sjávarútvegsmál og landhelgismál Íslendinga og var einarður talsmaður útfærslunnar á íslensku fiskveiðilögsögunni og tók þátt í hafréttarráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og aflaði sér fjölmargra yfirgripsmikilla lögfræðilegra upplýsinga um hafréttarmál. Og það er full ástæða til þess, herra forseti, að hv. þm. leggi við hlustir þegar maður með þessa reynslu lætur í ljós svo afdráttarlaust álit á því frv. sem hér er til meðferðar. Það er full ástæða til þess að hv. alþingismenn hlusti með athygli á þau varnaðarorð.

[22:45]

En það hafa fleiri tjáð sig um þessi mál, virðulegi forseti. Einn sá lögspekingur sem öðrum betur þekkir þjóðarétt og landhelgismál og landhelgisbaráttu Íslendinga er dr. Gunnar G. Schram. Hann kom á fund sjútvn. þegar fjallað var um þetta frv. og var þar spurður um það hvort hann teldi eðlilegt að leysa lögin frá 1976 af hólmi með frv. eins og þessu. Ég hef það að vísu ekki skriflegt frá honum en hann sagði á fundi nefndarinnar að hann teldi að ný lagasetning væri óþarfi þar sem lögin frá 1976 veittu ráðherra allar þær heimildir sem hann þyrfti til þess að stjórna fiskveiðum í samræmi við alþjóðasamninga eða fjölþjóðasamninga sem Íslendingar eiga aðild að. Og hann sagði einnig, ef ég man rétt, að það væri mun mikilvægara fyrir hagsmuni þjóðarinnar að halda áfram að afla henni veiðireynslu á úthafinu fremur en að setja lög af því tagi sem gæfu sjútvrh. svo víðtæk völd til að stöðva þær veiðar eins og umrætt frv. gerir. Það var því ekki nokkur vafi á því hvað dr. Gunnar Schram ráðlagði sjútvn. Hann ráðlagði henni að setja ekki þessi lög því að hinir hagsmunirnir væru miklu meiri, þeir að afla þjóðinni aukinnar veiðireynslu á úthafinu áður en úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna öðlaðist gildi og veiðikvótum á úthafinu yrði skipt eftir aflareynslu. Þannig að þarna eru komnir tveir mikilhæfir lögmenn, menn sem hafa látið sig þessi mál miklu varða, sem eru báðir sammála um þá ráðgjöf sem gefin er sjútvn. og Alþingi Íslendinga í því máli.

Ég hef einnig aflað mér álits valinkunnra manna sem hafa farið yfir þetta frá sama sjónarhóli og lögmennirnir og vil láta þess getið, herra forseti, hver þau helstu viðhorf eru sem þar hafa komið fram. Í fyrsta lagi eru þessir taldir vera helstu gallar frv. samkvæmt þeirri samantekt: ,,Í fyrsta lagi er verulega verið að skerða athafnafrelsi íslenskra skipa á úthafinu með frv. og óeðlilega mikið vald fengið sjútvrn. til að beita þar boðum og bönnum sem jaðrar við brot á almennum þjóðaréttarreglum. Þetta er því alvarlegra sem hér er um helsta vaxtarbrodd íslensks sjávarútvegs að ræða. Meginatriði frv. er í raun það að allt sé bannað sem ráðherra ekki beinlínis leyfir utan lögsögu Íslands. Þessi grunnhugsun er bæði röng og stjórnskipulega mjög varhugaverð, ekki síst vegna atvinnufrelsis.``

Herra forseti. Þetta eru orð sem ástæða er til að staðnæmast við og ígrunda því þetta er ekki sett fram af neinni léttúð heldur í fullri alvöru af aðilum sem hafa tekið saman álit sitt, lögfræðilegt álit sitt á meginatriðum frv. og færa til m.a. þessa galla þess.

Í öðru lagi er gerð sú athugasemd að með frv. sé verið að yfirfæra reglur núverandi kvótakerfis í efnahagslögsögunni yfir á úthafið. Sú gjörð er mjög varhugaverð í ljósi þeirra deilna sem um kvótakerfið hafa staðið og fullkomlega ástæðulaust að taka upp sama kerfi utan íslenskra lögsögumarka. Hér er með ofstjórn verið að hefta framtak og frjálsræði íslenskra útgerða á alþjóðlegum hafsvæðum hvar sem er í heiminum.

Í þriðja lagi. Það ákvæði 2. gr. að ráðherra veiti leyfi til veiða íslenskra skipa á úthafinu og að fiskveiðar þeirra þar séu óheimilar án slíkra leyfa brýtur gegn efni og anda 87. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um frelsi til veiða á úthafinu. Ísland er bundið af ákvæðum sáttmálans. Það er stjórnskipulega afar hæpið að ráðherra sé fengið vald til að takmarka svo skilyrðislaust með reglugerðum atvinnufrelsi íslenskra ríkisborgara hvar sem er í heiminum. Það er m.ö.o. sett fram hér það álit að það sé vafasamt að Alþingi geti veitt ráðherra vald til að stöðva eða takmarka veiðar íslenskra fiskiskipa hvar sem er í heiminum svo lengi sem slík valdbeiting samrýmist ekki hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um frjálsar veiðar. Með öðrum orðum er þeirri spurningu varpað fram hvort þetta ákvæði í hafréttarsáttmálanum sem Ísland er bundið af svo lengi sem það ákvæði er í alþjóðalögum er ekki yfirsterkara og hvort sjútvrh. sé leyfilegt að beita valdi sem Alþingi fær honum til þess að takmarka réttindi íslenskra þegna í umheiminum þar sem alþjóðleg lög kveða á um að slík réttindi séu öllum heimiluð. Það má vel vera að á þetta verði reynt fyrir dómstólum. Hvort má sín meira réttindi sem íslenskir þegnar fá að alþjóðalögum eða takmarkanir að geðþótta sjútvrh. á þeim réttindum sem hann setur í krafti lagasetningar sem hann knýr meiri hluta Alþingis til þess að staðfesta?

Þá segir einnig í umræddum athugasemdum um einstakar greinar, með leyfi forseta. ,,Í sjálfu sér eru nægar lagaheimildir fyrir hendi í lögum nr. 34/1976 til að stjórna veiðum utan fiskveiðilandhelgi Íslands. 1. gr. laganna veitir slíkar heimildir. 2. gr. laganna er hins vegar óljós og getur veitt ráðherra heimildir til óeðlilegra afskipta og er því út af fyrir sig nauðsynlegt að gera hana skýrari. Miðað við að ný lög verði sett svo sem hér virðist stefnt að þá er það höfuðatriðið að þau verði stutt og ljós og innihaldi aðeins meginreglur. 5.--10. gr. frv. eiga þar því alls ekki heima. Þar er fjallað um atriði sem eiga heima í reglugerð en alls ekki í lögum að undanskilinni 1. mgr. 5. gr.``

Síðan segir, með leyfi forseta, um 3. gr. ,,Ástæðulaust er að skylda ráðherra til að setja reglur um veiðar íslenskra skipa utan efnahagslögsögunnar. Nær væri að nota orðalagið ,,ráðherra er heimilt``, almennar skyldur er mjög óljóst hugtak. Hér ætti að standa ,,skyldur Íslands samkvæmt alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki``.``

Síðan segir um 4. gr., með leyfi forseta: ,,Óþarft og óeðlilegt er að binda veiðar utan lögsögunnar takmörkunum sem leiða af lögum og reglum settum með stoð í þeim. Frv. sjálft mun veita hér næga lagaheimild og þá síðari lög sem sett kunna að verða. Nægilegt er að segja að veiðar séu heimilar íslenskum skipum utan lögsögunnar með þeim takmörkunum sem leiða af samningum Íslands við önnur ríki. Með því er tryggt að ráðherra getur ekki þeim til viðbótar sett íþyngjandi reglur um slíkar veiðar að eigin geðþótta eins og frv. nú heimilar. Önnur setning 4. gr. er óhæf í núverandi mynd og felur í sér gjörsamlega óþarfa takmarkanir á atvinnufrelsi sem er stjórnarskrárvarið. Hér ætti að standa í staðinn: ,,Ráðherra veitir leyfi til veiða íslenskra skipa á úthafinu þegar slík leyfisveiting er nauðsynleg vegna samninga Íslands við önnur ríki.`` Fella ætti alveg út framhaldið um að fiskveiðar séu óheimilar án slíkra leyfa, þetta segir sig sjálft og er óþarft. Síðasta mgr. 4. gr. er eðli málsins samkvæmt algjörlega óþörf. Yfirvöld erlendra ríkja eru fullfær um að framfylgja sínum lögum án aðstoðar íslenska sjútvrn.``

Alvarlegasta athugasemdin, virðulegi forseti, er að sjálfsögðu að ef Alþingi veitir hæstv. sjútvrh. heimildir til að takmarka veiðar umfram það sem leiðir af samningum Íslands við önnur ríki án þess að úthafsveiðisáttmálinn sé orðinn að alþjóðalögum sé hann að ganga svo langt til skerðingar á atvinnufrelsi Íslendinga að það sé spurning hvort ekki sé um að ræða stjórnarskrárbrot. Og hvaða nauðsyn ber til þess að ráðherra séu veittar slíkar heimildir til skerðingar á atvinnufrelsi þegar ekki eiga í hlut veiðar á hafsvæðum þar sem samningar eru í gildi við önnur ríki? Það eru engin rök sem mæla fyrir um slíkt. Engin rök sem standa til þess að hæstv. ráðherra fái slíkar valdheimildir til takmörkunar á atvinnufrelsi Íslendinga á hafsvæðum þar sem Ísland er ekki aðili að neinum samningum um veiðar við önnur ríki.

Síðan segir áfram í athugasemdunum, með leyfi forseta, um 5. gr.: ,,Þessi ákvæði hljóta að vera mjög umdeild og eiga heima í reglugerðum en ekki í lögum. Kvótakerfið er hér fært yfir á úthafið. Spyrja mætti reyndar hvort ekki væri eðlilegt að skip með lítinn kvóta innan lögsögunnar fengju meiri kvóta í sinn hlut en þeir sem þegar ráða yfir stórum kvótum úr þeim sömu fiskstofnum sem hér um ræðir.``

Þessari spurningu sem hér er velt upp, virðulegi forseti, mundu sjálfsagt ekki allir svara á sama veg því hér er vissulega um álitamál að ræða. En vissulega má segja að þau sjónarmið sem hér eru sett fram eigi nokkurn rétt á sér, a.m.k. ekki síðri en önnur sjónarmið sem kunna að vera uppi í þessu máli.

[23:00]

Um 6. gr. segir síðan í álitsgerðinni, með leyfi forseta:

,,Aðeins 1. mgr. ætti að vera í lögum. Annað er reglugerðaratriði og kemur aftur upp spurningin sem er pólitísks eðlis hvort yfirfæra eigi kvótakerfið í núverandi mynd á úthafsveiðar þegar ekki er um flökkustofna að ræða eða miða fremur við almennt sóknarkerfi eða frjálsar veiðar þegar heildarafli er ekki ákveðinn sem vitanlega væri eðlilegast með vísan til 8. mgr. 6. gr. frv. Síðasta mgr. 6. gr. veitir ráðherra óeðlilega mikið vald til skerðingar atvinnufrelsis og ætti að fella brott,`` segir í umsögninni. Um 7. gr. segir síðan, með leyfi forseta:

,,Fráleitt er að veita ráðherra svo opna heimild sem hér um ræðir til að mæla fyrir um veiðarfæri íslenskra skipa hvar sem er í heiminum. Hér nægir að veita ráðuneytinu heimild til að setja reglur um veiðarfæri sem er í samræmi við ákvæði þeirra samninga við önnur ríki sem Ísland er aðili að. Að öðru leyti á íslenskum skipum að vera heimilt að nota þau veiðarfæri sem þau kjósa og best henta hverju sinni. Enn er hér reynt að hefta athafnafrelsi íslenskra ríkisborgara fullkomlega að ástæðulausu,`` segir í umsögninni. Fullkomlega að ástæðulausu.

Um 8. gr. segir síðan, með leyfi forseta: ,,Enn er þessi grein allt of víðtæk. Af hverju á að heimila eftirlitsmenn um borð í skipum við veiðar t.d. við Afríku eða Asíulönd og skylda útgerðina til að bera af því kostnað. Nær væri að þrengja heimildina við tilvik þar sem þess er krafist vegna samninga Íslands við önnur ríki. Af sömu ástæðum er 9. gr. óþörf.``

Um 10. gr. segir svo, með leyfi forseta: ,,Enn er bannárátta ráðuneytisins hér í algleymingi. Í 1. mgr. ætti að standa að heimilt væri að landa afla erlendra skipa í íslenskum höfnum nema veiðarnar brjóti í bága við samninga. Hér vantar einnig skilgreininguna á orðinu hentifána. Í 2. mgr. er ráðherra veitt vald til þess að ákveða almennt löndunarbann erlendra skipa vegna veiða þeirra á úthafinu sem ekki brjóta í bága við samninga sem Ísland er aðili að. Þjónar slíkt bann íslenskum hagsmunum?`` (Gripið fram í: Já.) Það er von að spurt sé. Þjónar slíkt bann íslenskum hagsmunum, herra forseti?

Um 11. gr. segir, með leyfi forseta: ,,2. málsl. 11. gr. er í andstöðu við gildandi þjóðarétt sem meinar afskipti af erlendum skipum á úthafinu á þennan hátt. Af sömu ástæðu fær 3. mgr. ekki staðist.`` Svo mörg voru þau orð.

Hér er enn einu sinni búið að rekja í öllum meginefnisatriðum og síðan grein fyrir grein alvarlega ágalla á umræddu frv. Það getur ekki verið að það fari fram hjá hugsandi mönnum að þær ábendingar sem hér hafa verið fram settar eru vel rökstuddar og réttar og ég fæ ekki skilið hvernig á því stendur að menn taka ekki mark á jafn vel undirbyggðri gagnrýni og vel fram settri, ekki síst þegar liggur ljóst fyrir að það er ekkert sem kallar á að taka þá ákvörðun að knýja frv. í gegn eins og það er úr garði gert.

Það eru fleiri viðvaranir, virðulegi forseti, sem hafa komið fram frá þeim aðilum sem fyrst og fremst eiga hagsmuna að gæta í þessu máli. Að vísu hefur engin umsögn komið fram frá þeim sem á mestra hagsmuna að gæta í þessu máli sem er íslenska þjóðin. Hún hefur ekki verið spurð. Sjómennirnir á þessum skipum hafa ekki verið spurðir né fjölskyldur þeirra né þeir 4.000 aðilar í landi sem með einhverjum hætti hafa vinnu sína af þjónustu við þessa útgerð eða af því að verka afla hennar. Þetta eru þeir sem hafa mestra hagsmuna að gæta. Þeir hafa ekki verið spurðir, en ýmsir aðrir sem að málinu koma hafa verið spurðir og eiga hagsmuna að gæta og ég vil aðeins vitna með nokkrum orðum í álit þeirra.

Þann 28. maí sl. sendi Félag úthafsútgerða mjög áríðandi bréf til hæstv. sjútvrh. Efni bréfsins var samþykkt NAFO frá því í september 1995 um skyldu til þess að hafa svokallaða sjónarvotta um borð í íslenskum skipum að veiðum á Flæmska hattinum. Enska orðið sem notað er er ,,observers`` sem hefur verið þýtt sem eftirlitsaðili. Það er að sjálfsögðu röng þýðing á því orði. Hin rétta þýðing er sú sem notuð er í bréfinu, þ.e. sjónarvottur, því að það er ekki ætlast til annars en þeir aðilar sem eiga að vera þar ,,observers`` gegni því hlutverki að fylgjast með veiðum en ekki vinna þar sem eðlilegir eftirlitsaðilar með því valdi sem eftirlitinu fylgir. En bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ágæti sjávarútvegsráðherra.

Með vísun til fundar með yður þann 15. maí sl. þar sem við lögðum fram grunnathugasemdir okkar við frumvarp til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Við lýstum þungum áhyggjum yfir nær öllu efni frumvarpsins en einkum og sér í lagi skyldunni til þess að hafa sjónarvotta um borð í íslenskum skipum að veiðum á Flæmska hattinum, sjónarvotta sem skip félagsmanna okkar bæru allan kostnað af. Kostnaðurinn sem af því hlýst mun verða skipunum óviðráðanlegur og margir ef ekki allir útgerðarmenn munu hætta rækjuveiðum á Flæmingjagrunni. Við það tapaðist dýrmæt veiðireynsla sem reynslan hefur kennt Íslendingum að er mjög mikilvæg og grundvallaratriði við gerð fjölþjóðasamninga um úthafsveiðar.

Við lýsum miklum vonbrigðum með undirtektir yðar á málaleitan félagsins sem er einföld. Félag úthafsútgerða óskar eindregið eftir því að um frumvarpið verði fjallað í sumar og það lagt fram í þeim búningi fyrir Alþingi að sómi verði að og sátt verði um.``

Meiri var óskin ekki. Óskað eftir því að hægt væri að hafa eðlilegt samráð um frv. þannig að hægt væri að afgreiða það þannig frá Alþingi að sómi verði að og sátt verði um. Ekki er nú til mikils mælst, herra forseti. Síðan segir í bréfi Félags úthafsútgerða, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er fyrsta frumvarp til laga í heiminum sem gert er til fyllingar úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar eiga einn núlifandi hafréttarfræðing sem einnig er doktor í þjóðarétti. Það er Gunnar G. Schram, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. Maður með hans þekkingu og reynslu af hafréttarmálum er réttur aðili að okkar mati til að endursemja frumvarpið eftir að hafa tekið tillit til ósamstæðrar niðurstöðu úthafsveiðinefndar þeirrar sem er hér skipuð 1993, en skilaði áliti sem ekkert samkomulag var um í nefndinni 7. maí sl. til yðar og eftir að hafa tekið tillit til athugasemda ÚT og annarra hagsmunaaðila. Ljóst er að sjávarútvegsráðuneytinu hafa orðið á mikil mistök að mótmæla ekki samþykktum sjónarvotta í fiskveiðinefnd NAFO og jafnframt að ráðuneytið notaði sér ekki 60 daga rétt til mótmæla frá dagsetningu samþykktarinnar. Mistök þessi gætu kostað íslenska þjóðfélagið og þegna þess hundruð milljóna ef fram heldur sem horfir.``

Síðan segir áfram, með leyfi forseta: ,,Félag úthafsútgerða leggur fram eftirfarandi lausn á fyrrgreindum mistökum sem hefur að geyma ásættanlega niðurstöðu fyrir ÚT og lausn sem leysir vanda sjávarútvegsráðuneytisins með sæmd. Lausnin er eftirfarandi:

Fiskistofa löggildi sjónarvotta á álíka máta og vigtarmenn eða rafmagnseftirlitsmenn eru löggiltir. Fiskistofa setji fram sín skilyrði til löggildingar. ÚT lýsir því yfir að félagið er tilbúið til þess að lögskrá þessa löggiltu sjónarvotta sem einn af áhöfn, enda gangi sjónarvotturinn til almennra starfa í viðkomandi skipi og þiggi laun beint úr hendi viðkomandi útgerðar. Ef Kanadamenn sætta sig ekki við umrædda sjónarvotta er ÚT að meinalausu að þeir sendi sína eftirlitsmenn um borð þegar þeim þóknast sem þeir gera reyndar nú þegar. Kanadamenn myndu hins vegar bera allan kostnað af sínum sjónarvottum nema meðlimir ÚT sæju fyrir mat og herbergi á sinn kostnað.

Lausn þessi byggir m.a. á lið 17.B í samningi NAFO þar sem segir á þessa leið: ,,In cases where a contracting party has not placed an observer on a vessel any other contracting party may, subject to the consent of the contracting party of the vessel, place an observer on board until that contracting party provides a replacement in accordance with paragraph A.`` Félaginu er kunnugt um að kanadíski sjávarútvegsráðherrann mun koma til Íslands miðvikudaginn 29. maí, þ.e. á morgun.`` --- Þetta bréf var skrifað 28. maí eins og ég áður greindi. --- ,,Félag úthafsútgerða skorar eindregið á yður, hr. sjávarútvegsráðherra, að óska opinberlega eftir framangreindri lausn á sjónarvottasamþykktum við sjávarútvegsráðherra Kanada og beita lipurð yðar, kurteisi og stjórnmálavisku til þess að sjávarútvegsráðherra Kanada samþykki hugmyndina. Ekki sakar að ráðherrann, hr. Fred Mifflin, er persónulegur vinur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.

Með virðingu og bestu kveðjum.

Fyrir hönd ÚT.

Snorri Snorrason.``

Nú langar mig til þess að vita: Beitti hæstv. sjútvrh. lipurð sinni, kurteisi og stjórnmálavisku í viðræðum sínum við sjávarútvegsráðherra Kanada eða gerði hann það ekki? Eða hafði hæstv. ráðherra e.t.v. ekki erindi sem erfiði? Hve langt drógu hin persónulegu vinatengsl mr. Mifflins við Halldór Ásgrímsson eða öllu heldur hin persónulegu vinatengsl Halldórs Ásgrímssonar við mr. Mifflin? Björguðu þau málinu eða dugðu þau ekki til?

Það vantar ekki, virðulegi forseti, að Félag úthafsútgerða hafi sent bæði sjútvn. og hæstv. sjútvrh. umsagnir sínar og aðvaranir því í umsögn Félags úthafsútgerða um málið í heild frá 22. maí 1996 segir svo, með leyfi forseta:

,,Félag úthafsútgerða hefur ekkert tækifæri haft til að fjalla um frumvarpið og er það þó helsti hagsmunaaðili sem frumvarpið beinist að. Félagið krefst þess að fá frumvarpið til umfjöllunar og fá nægan tíma til að gera sínar athugasemdir við sjávarútvegsnefndar Alþingis. Félagið telur sig þurfa a.m.k. tvo mánuði til að fara ítarlega yfir frumvarpið

Ísland er 13. eða 14. stærsta fiskveiðiþjóð heims í magni talið. Úthafsveiðar hafa Íslendingar hins vegar ekki stundað í neinum mæli þar til síðustu ár. Aðeins eru þrjú ár síðan hægt var að skrá skip á Íslandi til fiskveiða utan landhelgi. Úthafsveiðar Íslendinga eru í dag aðeins örlítið brot af úthafsveiðum heimsins. Til samanburðar má t.d. líta til úthafsveiða Japans, Suður-Kóreu, Bandaríkjanna Spánar, Portúgals, Póllands, Eystrasaltsríkjanna, Rússlands og að ýmsu leyti til Færeyinga.

Mikil áhersla er nú til dags lögð á útflutning hugvits Íslendinga. Aðeins í einni atvinnugrein höfum við yfirburðaþekkingu fram yfir aðrar þjóðir, en það er í fiskveiðum. Félag úthafsútgerða vill og hefur flutt þá þekkingu út og óskar eftir stuðningi Alþingis til að gera hlut Íslendinga í þessum efnum sem mestan á alþjóðlegum vettvangi. Til þess að úthafsútgerð Íslendinga megi þroskast og dafna þarf atvinnugreinin eins mikið frelsi og alþjóðalög heimila.

Félagið minnir á 87. gr. hafréttarsáttmálans um frelsi úthafsins. Félagið fagnar jafnframt úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tilbúinn var af þeirra hálfu 4. ágúst 1995. Félagið vill hins vegar benda á að engin þjóð hefur enn fullgilt úthafsveiðisáttmálann og hann hefur ekki verið lagður fyrir Alþingi. Engin þjóð hefur því sett landslög til fyllingar sáttmálanum. Úthafsveiðisáttmálinn kveður á um þjóðréttarlega byltingu hvað varðar veiðar á úthöfunum.`` Síðan segir félagið, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

[23:15]

,,Til þeirra verka á að vanda sem vel eiga að standa, stendur á vísum stað. Með það í huga lýsir félagið furðu sinni á þeim ógnarhraða sem til stendur að knýja á um samþykkt umrædds frumvarps. Samkvæmt greinargerð frv. var ekki hafist handa um gerð þess fyrr en Sameinuðu þjóðirnar höfðu lokið gerð úthafssáttmálans. Gerð frv. hefur því hafist í september 1995. Nefndin sem það vann skilaði því með ágreiningi 7. maí sl. til sjútvrh. 10. maí sl. var frv. lagt fyrir ríkisstjórn og svo fyrir þingflokka. 13. maí sl. var frv. lagt fyrir Alþingi með það í huga að knýja fram lagasetningu fyrir þinglok sem áætluð eru í lok maí. Þessi aðferð við lagasetningu er afar óvenjuleg og alls ekki í anda lýðræðis, allra síst þegar það er haft í huga að um er að ræða byltingu í þjóðarétti og gerbyltingu í íslenskum landsrétti. Jafnframt er það til íhugunar að varla hefur mikilvægari lagasetning verið fyrir Alþingi frá 1944 þegar frá er talin lýðveldisstofnunin, innganga í NATO og útfærsla landhelginnar í 200 sjómílur.

Til að taka af allan vafa lýsir Félag úthafsútgerða því yfir að það styður allar skynsamlegar aðgerðir til verndar fiskstofnum og vill vinna gegn rányrkju. Félagið lýsir einnig stuðningi við úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna og einnig við bálk Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um ábyrgar fiskveiðar. Í mjög grófum dráttum eru helstu athugasemdir Félags úthafsútgerða við frv. þessar:

1. Frelsi til athafna á úthafinu er stórlega skert.

2. Skip sem veiðileyfi hafa í lögsögu Íslands hafa tvímælalausan forgang fram yfir úthafsútgerðir.

3. Ný skip geta ekki bæst í flota úthafsútgerða.

4. Frelsi til athafna í landhelgi annarra landa er stórlega skert.

5. Kostnaður við eftirlit við úthafsveiðar stóreykst, m.a. með fyrirhugaðri gjaldtöku vegna veiða á Flæmska hattinum. Sá kostnaður nemur ekki minna en 6 millj. kr. á hvert veiðiskip en gæti orðið allt að 10 millj. sem í mörgum tilvikum er jafnt eða meira en hagnaður af útgerð skipanna. Nú stunda 40 íslenskir togarar veiðar á Flæmska hattinum.

6. Framsal Alþingis á löggjafarvaldi sínu til sjútvrh. samkvæmt frv. er með öllu ósamrýmanlegt íslensku réttarfari.``

Síðan segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Félag úthafsútgerða leyfir sér fyrir hönd íslensks almennings og sjálfs sín að mótmæla harðlega 3., 4., 5., 6., 8. og 16. gr. frv. og telur þær allar fallnar til þess að ganga af íslenskri úthafsútgerð dauðri og taka fyrir allan frekari vöxt þessara mikilvægu alþjóðlegu starfsemi Íslendinga.

Því má bæta við að ljóst er að Kanadamenn hafa leikið á Íslendinga með því að fá samþykkt í Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni, NAFO, að sérstakir sjónarvottar yrðu um borð í íslenskum skipum við veiðar á Flæmska hattinum. Kanadamönnum hefur bersýnilega verið það ljóst að kostnaður vegna sjónarvottanna yrði það hár vegna fjarlægðar Íslands frá miðunum að hann fældi íslenska útgerðarmenn frá veiðunum en sex sinnum lengra er fyrir Íslendinga að sækja þessi úthafsmið en fyrir Kanadamenn og kostnaður hlutfallslega samkvæmt því.

Það íslenskt stjórnvald sem væntanlega hefur samþykkt kröfur sjónarvotta hefur kostað skattborgara hérlendis hundruð millj. kr. í óþarfaáform með veiðum ef framkvæmt verður sem stjórnvöld hérlendis stefna að með umræddu frv. Áhorf sem Kanadamenn stunda ekki sjálfir á sama hátt og kveðið er á í fyrrgreindu samkomulagi. Allt kapp verður að leggja á að fá þessa kvöð niðurfellda eða finna leið sem er kostnaðarlega viðráðanleg.

Félag úthafsútgerða, sem nú þegar framkvæmir við mikla eftirlitsvinnu fyrir íslensk stjórnvöld, svo sem Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun, lýsir sig reiðubúið til viðræðna við stjórnvöld vegna fyrrgreinds ákvæðis um sjónarvotta og til að leggja fram tillögur um skynsamlega og ásættanlega lausn. Skynsamleg lausn væri t.d. að fela skipstjórnarmönnum íslenskra fiskiskipa framangreinda vottun til viðbótar því starfi sem þeir sinni fyrir opinbera aðila hérlendis eða fela Kanadamönnum eftirlitið, samanber sem segir í greinargerð. Fyrrgreindur sjónarvottakostnaður gæti hæglega orðið til þess að íslensk skip hættu veiðum á Flæmska hattinum. Við það tapaðist dýrmæt veiðireynsla sem reynslan hefur sýnt að er grunnur í samningaumræðum um úthafsveiðar.``

Bréf þetta er dagsett 22. maí 1996 og undir það skrifar Snorri Snorrason, formaður Félags úthafsútgerða. Álitinu fylgir síðan löng greinargerð sem er meginrökstuðningur Félags úthafsútgerða sem þeir tóku saman á þeim stutta fresti sem þeir fengu til að fjalla um frv. Þar kemur m.a. fram að eftirlitskostnaður sá sem gert er ráð fyrir að leggja á þessa útgerð vegna samningsins um veiðar á Flæmska hattinum íþyngir útgerðunum meira en sem nemur meðaltalshagnaði af útgerðinni eins og hún var hjá meðalskipi á þeim árum sem þessi veiði hefur verið stunduð.

Herra forseti. Ég hef rakið í máli mínu aðdragandann að þessari frumvarpsgerð, nokkur meginefni frv. og gagnrýni sem fram hefur komið á þau og álit ýmissa valinkunnra aðila og hagsmunaaðila sem um hafa fjallað til þess m.a. að rökstyðja þá tillögu sem minni hluti sjútvn. flytur á þskj. 1086. Meiri hluti sjútvn. hefur gert nokkrar breytingar á frv., minni háttar lagfæringar en engar meginefnisbreytingar sem skipta sköpum um það sem frv. felur í sér. Í okkar nefndaráliti á þskj. 1086 segir svo, með leyfi forseta:

,,Frv. var flutt af sjútvrh. í framhaldi af störfum sérstakrar nefndar sem skipuð var árið 1993 til þess að fjalla um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Ekki náðist samkomulag í nefndinni og var ágreiningur bæði um meginefni frumvarpsins og um einstakar greinar þess. Engu að síður lagði sjávarútvegsráðherra frumvarpið fram nú undir lok vorþings og er af hálfu stjórnarmeirihlutans lögð áhersla á afgreiðslu þess þótt ágreiningur um það hafi ekki verið jafnaður og aðeins hafi gefist örskammur tími til þess að fjalla um þetta viðamikla mál.

Minni hluti nefndarinnar telur ekki rétt að afgreiða frumvarpið nú heldur leggur til að meiri tími verði notaður til þess að vanda betur til verksins. Rökin fyrir því eru eftirfarandi:

Látið er í veðri vaka að niðurstaða úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem lauk með samkomulagi um nýjan alþjóðlegan samning í ágúst sl., kalli á skjóta lagasetningu. Það er ekki rétt. Engin þjóð hefur enn fullgilt hinn nýja sáttmála, ekki einu sinni Íslendingar, og mun því verða talsvert löng bið eftir því að hann öðlist gildi sem alþjóðalög. Verði frumvarpið samþykkt verða Íslendingar þjóða fyrstir til þess að setja stórfelldar takmarkanir á úthafsveiðiflota sinn, löngu áður en nokkur önnur fiskveiðiþjóð grípur hugsanlega til sambærilegra ráðstafana. Enginn veit hvenær úthafsveiðisáttmálinn tekur gildi né hvernig aðrar fiskveiðiþjóðir munu haga framkvæmdum á veiðistjórnun í samræmi við hann. Því er eðlilegt að doka við og hafa samráð við aðrar þjóðir um framkvæmd sáttmálans þannig að framkvæmdin sé samræmd í stað þess að rjúka nú til að þarflausu og setja stórfelldar veiðitakmarkanir á úthafsflotann á sama tíma og aðrar þjóðir leyfa frjálsar úthafsveiðar í samræmi við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Núgildandi lög um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 34/1976, veita sjávarútvegsráðherra allar nauðsynlegar heimildir til þess að stjórna veiðum í samræmi við alþjóðlegar eða fjölþjóðlegar samþykktir. Síldveiðisamningur Íslendinga, Færeyinga, Rússa og Norðmanna frá því í vor kallar því ekki á neina nýja lagasetningu.

Með frumvarpinu er athafnafrelsi íslenskra skipa á úthöfunum skert miklum mun meira en þörf er á samkvæmt úthafsveiðisáttmálanum og samningum sem Ísland er aðili að. 87. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að frelsi til veiða á úthöfunum sé meginreglan. Á grundvelli ákvæðisins um frjálsar veiðar á úthöfum hafa Íslendingar á síðustu fáum árum verið að afla sér ómetanlegrar veiðireynslu á nýjum miðum. Í úthafsútgerðinni er nú vaxtarbroddurinn í sjávarútveginum og hefur hún skilað bróðurpartinum af þeirri tekjuaukningu sem orðið hefur í þjóðarbúskapnum. Verði frumvarpið samþykkt vegur það að rótum þessarar útgerðar og gæti orðið til þess að hún legðist að verulegu leyti niður, sem yrði áfall fyrir þjóðarbúið. Eðlilegra og æskilegra væri að næstu mánuðir yrðu notaðir til þess að afla íslenskum útgerðum meiri veiðireynslu á úthöfunum sem yrði þjóðinni mikill fengur þegar fiskveiðiþjóðir heims setja samræmdar reglur um veiðistjórnun á grundvelli úthafsveiðisáttmálans.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir mjög víðtæku valdi sjávarútvegsráðherra til þess að stjórna veiðum íslenskra skipa á fjarlægum miðum nánast eftir geðþótta. Engar fjölþjóðlegar eða alþjóðlegar samþykktir krefjast þess að ráðherra verði fengið slíkt geðþóttavald til þess að stjórna veiðum íslenskra skipa jafnvel í lögsögu annarra þjóða víðs fjarri íslenskum miðum. Minni hlutinn er andvígur því að svo mikið vald sé fengið ráðherra.

Þá eru ákvæði í frumvarpinu um mikla gjaldtöku vegna eftirlits með veiðum íslenskra fiskiskipa á úthafinu. Nýgerður samningur um veiðar á rækju á Flæmingjagrunni er sagður kalla á slík lagaákvæði. Lagaákvæðin eru hins vegar almenn og án takmörkunar og miklu víðtækari en samningurinn krefst auk þess sem hann er út af fyrir sig ekki rökstuðningur fyrir þeim víðtæku valdheimildum til sjávarútvegsráðherra og miklu veiðitakmörkunum sem frumvarpið gerir að öðru leyti ráð fyrir. Sé nauðsyn talin á að afla lagaheimilda fyrir greiðslu kostnaðar við eftirlit samkvæmt samningnum um rækjuveiðar á Flæmingjagrunni er eðlilegra að það verði gert með sérstakri sjálfstæðri lagaheimild í samræmi við efnisatriði samkomulagsins auk þess sem eðlilegt er að skoða það mál mun betur en gert hefur verið, m.a. í því skyni að gjaldtakan komi ekki í veg fyrir að skip geti stundað veiðarnar með eðlilegri afkomu.

Þessi rök og önnur valda því að minni hlutinn telur ekki ráðlegt að afgreiða málið nú og leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Undir nál. skrifa auk mín Svanfríður Jónasdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í sjávarútvegsnefnd, er samþykk afstöðu minni hlutans og styður frávísunartillöguna.