Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:26:48 (7281)

1996-06-05 10:26:48# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:26]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið minnt á að frv. um fjárreiður ríkisins byggir á margra ára undirbúningi. Það kom skýrt fram eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. að unnið verður að málinu eins og frv. hefði tekið gildi.

Ég er að leggja alveg sérstaka áherslu á það hve það var mikilvægt hvernig samstaða náðist um vinnu við þetta frv. Það var lögð mikil áhersla á það af hálfu fjmrh. og málið var alveg fullunnið. Það er ámælisvert, herra forseti, að tengja þetta vandaða mál hinu frv. um hagræðingu og þjónustusamninga sem var ekki fullhugsað frv. og eðlilegt að menn tækju sér sumarið í það að móta það betur, ekki hvað síst af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það var engin ástæða til þess, herra forseti, að fresta frv. um fjárreiður ríkisins því að það fjallar um allt aðra þætti, fjallar um uppgjör og bókhald og gerð ríkisreiknings og fjárlagafrv. og það hefði alls ekki þurft að tengjast og tengist ekki frv. um þjónustusamninga. Þó svo að mjög margt gott hafi verið í því, þá er það ekki fullhugsað.

Ég ítreka mína skoðun varðandi vinnubrögðin í þessu máli. Ég tel að Alþingi hafi verið sýnd lítilsvirðing, herra forseti, með þessum vinnubrögðum með tilliti til þess hvernig málið er unnið á hinu háa Alþingi. Það eru ámælisverð vinnubrögð að ganga frá málinu eins og hér er gert og vegna þess að hér var um að ræða mjög merkilega og góða samvinnu allra þingmanna um þetta mjög svo mikilvæga mál sem varðar fjárreiður ríkisins.