Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 13:58:07 (7313)

1996-06-05 13:58:07# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[13:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Örfá orð um það mál sem hér er á dagskrá. Ég vil fagna því að það náðist ákveðið samkomulag um meðferð þessa máls við umræðuna í nótt. Ég er mjög ánægð með það hvernig hæstv. sjútvrh. tók á þessu máli og fagna því sérstaklega að með þessari niðurstöðu hefur í rauninni verið tekin ákvörðun um það að skoða málið betur og reyna að ná um það víðtækari samstöðu.

Það vill hins vegar svo til að sú grein sem samkomulag varð um að yrði lögfest eða þau efnisatriði réttara sagt, er kannski sú grein eða efnisháttur sem mesta gagnrýni hefur fengið, ekki endilega hér innan þings heldur miklu fremur utan. Mönnum er alveg ljóst af hverju sú gagnrýni stafar. Hún stafar af því að búið er að gangast undir tiltekið samkomulag um víðtækt eftirlit á Flæmingjagrunni sem íslenskir útgerðaraðilar þurfa að óbreyttu að greiða býsna hátt gjald fyrir. Það hefur ekki verið gert neitt sérstakt samkomulag um texta þeirrar breytingartillögu sem hér er borin fram. Hér er í rauninni um þá brtt. að ræða sem meiri hlutinn hafði áður borið fram og við munum því sitja hjá við afgreiðslu málsins. Þrátt fyrir það vil ég endurtaka að ég fagna því að málið er komið í þann farveg sem það er komið og vænti þess að viðleitni ráðuneytis og útgerðaraðila megi sameiginlega verða til þess að lækka þetta gjald vegna þess að ég held að það sé afar mikilvægt að menn vinni sameiginlega að því að gera útgerðum okkar sem greiðasta leiðina á úthöfin til þess að afla okkur þar þeirrar veiðireynslu sem verður okkur síðan lykillinn að varanlegum veiðiheimildum víðast á úthöfunum.