Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:00:43 (7287)

1996-06-05 11:00:43# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa skýrslu sem staðfestir að ýmislegt af því sem haldið hefur verið fram um lífskjör hér á landi í samanburði við aðrar þjóðir, einkum Danmörku, er rétt. Hún sýnir t.d. að vinnutími er sá lengsti sem þekkist hér á landi og greiðslur vegna yfirvinnu verulegur hluti launa eða fjórðungur launa hjá ASÍ-fólki og þriðjungur hjá opinberum starfsmönnum. Hún sýnir okkur, sem er alvarlegt, að framleiðni í íslensku atvinnulífi er langt undir meðaltali OECD-þjóðanna. Við erum á botninum í beinum launagreiðslum og erum þar á bekk með Portúgal og Tyrklandi. Hún sýnir að útgjöld danskra heimila í matarkostnaði er fimmtungi lægri en hér á landi. Hún sýnir okkur að útgjöld og umsvif velferðarkerfisins eru miklu meiri í Danmörku en á Íslandi. Hún sýnir okkur að engin gjaldtaka er í heilbrigðiskerfinu þar og ókeypis tannlækningar fyrir börn til 18 ára aldurs. Hún sýnir okkur að lífeyrir almannatrygginga er miklu hærri í Danmörku og munar þar um 20.000 kr. á mánuði og atvinnuleysisbætur eru a.m.k. tvöfalt hærri. Húsaleigubætur eru mun hærri og einnig barnabætur sem greiðast með börnum til 18 ára aldurs óháð tekjum.

Síðan er það hin hliðin á skýrslunni. Það er spurning hvað það segir okkur að bílaeign hér er meiri en annars staðar, íbúðarhúsnæði það stærsta og sjónvarps- og myndbandstækjaeign mest hér á landi. Sýnir það að lúxusstandardinn er mestur? Nei, ég held að það geri það ekki. Þessi lúxus sýnir okkur ekki að allir hafi það gott. Ég held að þetta sýni fyrst og fremst misréttið í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og að hér vanti samræmda fjölskyldustefnu. Það segir okkur ákveðið hér á landi sem kemur ekki fram í skýrslunni að fjöldi fólks þarf að leita til félagsmálastofnana þrátt fyrir fullan vinnudag og gjaldþrot heimila eru sívaxandi og fjöldi þeirra sem leita þarf til félagsmálastofnana er vaxandi. Það sýnir okkur líka að lífskjörum og gæðum er ekki rétt skipt í þjóðfélaginu. Það þarf að fá fram úttekt á tekjudreifingunni, tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og hvernig lífskjörum er skipt. Það vantar inn í skýrsluna, í þennan samanburð. Það er eins og við getum aldrei fengið fram slíkan samanburði hér á landi. Það hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um að gera slíka úttekt á tekjuskiptingunni og hvernig lífskjörin skiptast en það er eins og við getum ekki gert slíka skýrslu. Við getum aldrei fengið fram hve stór sá hópur er hér á landi sem býr við raunverulega fátækt, við hungurmörk, það er ákveðinn hópur. Við vitum ekki hvort hann er 10% eða 20% eða 25%. Þess vegna getum við aldrei skilgreint vandamálið eða hvernig við eigum að taka á því. Við þurfum auðvitað að fá fram slíka skýrslu. Skýrslan sýnir okkur að umsvif hins opinbera eru miklu minni hér en annars staðar. Umfang hins opinbera á Íslandi 1995 var 36% af þjóðarframleiðslu, á Norðurlöndunum 56% og innan OECD-landanna 38%. Það sýnir að velferðarkerfið er ekki að sliga íslenskt þjóðfélag. Lífskjörin og launin eru líka lág og það sýnir okkur að það vantar mikið í framleiðni okkar í íslensku þjóðfélagi. Það er mikil óráðsía í fjárfestingum og herkostnaður vegna hennar birtist í mörgum tugum milljóna í afskriftum og útlánatöpum hjá fjármálastofnunum. Það er alvarlegt að framleiðnin er svo lág í íslenskum fyrirtækjum að stór hluti fólks þarf að þiggja verulegan hluta framfærslunnar hjá hinu opinbera þó það vinni fullan vinnudag og ríkið greiðir niður launin fyrir íslenskan atvinnurekstur.

Mig minnir að það hafi verið í kjarasamningum fyrir einu eða tveimur árum að það hafi verið um þriðjungur sem stjórnvöld greiddu niður kjarasamninga til að fá þá til að ganga saman. Þetta er mjög alvarlegt. Stefna ríkisvaldsins á hverjum tíma og ég er ekki að ásaka þessa ríkisstjórn, ég er að ásaka fleiri ríkisstjórnir, hefur á margan hátt verið fjölskyldufjandsamleg og handahófskennd. Niðurskurður hefur verið ómarkviss og tekur á engan hátt mið af fjölskyldunum í landinu. Það vantar alla samræmingu, alla heildaryfirsýn yfir hvaða áhrif niðurskurður og stjórnvaldsákvarðanir hafa á heimilin í landinu. Það er undirrót margs konar vandamála í þjóðfélaginu hvað fjölskyldan hefur lítinn tíma saman og foreldrar hafa lítinn tíma með börnum sínum. Það vantar eitt ráðuneyti sem hefur með höndum málefni fjölskyldunnar, fjölskylduráðuneyti sem veiti stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf í fjölskyldumálum og metur hvaða áform stjórnvaldsákvarðanir hafa á heimilin í landinu og ákveðna hópa, eins og atvinnulausa, aldraða, öryrkja, sjúka o.s.frv. Það vantar fjölskyldustefnu. Ég minni á að hæstv. félmrh. amaðist yfir því á haustdögunum þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði fram frv. um opinbera fjölskyldustefnu. Nokkrum mánuðum síðar kemur hann fram með frv. sitt og ríkisstjórnarinnar um opinbera fjölskyldustefnu sem var lagt fram 18. mars. Það hefur ekki verið mælt fyrir þessu máli. Það hefur verið kallað eftir því í nefndinni sem hefur fjallað um frv. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur af hverju hæstv. ráðherra mæli ekki fyrir þessu máli um opinbera fjölskyldustefnu. Þetta sýnir auðvitað forgangsröðina. Er það bara sýndarmennska að leggja hér fram frv. um opinbera fjölskyldustefnu og mæla svo ekki fyrir því? Það er sagt að Sjálfstfl. sé á móti þessu. Það væri kannski ágætt að hæstv. forsrh. skýrði hvers vegna eða fulltrúar Framsfl., sem hér eiga eftir að tala, hvers vegna ekki hefur verið mælt fyrir frv. um opinbera fjölskyldustefnu. Það þarf að skilgreina hve stór hópur fátækra er á Íslandi.

Það er mjög alvarlegt hve mikið vantar upp á að framleiðsla í íslenskum fyrirtækjum sé sú sama og gerist og gengur í löndunum í kringum okkur og að ríkisvaldið sé að greiða að stórum hluta niður launin, kannski um þriðjung. Ég kalla eftir því og segi: Niðurstaðan af þessari skýrslu er sú að það vantar opinbera fjölskyldustefnu á Íslandi. Það þarf að skilgreina hvað láglaunahópurinn er stór þannig að við getum mælt hann og kannað hvernig við getum bætt kjörin hjá þessum hópi. Þetta er hópurinn sem allir vilja í orði kveðnu hjálpa og alltaf á að hafa forgang en niðurstaðan er alltaf sú sama að hálaunahóparnir fá alltaf meira. Þess vegna þurfum við að ná fram skilgreiningunni á tekjuskiptingunni og auka framleiðni í fyrirtækjum og um fram allt koma hér á opinberri fjölskyldustefnu. Ég kalla eftir opinberri fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar.