Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:18:30 (7289)

1996-06-05 11:18:30# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram um samanburð á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku og víðar. Í mínum huga er meginniðurstaða þessarar skýrslu þessi og má flokka hana í níu meginþætti.

Í fyrsta lagi. Hagsæld hér á landi er á svipuðu stigi og í þeim löndum sem hún er mest, en við höfum meira fyrir því að afla gæðanna en þjóðir sem eru á svipuðu hagsældarstigi.

Í öðru lagi. Landsframleiðsla var 3,4% meiri hér á landi en í OECD-ríkjunum árið 1994 og 7,6% meiri en í aðildarríkjum ESB.

Í þriðja lagi. Íslendingar vinna meira en flestar aðrar þjóðir. T.d. vinnur fullvinnandi fólk á Íslandi 50 klst. á viku en í Danmörku 39 klst.

Í fjórða lagi. Á Íslandi er landsframleiðsla á vinnustund langt undir meðallagi OECD-ríkja.

Í fimmta lagi. Framleiðni er lítil hér á landi og því er tímakaupið lágt, lægra en í flestum aðildarríkjum OECD.

Í sjötta lagi. Tekjur hjóna í Danmörku voru að jafnaði 39% hærri í þar en á Íslandi árið 1993. Ráðstöfunartekjur voru hins vegar 14,9% hærri.

Í sjöunda lagi. Meðalheimili í Danmörku greiðir 38% tekna sinna í tekju- og eignaskatt en á Íslandi 21%.

Í áttunda lagi. Jaðarskattar eru mun hærri í Danmörku en á Íslandi. Hæsti jaðarskattur þar var 70% samanborið við 46,84% hér.

Og í níunda lagi. Árið 1994 erum við í 11. sæti í röð 24 OECD-ríkja hvað varðar landsframleiðslu á mann en í því 20. sé litið til áætlaðrar landsframleiðslu á vinnustund. Aðeins Nýsjálendingar, Portúgalir, Grikkir og Tyrkir eru þar eftirbátar okkar.

Nú geri ég mér fullkomna grein fyrir því að allur slíkur samanburður er erfiður, bæði varðandi hvað er verið að bera saman og ekki síður þann tíma sem samanburðurinn er tekinn á. Það er nú kannski mergurinn málsins að á þeim tíma sem Danir sigla, eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, sléttan sjó og hafa verið með í kringum 3% hagvöxt á milli ára undangengin ár þá er tekið það versta ár sem við höfum gengið í gegnum eða það næstversta síðan árið 1987. Árið 1992 erum við með neikvæðan hagvöxt eða samdrátt upp á 3,3% og engan hagvöxt árið 1993. Samanburður í þessu tilliti er því mjög óheppilegur þegar til þessara hluta er horft. Hins vegar er ekki hægt að finna þann tíma sem samanburðurinn væri sá hagstæðasti.

En það sem skiptir meginmáli er að nú hefur kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi verið rofin. Þannig jókst landsframleiðsla um 2% á síðasta ári og því er spáð að hún aukist um 3% á þessu ári og að framhald verði á hagstæðari þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð eða jafnvel heldur lægri en í helstu samkeppnislöndum okkar. Afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa eykst. Atvinnuvinnuleysi fer nú minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. Þetta er auðvitað sem skiptir meginmáli. Það er þetta sem framtíðin ber í skauti sér. Og nokkrar staðreyndir um þetta:

Frá því í apríl 1995 og til apríl 1996 hefur atvinnuleysi minnkað um 0,4 prósentustig eða nálægt 7,3%. Áætlað er að störfum fjölgi um 2.500 á þessu ári eða um nálægt 2% og á síðasta ári má reikna með að störfum hafi fjölgað um 3.500. Kaupmáttur launa eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. er að aukast um allt að því 8%. Hagvöxtur eykst umtalsvert og því er spáð eins og fram kom áðan að hann verði um 3% á þessu ári. Vextir eru byrjaðir að lækka og hafa t.d. lækkað á einu ári úr 7,6% í 6,5% á þriggja mánaða ríkisvíxlum eða um 1,1 prósentustig sem er nálægt 14,5%.

Þetta er árangur en það skiptir máli að við höldum áfram á þessari braut og að okkur takist að færa okkur yfir á það stig að ná þeim sambærilegu lífskjörum og eru hjá þeim þjóðum sem lífskjörin eru best í heiminum. Til þess þurfum við að ná ákveðnum áföngum.

Í fyrsta lagi. Við verðum að viðhalda stöðugleikanum í efnahagsmálum.

Í öðru lagi verðum við að ná niður ríkissjóðshallanum. Þessi ríkisstjórn setti sér það markmið að ná ríkissjóðshalla niður í 4 milljarða kr. á árinu 1996 og stefnt er að því árið 1997 að jafnvægi náist.

Í þriðja lagi þurfum við að auka erlenda fjárfestingu. Það er að mínu viti lykillinn að hagsældinni hér í framtíðinni. Erlend fjárfesting hefur verið á undangengnum árum í kringum 0,1% af landsframleiðslu á meðan þjóðirnar í kringum okkur og ekki síst Danir hafa verið með erlenda fjárfestingu af landsframleiðlu á bilinu 1,5%--2%. Með samningnum um stækkun álversins í Straumsvík eykst landsframleiðsla hér árið 1996 og 1997. Hún tífaldast, fer úr 0,1% upp í 1%. Það er hins vegar tímabundinn samningur. Þess vegna þurfa að vera til staðar nú þegar aðgerðir til þess að taka við þeirri aukningu sem þarf að eiga sér stað í erlendri fjárfestingu árið 1998 og til framtíðar. Á vegum ríkisstjórnarinnar eru ákveðin verkefni í gangi.

Í fyrsta lagi eru menn núna í samstarfi við fjárfestingaskrifstofu viðskrn., markaðsskrifstofu iðn.- og viðskrn. og Landsvirkjunar að skilgreina ákveðin landsvæði með tilliti til þess að það sé hægt að koma upp erlendri fjárfestingu.

Það er sérstakt Evrópuverkefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja í gangi til þess að draga hingað að erlenda fjárfesta til að leita að samstarfi við erlenda aðila milli íslenskra og erlendra fyrirtækja.

Tveir kynningarfundir á íslensku atvinnulífi verða haldnir hér fyrir erlenda fjárfesta á þessu ári, í ágúst og í september, á vegum Evrópusambandsins í tengslum við þá sjávarútvegssýningu sem hér verður haldin. Tilgangurinn með þessu er að koma á samstarfi innlendra og erlendra fyrirtækja. Þannig er líka verið að vinna að því að flytja inn fyrirtæki til landsins, starfandi fyrirtæki erlendis.

Það þarf eins og skýrt kemur fram í þessari niðurstöðu að auka framleiðni og gæði í íslensku atvinnulífi. Á vegum iðn.- og viðskrn. er núna verið að setja af stað sérstakt verkefni í samvinnu við atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna, verkefni sem verður undir yfirskriftinni: Aukum framleiðni og gæði í íslensku atvinnulífi.

Í fimmta lagi þarf að ná niður vöxtum og vextir þurfa að lækka enn frekar. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur gert það að verkum að vextir fara nú lækkandi eins og fram hefur komið en með minni ríkissjóðshalla náum við því marki að lækka vexti enn frekar. Þannig munu lægri vextir bæta stöðu bæði heimila og fyrirtækja.

Herra forseti. Efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. mun því, ef við höldum áfram á sömu braut, bera íslensk heimili fram á við að því marki að koma á sambærilegum eða betri lífskjörum en þar sem þau gerast best í heiminum. En til þess þurfum við á að halda lágri verðbólgu, lágum vöxtum, auknum hagvexti, aukinni atvinnu, auknum kaupmætti og bættum lífskjörum. Þetta eru meginatriðin í efnahagsstefnu ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl.