Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:08:20 (7271)

1996-06-05 10:08:20# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:08]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé að á dagskrá þingsins er ekki frv. um fjárreiður ríkisins. Það mál fékk sérstaka meðferð á hinu háa Alþingi. Það var í undirbúningi í nokkur missiri og þegar það var lagt fram, þá töldu alþingismenn það svo mikilvægt að kosin var sérnefnd til að vinna það á þinginu. Þetta var eina málið á Alþingi í vetur sem fékk þá meðhöndlun. Sérnefndin starfaði undir forsæti hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Frv. fjallar um gerbreytingu í gerð fjárlaga og ríkisreiknings. Það náðist samstaða í sérnefndinni og málið var afgreitt með nokkrum breytingartillögum við 2. umr. Það var einungis eftir 3. umr. um málið.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvers vegna þetta mál er ekki á dagskrá, en það er mjög sérstakt bæði vegna efnis þess og ekki hvað síst í ljósi þeirrar meðferðar sem málið fékk á hinu háa Alþingi. Ég hef heyrt af því látið að þetta tengist öðru frv., stjfrv. um þjónustusamninga og hagræðingu og það sé ástæðan fyrir því að þessu máli hafi verið kippt út af dagskrá. Það mál fékk ítarlega umfjöllun í efh.- og viðskn. og fjallar um ákveðið framsal frá löggjafar- og fjárveitingavaldi til ríkisstjórnar, umdeilt mál og tengist ekki fjárreiðum ríkisstjórnar á nokkurn máta.

Hér er um að ræða alveg einstakan barnaskap ef rétt er með farið að þessi mál séu tengd svona saman. En það sem ég vil spyrja um einnig varðandi þetta mál, er að ég óska skýringa, herra forseti, á því af hverju málið sé ekki á dagskrá. Og ég vil fá skýringar frá hv. formanni sérnefndarinnar, hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, hvort hér sé farið að hans óskum varðandi þetta merkilega mál sem var fullbúið af hálfu nefndarinnar og komið í gegnum 2. umr. Barnaskapur ríkisstjórnarinnar kemur mér ekki við. Hann er hennar. Hins vegar tel ég að Alþingi sé sýnd lítilsvirðing með þessum vinnubrögðum ef málið kemur ekki til lokaafgreiðslu. Alþingi kaus að fara með þetta mál á alveg sérstakan hátt, með sérnefnd, og það er lítilsvirðing, herra forseti, við störf Alþingis ef málið verður ekki afgreitt fyrir þinglok.