Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 23:28:39 (7265)

1996-06-04 23:28:39# 120. lþ. 160.14 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[23:28]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til 2. umr., frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, varðar afar mikilvægt málasvið. Það er því eðlilegt að menn þurfi að tjá sig nokkuð um það í þinginu því að mál þetta varðar mörg almenn álitaefni og skuldbindingar af Íslands hálfu auk þess sem það snertir hagsmuni fjölmargra aðila, fyrirtækja og einstaklinga sem hafa gert sig gildandi í veiðum á úthafinu á undanförnum árum.

Í sambandi við almenna stöðu þessa frv. vil ég nefna það í upphafi að formaður sjútvn. þingsins og fulltrúi Alþb. í sjútvn., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, undirritar álit meiri hluta nefndarinnar, meiri hluta sjútvn., um frv. með fyrirvara. Hann er aðili að nefndaráliti meiri hlutans en gerir fyrirvara um ýmsa þætti málsins og einstakar greinar frv. Hv. þm. hefur fjarvistarleyfi frá þinginu í dag og er þess vegna ekki til þess að túlka sitt mál eða viðhorf til frv. Ég fer um frv. nokkrum almennum orðum, lýsi mínum viðhorfum og að nokkru viðhorfum sem fram hafa komið eftir umræður í þingflokki Alþb. um málið og bið um að það sé haft í huga í sambandi við ræðu mína um þetta efni.

[23:30]

Það skiptir afskaplega miklu máli almennt séð af hálfu okkar Íslendinga og allra fiskveiðiþjóða og þeirra sem nytja fiskstofna í úthafinu utan við lögsögu ríkja að það takist fyrr en seinna að ná víðtækri stjórnun á veiðar á þessum auðlindum. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem gerður var 1982 ef ég man rétt, og skapar ákveðinn grunn þessa máls var mikið óskabarn Íslands og Ísland átti ríkan þátt í að móta þann sáttmála. Hlutur Íslands í gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna er kannski eitt stærsta afrek Íslendinga í sambandi við mótun alþjóðasamninga og eins og fram hefur komið í umræðunni er úthafsveiðisamningurinn, sem þetta frv. byggir að nokkru leyti á og vísar til, framhald af gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, vísar til þess sáttmála og byggir að verulegu leyti á grundvellinum á honum þó að hann tæki ekki í einstökum atriðum til veiða á úthafinu. Sá sáttmáli fjallaði fyrst og fremst um veiðar innan lögsögu ríkja og lagði þar afar þýðingarmikinn grundvöll þó að vissulega væri fjallað um auðlindir hafsins í víðara samhengi í sáttmálanum en ekki þannig að unnt væri að reisa á því útfærðar reglur um stjórnun veiða. Það beið síðari tíma og það er á árinu 1992 í tengslum við umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hafist var handa um undirbúning að gerð samnings, sem tæki til veiða á úthafinu, sem síðan var unnin í áföngum og gerð hans lokið á síðasta ári.

Það var stórt skref og mjög þýðingarmikið og Íslendingar, íslenskir sérfræðingar, íslensk stjórnvöld, áttu verulegan hlut að þeirri vinnu sem fram fór sem eðlilegt var vegna þeirra hagsmuna sem við eigum undir í þessum málum og náðu, held ég að megi fullyrða, verulegum árangri með öðrum þjóðum sem samstarf tókst við við undirbúning úthafsveiðisamningsins, verulegum árangri til þess að verja og tryggja hagsmuni okkar eins og þeir voru metnir á þeim tíma og eins og þeir hafa þróast á síðari árum að því er varðar úthafsveiðar.

Sum kunnugt er hefur hjarta okkar slegið dálítið misjafnlega í þessum efnum ef litið er til baka og skilningur okkar Íslendinga á þýðingu þess að nema nýtt land með þátttöku í úthafsveiðum kom fram seinna heldur en búast hefði mátt við miðað við þó þá viðleitni sem fór fram á árum áður fyrir alllöngu til þátttöku eða til sóknar á fjarlæg mið. Það er kannski erfitt að fara að ræða um skýringar á því hvers vegna íslenskir útgerðaraðilar, að ekki sé talað um íslensk stjórnvöld lögðu ekki meira á sig til þess að leitast við að hvetja til sóknar á mið utan lögsögu okkar, sækja út fyrir lögsögu okkar og til að tryggja okkur þar réttindi. Ég vara við að menn felli mjög stóra dóma í þeim efnum þegar þessi mál eru rædd. Það eru sögulegar skýringar á því. Það er auðvelt að sakast um varðandi fortíðina. Við höfum verið seinir til en það á sér sínar skýringar. Ég held að ein gildasta skýringin í þeim efnum varði þann sigur sem við unnum í sambandi við útfærslu á landhelgi okkar í áföngum, það mikla átak sem Ísland stóð fyrir og mótun alþjóðaréttar, sem Ísland átti drjúgan þátt í, í sambandi við útfærslu lögsögu ríkja og þá viðurkenningu á 200 mílna auðlindalögsögu og þær sterku og miklu væntingar sem Íslendingar bundu við það skref sem þá var stigið að með því værum við búnir að tryggja verndun þýðingarmestu miða okkar, heimamiða okkar, og langt út miðað við það sem áður gilti og von um að okkur tækist að halda þannig á málum að vöxtur og viðgangur okkar fiskstofna á heimaslóð væri tryggður og það væri fyrst og fremst þar sem verkefnið lægi. Þetta held ég að sé kannski nærtækasta skýringin í sambandi við það hik, þá stöðnun ef svo má að orði kveða sem varðaði sóknina lengra út af hálfu íslenskra útgerðaraðila og af hálfu íslenskra stjórnvalda, að hvetja til þess að sækja út til þess að tryggja sér rétt.

Ég tek eftir því að menn hafa uppi nokkuð stór orð um það t.d. að við skulum ekki hafa verið hvatvísari í þessum efnum, lagt stærra undir og þar mælir m.a. fyrrv. hæstv. utanrrh. Íslands sem hélt á málum fyrir Íslands hönd á árum áður og á þeim tíma sem lítið var aðhafst í raun. Ég minni þá t.d. á Svalbarða og Svalbarðasamninginn sem gerður var 1920, í frumgerð sinni og yfir 40 ríki höfðu gerst aðilar að áður en í rauninni íslensk utanríkisþjónusta tók eftir því að okkur hafði láðst að hugsa um þennan samning og þá hagsmuni sem honum kynnu að tengjast. Það vildi svo til að ég komst til Svalbarða vorið 1993 og í þeirri ferð áttaði ég mig á því hver staða okkar var í þessum efnum og hafði einsett mér að taka þetta mál upp þegar þing kæmi saman. Einmitt það sama sumar ýttu íslenskir útgerðarmenn úr vör austur í Barentshaf til veiða og brutu þar með ísinn í þessum efnum. Þá mundu menn eftir því að til væri Svalbarðasamningur og hugsanlegt væri að hann tengdist hagsmunum okkar að því er varðaði veiðar. Hinu má hins vegar ekki rugla saman að réttur til stjórnunar á veiðum við Svalbarða er ekki beint afsprengi Svalbarðasamningsins að öðru leyti en því að Norðmenn tóku sér þennan rétt sem handhafar og vörsluaðilar Svalbarðasamningsins, en það er ekkert sjálfgefið, einhlítt samhengi þarna á milli eftir því sem ég hef litið á málið og hefur það stundum valdið nokkrum misskilningi í sambandi við þessi efni.

Ég ætla ekki að fara nánar út í sagnfræðileg atriði sem tengjast þessu máli en ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við reynum að fara yfir þessi efni fordómalaust, reyna að bæta úr því sem vangert hefur verið af okkar hálfu í þessum málum á liðinni tíð, leitast við að tryggja sem fyllst réttindi okkur til handa innan þeirra marka og að því gefnu að við förum þar fram bæði með festu en líka með sanngirni og út frá því sjónarmiði að leitast við að tryggja almennt séð verndun þessara auðlinda og reyna að greiða fyrir því að um það takist alþjóðlegt sammæli og útfærðar reglur fyrr en seinna. Þegar ég segi fyrr en seinna er ég ekki að tala um næstu missiri, því að það þarf tíma til að alþjóðaréttur mótist í þessum efnum, það þarf t.d. tíma til þess að fá fylgi við þann úthafsveiðisamning sem hefur verið gerður. Um leið og við tökum eindregið undir þann samning og íslensk stjórnvöld hafa gerst aðilar að honum þurfum við auðvitað að gæta þess að ganga þar ekki hraðar fram en varðar almenna hagsmuni okkar og þau sjónarmið sem ég vísaði til að eiga að tengjast þessu máli af hálfu okkar.

Ég held að sú viðleitni sé allra góðra gjalda verð sem hefur verið uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að móta stefnu í þessum málum af Íslands hálfu og hófust 1993 en í málið kom síðan nokkurt hlé þegar skriður komst á undirbúning að úthafsveiðisamningnum og einnig það starf sem fór fram innan stjórnskipaðrar nefndar þar að lútandi síðast undir forustu hv. þm. Geirs H. Haarde. Það má segja að það sé vinna þeirrar nefndar sem skapar grunninn undir það frv. sem hér er flutt. Þó að engan veginn hafi verið búið að ná fullu sammæli í því máli má ég segja a.m.k. af hálfu þeirra sem mynda meiri hluta í sambandi við álit á þessu frv. að þeir aðilar sem áttu hlut að nefndinni hafi verið í stórum dráttum komnir vel á leið. Ég átta mig ekki að öllu leyti á því hvað olli því að bundinn var endi á nefndarstarfið með þeim hætti sem gert var nú fyrir nokkrum vikum, málið tekið út úr nefndinni á ábyrgð formannsins og síðan flutt það frv. sem við ræðum á grundvelli þess. Mér finnst kannski að það hafi verið nokkuð skjótráðið að ganga svo greitt til verka þó að ég hafi ekki forsendur til þess að fella þar neina harða dóma vegna þess að ég fylgdist ekki það náið með störfum þessarar nefndar og átti ekki aðild að henni. Þar var fulltrúi Alþb., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem gerði þingflokki okkar grein fyrir þróun málsins stig af stigi þannig að við fylgdumst eðlilega með því sem þarna gerðist og studdum þau sjónarmið sem hv. þm. bar fram í nefndinni.

Mér sýnist að í þeirri stöðu sem málið er nú standi stjórnvöld frammi fyrir talsverðum vanda. Við höfum heyrt málflutning minni hluta nefndarinnar sem leggst mjög hart gegn því að frv. þetta verði lögfest. Margir hv. þm. hafa fengið í hendur mikla samantekt frá hagsmunaaðila, Félagi úthafsútgerða, sem reiðir fram sjónarmið sín myndarlega og skilmerkilega og mikið hefur verið vitnað til þess álits. Það er mikill orðsmatur í þessu áliti til umræðu ef menn vilja nota. Ég leyfi mér að taka mér í mun orðið orðsmatur til samanburðar við hliðstætt hugtak og orðið eldsmatur sem stundum er notað en það er fyrst og fremst orð sem eru hér á blaði og verða vonandi ekki annað þó að það sem hér er fram borið geti kveikt alllangar umræður. Ég tek það fram að ég tel að þau sjónarmið sem hagsmunaaðilar bera fram, séu á sínum stað og margt þar mjög athyglisvert og út af fyrir sig til fyrirmyndar að leggja þá vinnu í að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við Alþingi. Auðvitað þarf Alþingi á því að halda að málið liggi sem skýrast fyrir utan úr þjóðfélaginu áður en lögfest er á Alþingi.

[23:45]

Ég hef áhyggjur af ýmsum atriðum sem tengjast þessu máli. Þess vegna eru það mínar ábendingar til hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar í þessu máli að það verði yfirvegað á þessari stundu og sólarhringum sem við höfum kannski til ráðstöfunar á Alþingi --- ég veit ekki hvað uppi er í sambandi við lok þinghalds núna, en það getur varla verið langt undan --- að athugað verði hvort það séu það brýnar ástæður til þess að lögfesta þetta frv. að það beri að fara fram með málið af þeim meiri hluta sem væri reiðubúinn að öðru jöfnu til að styðja málið eða hvort aðstæður séu þannig að skynsamlegt sé að leggja í það frekari vinnu, umhugsun og íhugun og taka málið upp að hausti þegar þing kemur saman á ný og þá í meiri sátt, skulum við vænta, við hlutaðeigandi aðila sem eiga sannarlega mjög mikið undir í þessu máli. Þessu máli tengjast bæði lögfræðileg atriði og hrein hagsmunaleg atriði og fjárhagsleg atriði og öll eru þau á sinn hátt gild. Og ég held að sitthvað af því sem mælt var af minni hluta nefndarinnar og talsmanni minni hlutans, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, sé alveg á sínum stað, en margt af því er ættað úr hinu ágæta kveri sem hagsmunaaðilar hafa lagt til okkar, og að þau sjónarmið séu fullgild á sinn hátt sem þar komu fram.

Eitt atriði, sem hv. þm. og fulltrúi Alþb. í nefndinni sem undirbjó málið og síðar fulltrúi í sjútvn. og formaður nefndarinnar kom á framfæri við okkur, voru áhyggjur í sambandi við 8. gr. frv., áhyggjur í tengslum við þann kostnað sem gert er ráð fyrir að lögfestur verði og þeim aðilum gert að standa skil á sem fá leyfi til úthafsveiða. Þessi texti frv. í einstökum greinum er allsnúinn. Það er ekkert auðmelt margt af því sem þar kemur fram fyrir þá sem ekki hafa sett sig inn í málið fyrir fram. Ég ætla ekki að fara út í að ræða þau efni sérstaklega. Til þess er ekki ástæða af minni hálfu nú. En ég vil gera að sérstöku umtalsefni þann vanda sem við blasir fyrir þá sem stunda nú veiðar t.d. á Flæmska hattinum og standa allt í einu frammi fyrir því að þurfa að reiða fram, á grundvelli laga og á grundvelli þess samkomulags sem kennt er við fiskveiðinefndina, NAFO, og það samkomulag sem þar var bókað og gert var liðið haust, í sambandi við eftirlit með veiðunum. Það er ekkert auðvelt fyrir þá sem stunda þessar veiðar að lenda skyndilega í þeirri stöðu að þurfa að standa skil á þeim verulega kostnaði sem á menn leggst til þess að standa undir þessu eftirliti. Ég vil beina þeim eindregnu óskum til hæstv. sjútvrh. og þeirra sem fara með málið hér og ráðherrann er sá sem ber ábyrgð á málinu af hálfu ríkisstjórnar, að það verði farið yfir það alveg á næstunni, áður en farið er að hugleiða um afdrif þessa máls, hvort það sé ekki efni til þess að taka atriði sem tengjast eftirlitinu og kostnaði við eftirlitið alveg til sérstakrar meðferðar og athugunar þannig að gætt sé þó ekki væri nema sanngirnissjónarmiða og hugað sé að eðlilegum aðlögunartíma fyrir þá sem hafa verið að sækja björg í bú jafnt fyrir sjálfa sig sem fyrir íslenskt þjóðarbú á þessi mið.

Nú er það vissulega svo í sambandi við samkomulagið um veiðar á Flæmska hattinum og þá stöðu alla að þar eru Íslendingar að súpa seyðið af rányrkju sem framin var af Evrópusambandinu aðallega á sínum tíma á þessum miðum með alveg hörmulegum afleiðingum. Það skulum við hafa vel í huga þegar við ræðum þessi mál og þegar við ræðum um úthafsveiðarnar og hvernig sumir --- við skulum vona að við eigum ekki þar skilið mjög bága einkunn enn þá --- hvernig sumir hafa gengið fram af algjöru tillitsleysi við auðlindina, af tillitsleysi við þær þjóðir sem næstar búa eins og t.d. Kanadamenn í þessu sambandi. Við erum að súpa seyðið af þessu framferði sem þarna varð og í rauninni að ganga inn í samkomulag sem gert hafði verið eða fallist hafði verið á og knúið fram vegna framferðis Evrópusambandsins, rányrkju og ofveiði á þessum slóðum utan lögsögu Kanada með þeim afleiðingum sem menn þekkja.

Það hvetur til þess að mínu mati, að um leið og við eigum vafalaust erfitt með að hlaupa frá því samkomulagi sem gert var í september 1995 um þessi efni, þá tel ég rétt og skylt af hálfu íslenskra stjórnvalda að reyna að finna á því aðra lausn en þá sem felst í því að dæmdur sé á viðkomandi útgerðir sá mikli kostnaður sem eftirlitinu fylgir nú á næstunni og skapa a.m.k. aðlögunartíma í málinu. Og ef ekki verður undan vikist að þarna hljótist af verulegur kostnaður, þá finnst mér það koma alveg til greina að hlaupa einhvern veginn undir bagga með almannasjóði til þess að leysa mál tímabundið og skapa þarna eðlilegt svigrúm til aðlögunar.

Það er alveg ljóst að hér eiga margir mikið í húfi. Hér er í húfi afkoma fyrirtækja. Hér er í húfi atvinna sjómanna. Hér er í húfi það sem dregið er í íslenskt þjóðarbú, þær tekjur sem þessu fylgja og jafnframt nauðsynin á að tryggja okkur réttindi, tryggja okkur hlutdeild í afla á þessum slóðum. En það gerist auðvitað ekki ef útgerðirnar gefast upp vegna þessa kostnaðar.

Fyrirtæki eru vissulega misjafnlega undir það búin að standa undir útgjöldum af þessu tagi. Enginn telur sig hafa efni á því í reynd, en auðvitað eru útgerðirnar misjafnlega öflugar og aðstæður þeirra misjafnar. Ég hef dæmi handa á milli úr mínu kjördæmi sem draga það mjög ljóslega fram við hvaða vanda er að fást, þar sem um er að ræða útgerð sem líklegt er að verði að hætta veiðum ef þessi eftirlitskostnaður dæmist á hana nú á næstunni. Þar er um að ræða útgerð rækjufrystitogara fram á Djúpavogi sem hefur sent alþingismönnum sín erindi og reitt sína stöðu fram skilmerkilega um leið og tekið er skýrt fram að viðkomandi vilja alls ekki reyna að færast undan því sem eðlilegt getur talist til þess að ekki sé gengið fram hjá þeim reglum sem Kanadamenn t.d. vilja að í heiðri séu hafðar og að leitað sé leiða til þess að verða við því með samkomulagi á eðlilegan hátt.

Ég þekki einnig dæmi úr Norðurlandi frá útgerðaramönnum sem standa í svipuðum sporum og það eru þessi sjónarmið sem ég vil hvetja hæstv. sjútvrh. eindregið til þess að líta á og leita lausna á áður en tekin verður stefna á að lögfesta málið eins og það liggur fyrir, þó að teknu tilliti til þeirra tillagna sem meiri hluti sjútvn. hefur reitt fram og eru rökstuddar í meirihlutaáliti nefndarinnar.

Virðulegur forseti. Um leið og ég minni á þetta sem hér hefur komið fram, vil ég hvetja mjög eindregið til þess að við Íslendingar leggjum okkur fram um það að sem örust þróun verði í þessum efnum á alþjóðavísu til þess að tryggja stjórnun og verndun auðlinda hafsins utan lögsögu ríkja á grundvelli þess úthafsveiðisamnings sem liggur fyrir, sem væntanlega verður að alþjóðalögum með staðfestingu nógu margra ríkja áður en langt um líður. Við hljótum að minnast þess hvernig ástatt var um okkur á sínum tíma í þessum efnum, hversu tæpt við vorum komin áður en okkur tókst að tryggja réttindi okkar með útfærslu landhelginnar fyrir ötula baráttu sem kostaði mikið. Og við hljótum að þakka það frumkvæði sem unnið hefur verið af íslenskum útgerðarmönnum í nýju landnámi við úthafsveiðar á undanförnum árum. En við verðum jafnframt að viðurkenna nauðsynina á því að stemma stigu við rányrkju og ofveiði og að ná fram alþjóðlegum lögum og stjórnun á úthafsveiðunum. Sú nauðsyn er mikil. Þrýstingurinn á sókn er gífurlega mikill á heimsmælikvarða og sá þrýstingur kemur að sjálfsögðu frá því fjármagni sem er fólgið í úthafsveiðunum og lýtur sínum lögmálum, þ.e. að sækja meira, bæta við sig og að fullkomna tæki og tól til þess að reyna að auka sinn afla og sína hlutdeild og þar horfir auðvitað hver og einn ekki á heildina. Þar verður að koma til alþjóðleg stýring. Þar verða að koma til alþjóðleg samtök og reglur til þess að stemma stigu við því að auðlindin verði upp urin og það óbætanlega tjón unnið sem fylgir rányrkju. Þetta vil ég leggja áherslu á um leið og ég ítreka óskir mínar til meiri hluta sjútvn. og til hæstv. sjútvrh. um að leita leiða til þess að bæta úr því sem erfiðast er í tengslum við þetta mál og að íhuga það hvort ekki sé skynsamlegt að fresta lögfestingu málsins til haustþings, hvort það í rauninni tefli nokkrum hagsmunum í tvísýnu sem ekki réttlætanlegt. Það þarf að skapa svigrúm til athugunar málsins þannig að það liggi betur undirbúið fyrir Alþingi og í meiri sátt við þá mörgu sem hlut eiga að máli, bæði beina hagsmunaaðila og einstaka aðila sem tengjast þessari nýtingu.

Það er hugur Alþb. sem ég flyt með þessum orðum. Við höfum rætt þetta í okkar hóp. Þetta fellur að þeim athugasemdum og fyrirvörum sem fulltrúi okkar í nefndinni hefur lagt fram í málinu og er þó um leið skaði að hann skuli ekki vera hér til þess að taka þátt í þessari umræðu með þeirri góðu þekkingu sem hann hefur aflað sér á málinu í einstökum atriðum og sem ég get ekki fyllt út eða bætt úr hér vegna þess að ég hef ekki sökkt mér niður í málið eins og vert væri og ella hefði verið ef ég hefði verið þátttakandi í því mikla og ágæta starfi sem þegar hefur verið unnið og tengist þessum málum, virðulegur forseti.