Félagsleg verkefni

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:56:34 (7297)

1996-06-05 11:56:34# 120. lþ. 161.11 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að allshn. hafi samþykkt þessa tillögu og þakka formanni allshn. sérstaklega fyrir það að formaðurinn hefur beitt sér í allshn. fyrir vinnu í þingmannamálum vegna þess að á síðustu vikum höfum við gjarnan nefnt það í hve litlum mæli þingmannamálin fá umfjöllun og ná fram að ganga í þingsölum og ræddum það m.a. í morgun um störf þingsins.

Virðulegi forseti. Án þess að lengja þá umræðu sem hér fer fram vil ég gera grein fyrir því að í tillögunni felst að gera úttekt og hugsanlega flutning á félagslegum verkefnum frá heilbrrn. til félmrn. með því að skipaður verði starfshópur m.a. með fulltrúum þingflokkanna eins og segir í tillögunni sem hér var flutt sem gerir úttekt á og skilgreinir hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbrrn. séu í raun félagsleg verkefni og eðlilegra að heyrði undir félmrn.

Ástæða þess að þetta mál er flutt er m.a. sú að sú sem hér stendur hefur öll þau ár sem hún hefur starfað á hv. Alþingi, í félmn. og að félagslegum verkefnum, ekki síst í málefnum fatlaðra, og staðreyndin er sú að við höfum verið að gera breytingar á lögum á félagsvæng, m.a. á lögunum um málefni fatlaðra, fellt þau alfarið undir félmrn. Á sínum tíma voru félagsleg verkefni mjög oft útfærð á vettvangi heilbrigðismála og hafa í raun dvalist án beinnar úttektar og án þess að gerðar séu þær breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að í öllum tilfellum sé verið að fjalla um hliðstæð mál á sama vettvangi.

Ég hef vísað til þess að það sé mjög mikil hætta á því að þegar t.d. þrengir að í fjárlagagerð þá verði þau viðhorf hjá stofnunum að reyna að losa sig við þau verkefni sem viðkomandi stofnun eða viðkomandi ráðuneyti telur sig ekki bera ábyrgð á. Það gerðist á sl. vetri þegar kom fram tillaga um að loka Bjargi sem er heimili fyrir fatlaða fullorðna einstaklinga til margra áratuga. Þegar kom fram tillaga um að loka meðferðarheimili barna við Kleifarveg sem reyndar kom fram 1--2 vikum eftir að ég hafði flutt tillöguna vegna þess að það er í raun og veru félagslegt verkefni en rekið af heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna er þetta mjög gott mál og ég þakka fyrir það, virðulegi forseti, að það hefur verið samþykkt af allshn. og þakka formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir því að ég tel að það sé góður vitnisburður til formanna nefnda þegar þeir gefa sér tíma til þess í hinum miklu önnum að taka þingmannamálin á dagskrá, fara yfir umsagnir um þau og afgreiða þau mál sem fá góðan og breiðan stuðning.