Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:14:54 (7307)

1996-06-05 13:14:54# 120. lþ. 161.4 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, ÁÞ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:14]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. sínu er hæstv. ríkisstjórn að auka á misrétti í landinu. Hinir raunverulegu fjármagnstekjueigendur munu sleppa. Með þessu frv. er hæstv. ríkisstjórn að leggja fjármagnstekjuskatt á líknarfélögin í landinu andstætt öllum venjum í nágrannalöndum okkar. Við afgreiðslu fjárlaga í desember samþykkti meiri hluti Alþingis mjög umdeilda breytingu á 10. gr. almannatryggingalöggjafarinnar sem fól í sér stórfellda skerðingu á greiðslum bóta til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem hugsanlega eiga 2,5 millj. á bankabókum sínum. Með þessu var í raun settur fjármagnstekjuskattur á þessa hópa. Nú er hæstv. ríkisstjórn að keyra hér í gegn frv. um fjármagnstekjuskatt sem leiðir til tvísköttunar á fjármagnseign þessara sömu hópa.

Herra forseti. Frv. felur í sér óréttlæti og mikla mismunun. Ég mun ekki greiða því atkvæði mitt.