Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:23:11 (7279)

1996-06-05 10:23:11# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ganga á þann tíma mjög og reyna að gefa öðrum sem ekki hafa komist í umræðuna tækifæri á að koma upp. En ég vil þakka fyrir það að undir mína gagnrýni var tekið um að mál sem ég a.m.k. tel að varði mjög miklu hafi ekki komist á dagskrá.

Ég tel ástæðu til þess að spyrja: Mega þingmenn reikna með því að það sé stefnt að þinglokum í dag eða á morgun eða næstu daga? Ég vil spyrja virðulegan forseta um það. Hver eru áformin? Mér finnst alveg lágmarkið að menn fái að vita það ef til stendur að það eigi að fara að fresta þingstörfum. Mér finnst það grunnatriði fyrir okkur almenna þingmenn að það sé ljóst hvað menn ætla að gera.

Síðan aðeins um frv. um fjárreiður ríkisins sem hér hefur verið rætt. Það hafa fá mál fengið betri umfjöllun og jákvæðari umfjöllun í þinginu. Þetta mál var tekið strax á haustdögum um leið og það kom fram inn í Alþfl. og farið mjög rækilega yfir það og menn voru mjög jákvæðir gagnvart því svo að það er mál sem hlýtur að eiga að koma til afgreiðslu. Ég tek auðvitað undir orð hæstv. forsrh. um að það getur verið þannig háttað með mál að þau séu ekki fullbúin til afgreiðslu.

En ég vil bara enn ítreka að það mál sem ég hóf mína umræðu með að ræða um, frv. um lágmarkslaun og hámarkslaun er af þeim toga að það er óviðunandi að það skuli ekki fást rætt í þinginu meira heldur en það hefur þó komið fram í fjölmiðlum. Það hefur aðeins komið í fjölmiðlum. Búið.