Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:11:21 (7304)

1996-06-05 13:11:21# 120. lþ. 161.4 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Undanfari þess að frv. um fjármagnstekjuskatt var lagt hér fram var starf margumræddrar nefndar er undirrituð átti m.a. sæti í. Niðurstaðan var lögð fram í áliti en fjórir nefndarmenn skrifuðu undir með vísun til bókunar þar sem við áskildum okkur allan rétt í málinu fyrir okkur og þá stjórnmálaflokka sem við vorum fulltrúar fyrir. Við sögðumst hins vegar fyrir okkar leyti sættast á niðurstöður nefndarálitsins og styðja þær að öðrum tillögum frágengnum. Nú hafa verið lögð fram önnur frv. um sama efni af formönnum þriggja stjórnarandstöðuflokka sem er í anda þess sem Alþb. hefur talað fyrir og undirrituð mælti fyrir í nefndinni. Það hefur hins vegar legið fyrir að ríkisstjórnin vill ekki fara þá leið og frv. fást ekki afgreidd í þinginu. Það er vítaverð framkoma af hálfu ríkisstjórnarinnar en í takt við önnur vinnubrögð hennar. Ég áfellist harðlega þessa málsmeðferð sem kemur í veg fyrir eðlilega umræðu um málið. Það er ljóst að stjfrv. eru mjög umdeild og í þeim eru atriði sem geta orkað tvímælis. Hitt er jafnljóst að þrátt fyrir pólitíska samstöðu um að koma skuli á fjármagnstekjuskatti hefur aldrei náðst pólitísk samstaða um leið að því marki sem er þó eitt mesta forgangsmál í stjórnmálum samtímans en tillögur nefndarinnar voru tilraun í þá veru. Ég mun áfram beita mér til að ná þeim markmiðum sem Alþb. hefur lagt í skattamálum en við svo búið mun ég að sjálfsögðu standa við þá ákvörðun sem ég stóð að í nefndarstarfinu og segi því já.