Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:53:42 (7311)

1996-06-05 13:53:42# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var víst næst á mælendaskrá í nótt og hafði undirbúið u. þ. b. tveggja klukkustunda ræðu um þetta mál, en ég vil upplýsa þingheim um að ég hyggst ekki flytja þá ræðu að sinni þar sem þau ánægjulegu tíðindi gerðust í nótt að það náðist samkomulag í þessu máli. Nú er sem sagt ætlunin að lögfesta fyrst og fremst eina grein sem varðar gjaldtöku veiðieftirlits. Þetta er sú málsmeðferð sem ég mælti reyndar með við 1. umr. þessa máls og því fagna ég innilega þeirri lendingu sem varð í málinu.

Sá texti sem hér liggur fyrir um veiðieftirlitið er ekki minn óskatexti, en er ásættanlegur þó að nokkuð vanti á að þarna sé hvati til að veiðieftirlitið verði hagkvæmt. Við kvennalistakonur munum því sitja hjá við þessa grein í þeirri von að betur takist til við framkvæmdina og að þetta megi gerast á sem ábyrgastan og hagkvæmastan hátt í reynd. Kannski er hér kominn möguleiki sem gefur konum tækifæri til að fá pláss á togurum og kynnast þessu sviði í okkar atvinnulífi sem gæti leitt til þess að þær öxluðu meiri ábyrgð á þessu sviði í framtíðinni.

En aðalatriðið er að ég tel rétt að það séu útgerðaraðilar en ekki ríkissjóður sem beri kostnaðinn af veiðieftirliti og því er ég sátt við að þessi grein verði lögfest og fagna enn og einu sinni þeirri lendingu sem varð í málinu að sinni.

Næsta skrefið á þessu sviði úthafsveiða fyrir Alþingi Íslendinga ætti að vera það að samþykkja úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna frá því á sl. ári og að ná síðan meiri sátt um nýtt frv. um úthafsveiðar, meiri sátt bæði innan þings sem utan.