Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:10:57 (7272)

1996-06-05 10:10:57# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir þá gagnrýni sem kemur fram í orðum hv. 5. þm. Vesturl., Gísla Einarssonar. Gagnrýni mín snýr ekki eingöngu að því frv. sem hann hefur gert að umtalsefni, heldur að því að það sem hefur verið að gerast og þróast á liðnum árum er að þingmannamál almennt verða út undan í störfum löggjafarþingsins.

Þingmaðurinn gat þess að frv. sem hann ber fyrir brjósti og á fyllilega rétt á að vera tekið til umræðu á hv. Alþingi hefur verið í 10 vikur á borði þingmanna.

Í gær var snörp umræða vegna þess að einn ráðherranna reiddist því að frv. sem hann hafði lagt fram fyrir tveimur vikum, eftir að áformuð voru þinglok, hafði ekki náðst á dagskrá, ekki bara á dagskrá heldur helst í gegnum þingnefndir til þess að verða að lögum.

Þessi umræða á að vekja okkur til umhugsunar um stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Höfum við hugsað okkur að Alþingi þróist í að verða eins og hvert annað færiband sem afgreiðir fyrir ríkisstjórnina þau mál sem hún óskar á þeim tíma sem hún óskar eða hyggjumst við stuðla að því að löggjafinn verði sjálfstæð og virt samkoma sem a.m.k. ræður dagskrá sinni.

Á síðasta degi þingsins á þessum morgni held ég að það væri mikilvægt að alþingismenn færu til síns heima með það veganesti að huga að því á hvern hátt þeir geti stuðlað að breytingum á þessum málum vegna þess að það er óviðunandi að góð mál sem þingmenn hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa fást ekki einu sinni rædd, hvað þá heldur að búast megi við að þau fari í gegnum nefndarstörf og verði að lögum. Þetta er það sem ég vildi taka undir, virðulegi forseti, við orð hv. 5. þm. Vesturl.