Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:08:15 (7288)

1996-06-05 11:08:15# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:08]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Það er að finna í henni margar og merkilegar upplýsingar sem fengur er að. Ég get þó ekki annað en fjallað aðeins aðferðafræðilega um skýrsluna og gagnrýnt að þar skuli ekki vera greint betur niður í hópa og að upplýsingar séu kynskiptar því að þau meðaltöl sem hér er að finna segja afskaplega takmarkaða sögu. Það hefur verið þannig í félagsfræðum og statistík á undanförnum árum að menn hafa einmitt farið út í það að skoða og greina niður í einstaka hópa og kynin til að átta sig betur á hinni raunverulegu mynd þannig að menn taki út aldurshópa, stéttir, fatlaða og aðra hópa sem þyrfti hugsanlega að skoða sérstaklega og það á að kyngreina slíkar upplýsingar. Minni ég þar á samþykktir Sameinuðu þjóðanna hvað það varðar vegna þess að sú mynd sem meðaltölin gefa okkur segir ákveðna sögu en aðeins takmarkaða sögu.

Þá vil ég nefna að það er alltaf mjög erfitt að bera saman lífskjör í mismunandi löndum. Þó margt sé líkt með Íslandi og Danmörku eru þar samt ýmis einkenni sem er fróðlegt að skoða en geta líka skekkt myndina. Um árabil hefur t.d. verið mjög mikið atvinnuleysi í Danmörku sem segir okkur þegar maður horfir á launatölurnar sem þaðan koma að þar er launamunur eflaust mjög mikill og hann er það líka hér.

Það kemur ekki á óvart þegar horft er á meðaltölin og það hvernig Ísland kemur út í samanburði við aðrar þjóðir að við erum í hópi þeirra þjóða heimsins sem bjóða þegnum sínum upp á hvað best lífskjör. Auðvitað er það staðreyndin og við þurfum ekki að fara langt út fyrir Evrópu til að finna þjóðir þar sem hörmuleg fátækt og sjúkdómar ríkja sem við erum búin að útrýma fyrir löngu. En á þeirri mynd yfir OECD-ríki þar sem Ísland er í 11. sæti, og hygg ég nú reyndar að við höfum farið þar heldur niður á við á undanförnum árum, eru ýmsar skuggahliðar. Þær koma nokkuð fram í samanburðinum við Dani. Þau atriði sem ég vildi helst nefna í því sambandi er að við vitum að launabilið hefur verið að breikka hér á undanförnum árum. Við vitum að launamunur kynjanna hefur verið að aukast. Þar hefur ekki náðst neinn árangur til úrbóta og þar stöndum við að baki Norðurlandaþjóðunum og reyndar Bandaríkjunum og fleiri þjóðum. Samkvæmt þeim tölum sem við höfum fengið um þau mál eru laun kvenna að meðaltali 50--60% af launum karla. Þessar tölur hafa sveiflast nokkuð. Ef ég man rétt þá eru þær heldur nær 50% en 60% og hafa því miður farið lækkandi. Við vitum t.d. frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar að þörfin fyrir félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, fjárhagsaðstoð, hefur farið mjög vaxandi. Eftir því sem ég best veit er efnahagsbatans ekki farið að gæta þar enn.

Síðan er það atvinnuleysið sem við höfum átt við að stríða hér á undanförnum árum sem virðist lítið minnka þrátt fyrir batnandi árferði. Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni, það gerði ég fyrir nokkrum dögum, en ég ítreka að þar er um mál að ræða sem þarf að taka sérstaklega á.

Það sem vekur athygli í skýrslunni, og ég tek fram að ég hef alls ekki haft nægilegan tíma til að skoða hana, er náttúrlega það sem við höfum svo sem vitað að vinnutími er mun lengri hér á landi en í Danmörku og reyndar lengri en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Annars vegar hefur það gerst úti í Evrópu að settar hafa verið töluverðar skorður við vinnutíma og menn hafa reynt að halda honum innan ákveðinna marka. Það hefur verið reynt að koma þeim tilskipunum í gagnið hér en gengur illa af ýmsum ástæðum. En það sem vekur þó flestar spurningar og er auðvitað áhyggjuefni eru tengsl þessa langa vinnutíma við lága framleiðni. Menn hafa verið að benda á það og Alþýðusamband Íslands hefur sett fram heildstæða stefnu hvað það varðar að reyna að auka framleiðni, ekki síst með því að mennta vinnuaflið. Með því að gefa fólki kost á menntun vegna þess að allar skýrslur og reynsla annarra þjóða sýnir okkur að því betur sem búið er að vinnuaflinu þeim mun meiri möguleikar eru á því að auka framleiðni og þar með að bæta lífskjör.

Það er líka athyglisvert að skoða tölur um eign Íslendinga á bílum og heimilistækjum og fleiru slíku. Við vitum að Íslendingar eru að meðaltali miklir neytendur og meiri neytendur heldur en flestar aðrar þjóðir. (Gripið fram í: Og skuldendur.) Já, rétt, við söfnum meiri skuldum en aðrar þjóðir. Þetta er það sem flokka má undir lífsstíl. En við hljótum líka að spyrja: Hvað er það sem fólk álítur vera góð lífskjör?

[11:15]

Vegna þess hvað ég hef takmarkaðan tíma hérna þá vil ég koma inn á það að ég held að við ættum að kynna okkur og spyrja okkur að því hvað það er sem hefur fengið Íslendinga til þess að flytja úr landi. Hvað er það í lífskjörum hér á landi sem fólk telur vera svo slæmt að það velji fremur þann kost að flytja úr landi? Vil ég þá náttúrlega ekki draga úr því að fólk hefur auðvitað rétt til þess og allir hafa gott af því að koma út fyrir landsteinana og reyna eitthvað annað. En af viðtölum að dæma eru það ekki síst kjör barnafólks, það hvernig búið er að barnafjölskyldum hér í landinu sem fólk setur fyrir sig, langur vinnutími, lítill tími þar af leiðandi til þess að stunda fjölskyldulíf, vaxandi erfiðleikar við að koma sér upp húsnæði og títtnefndar skuldir. Þetta eru þeir þættir sem fólk setur hvað mest fyrir sig.

Ég vil að lokum koma að því hvað þarf að gera til þess að bæta lífskjör og vil ég þá reyndar hafa það í huga að því eru takmörk sett hvað hægt er að auka lífskjörin, ekki síst þegar það er gert á kostnað náttúrunnar og auðlindanna sem við ætlum að lifa af. Hagvextinum eru takmörk sett. En við getum nýtt betur og við getum jafnað kjörin. Það er ekki síst það sem við okkur blasir að bæta stöðu atvinnulífsins og auka framleiðni þannig að atvinnulífið sé fært um að borga fólki betri laun. Það þarf að jafna launakjörin. Það þarf að draga úr launamun kynjanna. Það þarf að stytta vinnutímann og gera hann sveigjanlegri og síðast en ekki síst þurfa stjórnvöld hér á landi að móta fjölskyldustefnu. Ég tek mjög undir það. Það þarf að móta fjölskyldustefnu og átta sig á því hver kjör fjölskyldnanna eru og hvar pottur er brotinn. En við megum heldur ekki sökkva okkur í svartsýni og barlóm eins og er nú býsna títt hér á landi því þrátt fyrir allt megum við ekki gleyma því að við höfum það þó umfram flestar þjóðir heimsins að búa við öryggi og frið í landi sem býður okkur upp á góð lífskjör. En við eigum að jafna þeim lífskjörum betur á milli okkar.