Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 14:00:55 (7314)

1996-06-05 14:00:55# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[14:00]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ræddi þetta mál í nótt þegar það var til umræðu og beindi þá einmitt áskorun til hæstv. ráðherra að athuga það betur, stuðla að því að svo yrði vegna fram kominna athugasemda og naums tíma sem verið hefur í sambandi við skoðun þessa máls, þ.e. víðtækar lögfestingar varðandi úthafsveiðar. Ég er því í hópi þeirra sem eru ánægðir með það að hæstv. ráðherra brást við eins og hann gerði og tel að það hafi verið þýðingarmikið. Ég vænti þess að við sitjum þá fyrir bragðið uppi með traustari löggjöf þegar þar að kemur væntanlega eftir vinnu á næsta þingi þegar búið er að fara yfir málin.

Eins og fram kom hjá hv. 8. þm. Reykv. þá höfum við lagt á það áherslu í Alþb. og ég gerði það í minni ræðu í gær, að reynt yrði að létta þann kostnað eða koma við eftirliti með þessum veiðum í samræmi við samninga sem Ísland hefur gerst aðili að varðandi veiðieftirlit á Flæmska hattinum sérstaklega, að koma þeim samningum við þannig að kostnaður af þeim verði ekki til þess að útgerð leggist af eða að íslenskum útgerðum sem hafa stundað þarna veiðar verði ókleift að halda þeim áfram. Mér finnst af þeirri tillögugrein sem hér liggur fyrir að það sé engan veginn ljóst hvort hægt er að verða við því eða hvernig það yrði. En eins og fram kom í umræðunni sl. nótt, þá er þarna um verulegar upphæðir að ræða, reiknað út af hagsmunaaðilum allt að 8--9 millj. kr. á ári. Það fer auðvitað eftir úthaldi. Ég hef dæmi af litlum rækjufrystitogara sem telur sig greiða yfir hálfa millj. kr. fyrir eftirlit í mánaðarveiðiferð eða svo svoleiðis að hér er um tilfinnanlegar upphæðir að ræða sem geta riðið baggamuninn þannig að viðkomandi treystir sér ekki til þess að halda áfram úthaldi.

Ég legg því á það ríka áherslu að framkvæmdarvaldið og hæstv. ráðherra fari yfir þessi efni með öllum tiltækum ráðum til þess að einfalda þetta eftirlit í samkomulagi auðvitað við þá sem í hlut eiga, Kanadamenn sem þarna eiga undir í þessu máli. En ég held að það sé ljóst öllum sem yfir þetta fara að sá háttur sem þarna er gert ráð fyrir er ekki skilvirk leið til þess að tryggja eftirlit og það er hægt að koma því við á annan og kostnaðarminni hátt í samvinnu m.a. væntanlega við Kanadamenn og hugsanlega fleiri sem þarna eiga hlut að máli. Útgerðarmenn eru í raun ekki að skorast undan því að tryggja eftirlit eða fyrir sitt leyti að eftirlit geti farið fram, en leggja eðlilega áherslu á að það sé skilvirkt og leiði ekki til óbærilegs kostnaðar.

Þetta vildi ég láta koma fram en fylgi að öðru leyti mínum þingflokki í sambandi við afgreiðslu málsins. Ég tel að þetta sé jákvætt hjá hæstv. ráðherra og ég mun sitja hjá við afgreiðslu á greininni með tilliti til þess sem hér hefur komið fram, nauðsynarinnar á því að ná fram lagfæringu.