Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:50:45 (7295)

1996-06-05 11:50:45# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þessa skýrslu og tek undir með þingmönnum að af þessari skýrslu má hafa gagn. Hún ber með sér að hún er ekki algerlega fullburða og verður það kannski seint en við getum haft þessa skýrslu með sínum göllum til samanburðar á komandi árum. Þá höfum við þessa skýrslu sem viðmiðun með annmörkum sínum og göllum. Það tel ég vera kost.

Hv. 5. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, nefndi að menn væru ranglega að eigna sér höfundarrétt að þessari skýrslu. Það er misskilningur. Höfundarrétturinn er ótvíræður Þjóðhagsstofnunar. Tilefni skýrslunnar er að ég óskaði eftir því mjög snemma að samanburður yrði gerður á lífskjörum hér og í nálægum löndum. Sú vinna var ekkert tímasett. Síðan kom beiðni um skýrslu frá Alþb. með efnismiklum og ítarlegum spurningum. Sú skýrslubeiðni er tímasett, verður að inna af hendi innan tiltekins tíma og þá var auðsætt að önnur vinna varð að sitja á hakanum. Hún nýttist fyrir þessa skýrslu og það varð að beina skýrslunni í þann farveg sem skýrslubeiðnin markaði og það tel ég að Þjóðhagsstofnun hafi gert allvel miðað við þann skamma tíma sem menn hafa. Fyrir mitt leyti get ég verið þakklátur Alþb. fyrir að vinna þessar spurningar og setja þetta mál í ákveðinn farveg sem er til gagns fyrir okkur.

Varðandi það sem hv. 17. þm. Reykv. nefndi um að vandamálið hér væri það að menn ættu að skipta gæðunum réttlátar en nú væri gert. Það er sjónarmið hjá hv. þm. en þann lærdóm dregur hann ekki af skýrslunni. Í skýrslunni kemur beinlínis fram að ekki eru efni til að álykta að gæðum hér á landi sé meira misskipt en í Danmörku þannig að þá er þetta almennt viðhorf þingmannsins sem ég geri ekki lítið úr en skýrslan kallar ekki á þá niðurstöðu. (ÖJ: Ég var að leggja út af gerðum ríkisstjórnarinnar.) Já, já, það er gott, en það er skýrslan sem er til umræðu.

Varðandi það sem spurt var um þjónustugjöldin vek ég athygli á blaðsíðu 44. Þar er nokkuð vikið að þeim þættinum.

Hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, nefndi það sem vandamál að hér á landi leituðu mjög margir til félagsmálastofnana og það væri til marks um að lífskjör væru ekki í lagi hér. Þetta er dálítið hæpinn samanburður og ég býst við því að ef menn mundu spyrjast fyrir um það í Danmörku þar sem hið félagslega kerfi er allmagnað hversu margir mundu leita til félagsmálastofnunar þar þau kæmu þau svör að það gerðu mjög margir. Það mundi hv. þm. væntanlega ekki telja sem dæmi um það að lífskjörin í Danmörku væru lakari en hér heldur mundi hv. þm. væntanlega segja að þar væri félagslega þjónustan betri en hér o.s.frv. Það er afar hæpin fullyrðing að félagsleg þjónusta sé til marks um það að lífskjör séu endilega slæm.

Ég tel að af þessari skýrslu megi draga þá meginályktun að menn eigi að endurskipuleggja fyrirkomulag á vinnumarkaði og reyndar bókhaldið á vinnumarkaði. Í sumum tilvikum erum við að bókfæra lengri vinnutíma sem er ekki unninn. Ég þekki til og það þekkja margir aðrir varðandi embættismenn á Norðurlöndum. Þeir hafa ekki óunna yfirvinnu. Þeir fá tiltekinn tíma en þeir vinna iðulega lengur í ráðuneytunum en það er hvergi skráð og svo er sagt að vinnutíminn sé 38 stundir. Það er margt slíkt sem er misvægi í.

Ég tók eftir því að nýkjörinn forseti Alþýðusamband Íslands, sem ég vil nota tækifærið til þess að óska til heilla í störfum, lagði áherslu á það eftir að hann hefði tekið kjöri að það væri eitt af forgangsverkefnum að taka á þessari uppbyggingu vinnukerfisins hér og launafyrirkomulagi og slíkum þáttum.

Nú er tíma mínum lokið og ég get ekki svarað fleiri atriðum og bið forláts á því.