Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:42:17 (7285)

1996-06-05 10:42:17# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:42]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka forsrh. og Þjóðhagsstofnun fyrir vel unna skýrslu. Tildrög þess að skýrslan er komin hér eru þau að á kjaramálaráðstefnu sem Alþb. stóð fyrir 17. febrúar sl. kom fram í erindum sem þar voru haldin að það væri verulegur munur á launum á Íslandi og í nágrannalöndunum og að dæmi væru um yfir 100% mun á dagvinnulaunum verkafólks innan sömu starfsgreinar þótt horft væri til dagsins í dag en ekki aftur til ársins 1993 eða 1994, sem eru þau ár sem skýrslan fjallar um. En þar sem vinnumarkaðurinn er orðinn opnari og alþjóðlegri en áður hafa stöðugt fleiri Íslendingar mótmælt lágum launum hér á landi með því að flytja til annarra landa. Það er þróun sem hlýtur að vera óásættanleg fyrir utan það að við getum ekki samþykkt að hér ríki meiri vinnuþrælkun en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við eða að íslensk fyrirtæki geti ekki borgað sambærileg laun og fyrirtæki gera í öðrum löndum sem eru á svipuðu þróunarstigi og við. Rekstrarskilyrði fyrirtækja hafa að nokkru leyti verið lagfærð en kjör launafólks hafa setið eftir, langt eftir í samanburði við nágrannaþjóðir. Við erum fámenn og vel menntuð þjóð í stóru og gjöfulu landi og hér á það ekki að líðast að fólk geti ekki fengið vinnu við hæfi eða laun fyrir sína vinnu sem eru sambærileg við þau laun sem borguð eru í öðrum löndum Evrópu. Við hljótum að þurfa að skoða í hverju þessi launa- og lífskjaramunur er fólginn og leita síðan leiða til úrbóta. Það var þess vegna sem þingflokkur Alþb. og óháðra fór fram á það við hæstv. forsrh. að hann léti skoða þetta mál og svara ítarlega spurningum sem við settum fram. Jafnframt að hann flytti Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar fyrir lok þessa þings. Skýrslan er komin og það mátti ekki tæpara standa miðað við að þinglok eru fyrirhuguð í dag.

Ekki veit ég hvað rak hæstv. forsrh. til að hlaupa með skýrsluna í fjölmiðla áður en hann kynnti hana fyrir Alþingi eins og um var beðið. Ég var hissa á því að hann skyldi eigna sér frumkvæðið að gerð hennar á fundi með fréttamönnum þar sem alveg láðist að geta þess að skýrslubeiðni hefði komið frá Alþb. og óháðum og skýrslan byggir á þeim spurningum sem þar voru settar fram.

Skýrslan sýnir það sem lengi hefur verið haldið fram að lífskjör á Íslandi eru að vissu leyti sambærileg við lífskjör á öðrum Norðurlöndum að því undanskyldu að hér er vinnutími mun lengri en þar tíðkast, launagreiðslur fyrir unna vinustund miklu lægri og tími vinnandi fólks til að sinna fjölskyldu og tómstundum mun styttri. Hér á landi vinnur fólk að meðaltali um 50 klst. á viku en í Danmörku um 39 stundir. Það þýðir að Íslendingurinn vinnur að meðaltali einum og hálfum mánuði lengur á ári en Daninn. Ekki er ástandið betra þegar litið er á upplýsingar í skýrslunni um tímakaup. Vitnað er til upplýsinga sem atvinnurekendasambandið sænska hefur tekið saman um tímakaup í iðnaði í 20 löndum. Þar kemur m.a. fram að laun í Danmörku eru nær tvöfalt hærri en á Íslandi. Tímakaupið er aðins lægra en á Íslandi í tveimur löndum, þ.e. Portúgal og Grikklandi. Sama myndin er dregin fram þegar litið er til upplýsinga OECD um meðallaun verkamanns í framleiðsluiðnaði. Þar sést að mánaðarlaun iðnverkafólks á Íslandi eru með þeim lægstu sem gerast í OECD. Þar lendum við í 21. sæti á undan Tyrklandi, Portúgal og Mexíkó. Spánn og Ítalía sem hingað til hafa ekki verið hátt skrifuð fyrir launagreiðslur eru fyrir ofan okkur í þessum samanburði. Lífskjörum á Íslandi er haldið í horfinu með því að fólk vinnur myrkranna á milli og fer á mis við þau lífsgæði að miklu leyti sem felast í frítíma og tómstundaiðju. Tími fjölskyldunnar, í því felst hluti af fórnarkostnaðinum. En hann er meiri eins og ég kem reyndar að hér síðar.

[10:45]

Landsframleiðsla á mann hér á landi er viðunandi, við erum á mælikvarða í 11. sæti á lista OECD ríkjanna eða um miðjan hóp. Staða Íslands meðal þjóðanna breytist hins vegar verulega ef miðað er við landsframleiðslu á vinnustund sem er mun raunhæfari mælikvarði á lífskjör fólks en landsframleiðsla á íbúa. Við hröpum meira við þetta en nokkur önnur OECD-þjóð og lendum í 20. sæti af 24 þjóðum. Aðeins Nýja-Sjáland, fyrirmyndarríki ríkisstjórnarinnar, Portúgal, Grikkland og Tyrkland sýna lægri landsframleiðslu á vinnustund.

En hvaða mynd sýnir skýrslan af lífskjörum á Íslandi í samanburði við önnur lönd ef við gleymum löngum vinnutíma og horfum eingöngu á heildartekjur? Gögn byggð á skattframtölum sýna að tekjur hjóna með börn í Danmörku eru að jafnaði um 39% hærri en á Íslandi. Um er að ræða meðaltal allra fjölskyldna óháð samsetningu þeirra, stærð og atvinnuþátttöku. Danska fjölskyldan hefur sem sagt um 40% hærri tekjur á ári auk þess að hafa einn og hálfan mánuð í frístundir umfram íslensku fjölskylduna, en það eru lífsgæði sem líka má meta til verðmæta. Á móti kemur svo að dönsku hjónin borga um tvöfalt hærri beina skatta en þau íslensku en þau fá hærri barnabætur og þegar tillit er tekið til barnabóta, vaxtabóta og beinna skatta eru ráðstöfunartekjur dönsku fjölskyldunnar um 15% hærri en þeirrar íslensku fyrir utan þann aukna tíma sem hún á saman fyrir utan vinnu.

Fjölmiðlar fengu skýrsluna í hendur í gær og fjölluðu aðeins um hana í fréttum í gærkvöldi. Ekki var leitað til þeirra sem áttu frumkvæði að skýrslugerðinni og settu fram þær spurningar sem leitast er við að svara þar. Einn fjölmiðill kynnti skýrsluna með þeim inngangi að Íslendingar þurfi ekki að kvarta, hér séu lífskjör ágæt í samanburði við önnur lönd. Við vinnum bara aðeins meira og eigum mest af öllum varanlegum neysluvörum nema þá helst uppþvottavélar. Þar erum við með heldur færri tæki en tíðkast hjá Dönum. En er allt of langur vinnudagur eðlilegt ástand og ásamt þeirri staðreynd að 12% starfandi fólks hefur meira en eitt starf á meðan hér ríkir verulegt atvinnuleysi? Það held ég að geti varla verið. Það er eitthvað að hér á landi sem við ættum að geta lagfært með því að horfa til annarra landa þar sem vinnudagur er styttri, yfirvinna nær óþekkt og laun fyrir dagvinnu nægja til að öðlast góð lífskjör. Það var þess vegna sem við óskuðum eftir þessari skýrslu. Það er vissulega rétt sem fram kemur í skýrslunni að í samanburði við aðrar þjóðir búum við rúmt og eigum marga bíla að meðaltali. En meðaltölin segja ekki alla söguna því það kemur einnig fram í skýrslunni að hvergi í samanburðarlöndunum á jafnhátt hlutfall húsráðenda tvo eða fleiri bíla eða um 40%, sem er ótrúlega há tala en segir okkur um leið að það er töluverður fjöldi sem ekki á bíl.

Þegar launakjör einstakra hópa eru borin saman í Danmörku og á Íslandi kemur m.a. fram að mikll munur er á ráðstöfunartekjum fulltrúa á skrifstofu sem starfa hjá hinu opinbera og sama er að segja um byggingarverkamenn. Munurinn er þar rúmlega 28%. Einstaklingar í þessum hópum hafa hver um sig rúmlega 77.000 kr. í ráðstöfunartekjur hér á landi á meðan félagar þeirra í Danmörku hafa yfir 100.000 kr. á mánuði eftir leiðréttingar vegna mismunandi kaupmáttar. Danski skrifstofumaðurinn og danski byggingarverkamaðurinn hafa því um 20.000 kr. hver á mánuði umfram félaga sína á Íslandi. Þessar 20.000 gera um 240.000 kr. á ári eða um 11.000.000 kr. á starfsævinni. Það munar um minna. Sá langi vinnutími sem tíðkast hér á landi stafar náttúrlega fyrst og fremst af því að dagvinnulaunin duga ekki til að greiða fyrir þau lífskjör sem fólk telur eðlileg. Launakerfið er einnig vitlaust uppbyggt. Það er ekki afkastahvetjandi og ekki fjölskylduvænt, ef nota má þau orð. Sama má segja um þá pólitík sem rekin er hér á landi eins og berlega kemur fram í skýrslunni, hún er ekki hliðholl fjölskyldunni. Það fólk sem hefur verið að flýja til Danmerkur undanfarin missiri metur vinnutíma sinn meira en atvinnurekendur gera á Íslandi. Það eru fyrst og fremst barnafjölskyldur sem hafa verið að flytja til Danmerkur og skýrslan segir okkur af hverju. Fyrir utan styttri vinnutíma og meiri ráðstöfunartekjur eru bætur til fólks með lágar og meðaltekjur mun meiri í Danmörku en hér. Þetta fólk þarf heldur ekki að greiða þjónustugjöld fyrir veitta aðstoð í heilbrigðiskerfinu svo dæmi séu tekin. Þessi og annar slíkur kostnaður sem fólk þarf að bera hér á landi skiptir miklu máli fyrir barnafjölskyldur. Danir gera greinilega betur við fjölskylduna og upprennandi kynslóð en við gerum hér. Þeir reka fjölskyldupólitík sem áreiðanlega skilar sér í bættum lífskjörum til langs tíma. Þessi fjölskyldupólitík Dana kemur einnig fram í því að útgjöld til félagsmála eru miklu meiri í Danmörku en á Íslandi. Hér eru þau um 19% af landsframleiðslu en um 33% í Danmörku. Tilfærslutekjur, þ.e. lífeyrir og bætur danskra heimila, eru ennig miklu meiri en íslenskra heimila, eða sem nemur 43% af heildarlaunatekjum á móti 17--18% á Íslandi. Við skulum einnig hafa í huga að þótt verðlag sé um 9% hærra í Danmörku en hér þá eru brýnustu nauðsynjavörur mun ódýrari í Danmörku, svo sem matvörur og fatnaður, sem hlýtur að koma til góða þeim sem minnst hafa.

Virðulegi forseti. Það má margt af þessari skýrslu læra. Ég hef aðeins nefnt nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem þar koma fram. Þegar þingflokkur Alþb. og óháðra fór fram á að gerður yrði ítarlegur samanburður á launum og lífskjörum hér og í Danmörku var ætlun okkar sú að þessi vinna væri aðeins upphafið að víðtækri gagnasöfnun og starfi sem yrði grunnurinn að tillögum til úrbóta í þágu atvinnulífs en, og ekki síður, að þessi vinna yrði notuð til að skoða með hvaða hætti við getum bætt lífskjör almennings í landinu þannig að þau verði sambærileg því sem best gerist hjá nágrannaþjóðunum. Svona skýrslur eða samanburður af þessu tagi verður auðvitað aldrei alveg tæmandi en það gefur okkur samt ákveðnar vísbendingar um það sem betur má fara eða um það sem við getum gert betur. Þeirri spurningu er hins vegar enn ósvarað hvers vegna atvinnulífið í Danmörku getur borið betri og hærri laun en atvinnulífið hér. Það þarf að vinna sambærilega úttekt og skýrslu þar um. Þar með höfum við góðan grunn að tillögum til úrbóta. Ég vil því beina því til hæstv. forsrh. að slík úttekt fari fram og niðurstaðan verði kynnt ekki seinna en í upphafi þings í haust. Við hljótum að stefna að því að innan 3--5 ára höfum við náð því markmiði að hér bjóðist launafólki sambærileg lífskjör og gerist í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við.