Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:08:28 (7302)

1996-06-05 13:08:28# 120. lþ. 161.4 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Jaðarskattar á almennar launatekjur eru frá 42% og upp í 60%--70% þegar bótaskerðingar eru meðtaldar. Samkvæmt þessu frv. verður jaðarskattur á arð, vexti og söluhagnað lækkaður niður í 10%. Bæði Sjálfstfl. og Framsfl. lýstu því yfir í síðustu kosningabaráttu að brýnt væri að lækka jaðarskatta en kjósendum var ekki sagt að stóreignafólk ætti að vera í fyrirrúmi og fá forgjöf eins og gert er með þessu frv. Skattleysismörk fyrir einstaklinga fyrir launavinnu er um 700 þús. kr. á ári, 1.400 þús. fyrir hjón. Skattleysismörk fyrir vexti, arð, húsaleigu og söluhagnað verða hins vegar 3 millj. fyrir einstakling og tæpar 6 millj. fyrir hjón sem ekki hafa aðrar tekjur en af eignum sínum. Það er ljóst að ríkisstjórnin telur brýnna að lækka skattleysismörk þessa fólks en þeirra sem vinna hörðum höndum fyrir lágum launum. Samkvæmt frv. lækkar tekjuskattur 40 tekjuhæstu hlutafélaga landsins um rúmlega 800 millj. kr. Þessum upphæðum er velt yfir á almennt launafólk. Þetta frv. er ekki í nokkru samræmi við þær kröfur sem samtök launafólks hafa sett fram um skatt á fjármagnstekjur. Ríkisstjórnin hefur hins vegar nýtt sér kröfur verkalýðshreyfingarinnar um fjármagnstekjuskatt til að ívilna stóreignafólki. Þetta frv. er í samræmi við önnur frv. ríkisstjórnarinnar. Stóreignafólk er í fyrirrúmi, forréttindahóparnir fá forgjöf. Ég hef jafnan verið hlynntur fjármagnstekjuskatti en þessa misréttisómynd get ég ekki stutt. Ég sit hjá.