Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:14:37 (7274)

1996-06-05 10:14:37# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), StB
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:14]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. 11. þm. Reykn. um framgang frv. um fjárreiður ríkisins, þá vil ég segja það að auðvitað hefði verið æskilegt að ljúka afgreiðslu þess máls sem er mjög mikilvægt. En þegar 2. umr. hafði verið lokið, kom fram ósk frá hæstv. fjmrh. að það yrði gerð sú breyting að gildistökuákvæði laganna yrði breytt þannig að um yrði að ræða frestun um eitt ár.

[10:15]

Í ljósi nokkurra umræðna í sérnefndinni um það frv. sem hér var nefnt um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri og það atriði að e.t.v. hefði verið eðlilegt að þau ákvæði sem það frv. felur í sér væru inni í fjárreiðufrv., þá taldi ég það eðlilegt að skoða það mál í því ljósi að gildistökunni hafði verið frestað með breytingartillögu frá sérnefndinni. Ég taldi að það gæti e.t.v. orðið til að greiða fyrir störfum í þinginu vegna mikils ágreinings í efh.- og viðskn. um frv. þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri, ef það yrði um frestun að ræða eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. á báðum frv. þannig að það væri hægt að vinna þau í sumar áfram og í haust strax í byrjun þings væri hægt að taka málin til afgreiðslu og vonandi tekst það. Ég geri engar athugasemdir við þessa niðurstöðu sem hefur orðið.