Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:12:46 (7305)

1996-06-05 13:12:46# 120. lþ. 161.4 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, KHG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:12]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Með þessu frv. er afnuminn sérstakur skattafsláttur til að mæta arði. Með þessu frv. er afnuminn sérstakur skattafsláttur af tekjum vegna útleigu húsnæðis. Með þessu frv. er afnumið skattfrelsi vaxtatekna. Samanlögð áhrif af þessum tillögum er í fyrsta lagi að skattfrjálsar tekjur lækka þannig að þeir sem hafa tekjur af öðru en launavinnu eru líklegri en áður til að borga hærri gjöld þótt vissulega megi finna dæmi um hið gagnstæða.

Í öðru lagi. Þessi lagasetning dregur úr þeim mun sem verið hefur á skattlagningu launatekna og fjármagnstekna og stefnir því í rétta átt.

Og í þriðja lagi stuðlar frv. að því að beina fjármagni í atvinnulífið og þannig styrkja atvinnufyrirtækin í landinu og draga úr atvinnuleysi. Ég segi já, herra forseti.