Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:42:21 (7293)

1996-06-05 11:42:21# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:42]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki svarað spurningu hv. 18. þm. Reykv. um hvers vegna þetta mál hafi ekki komið hér á dagskrá. Ég hef ekki haft afskipti af því hvernig málum er raðað á dagskrá og það verður að bera fram þá spurningu á öðrum vettvangi.

Hins vegar er þessi skýrsla sem hér er til umræðu gagnleg og hún er gott grundvallarplagg í þá umræðu sem á undan er gengin og verður í framhaldinu um samanburð á lífskjörum í Danmörku og á Íslandi. Það er grundvallaratriði hvaða lærdóm er hægt að draga af þessari skýrslu. Það sem mér er efst í huga í þessu sambandi er gerólík afkoma danskra og íslenskra fyrirtækja, lág framleiðni íslenskra fyrirtækja og mikil yfirvinna, og hvort þetta kerfi okkar hefur skilað þjóðfélaginu því sem til er ætlast. Ég hef miklar efasemdir um það og hef alltaf haft þær. Hins vegar eru ástæður fyrir þessu. Danska þjóðfélagið er gamalt og gróið, fjölmennt iðnaðarþjóðfélag. Við erum að færast úr veiðimannaþjóðfélagi yfir í iðnað og þjónustu og sú breyting að laga vinnumarkaðinn hér að því sem gerist í Danmörku tekur áreiðanlega tíma, en hún er æskileg.

Hv. 17. þm. Reykv. gat um að það væri verið að samræma rekstrarskilyrði fyrirtækja og hann deildi einnig á það að hæstv. ráðherrar hefðu sett afkomu og arðsemi fyrirtækja í sérstakt ljós og lagt of mikið upp úr því. Ég held að það sé grunnurinn fyrir bættum lífskjörum að fyrirtæki hafi afkomu og fyrirtæki hafi sams konar stöðu hér og í nágrannalöndunum. Hins vegar er það alveg rétt hjá þingmanninum að það þarf að skipta þeim arði réttlátlega og launþegar þurfa auðvitað að sækja sinn hlut í þá bættu afkomu. En það verða aldrei bætt lífskjör í landinu nema framleiðni og afkoma fyrirtækja verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum. (ÖJ: Þingmaðurinn er að gagnrýna frv. sem setur stóreignafólk í fyrirrúm.) Já, ég segi það að það er grundvallaratriði að fyrirtækin hafi afkomu og efnahag til þess að bæta launin í landinu. Ég hef ekki tíma til þess að taka upp umræður um frv. um fjármagnstekjuskatt. Ég get svarað þeim atriðum á öðrum vettvangi sem þingmaðurinn talaði um í því sambandi, en ég ætla ekki að gera það á þessum vettvangi enda er tíma mínum lokið. Aðalatriðið er að draga af þessari skýrslu lærdóm. Ég tel að framleiðni íslenskra fyrirtækja þurfi að aukast, yfirvinna að minnka og auðvitað viljum við stefna að auknum kaupmætti. Ég held að við getum verið sammála um það, hv. þingmenn.