Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 14:26:31 (7321)

1996-06-05 14:26:31# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, Frsm. minni hluta HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[14:26]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhvn. við frv. til laga um náttúruvernd sem hér hefur verið mælt fyrir af hálfu meiri hlutans, en að því nefndaráliti stendur ásamt mér hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fyrir hönd þingflokks Kvennalistans sem fulltrúi hans í umhvn.

Málið sem hér er til umræðu á sér aðdraganda og sögu sem er því miður ekki allt of skemmtileg. Ég mun koma að því á eftir. En ég ætla í upphafi að kynna meginniðurstöðu, megintillögu okkar sem stöndum að þessu í minni hluta umhvn. eins og hún kemur fram í inngangi að okkar nefndaráliti. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Frv. til laga um náttúruvernd var vísað til umhvn. 11. mars 1996. Frv. var sent til umsagnar og komu fram við það margar athugasemdir. Í nefndaráliti meiri hluta umhvn. er getið umsagnaraðila og þeirra sem komu á fund nefndarinnar. Af hálfu ýmissa umsagnaraðila og viðmælenda nefndarinnar kom fram það sjónarmið að rétt hefði verið að endurskoða efni laganna í heild í stað þess að taka einn kafla þeirra sérstaklega út úr, þ.e. stjórnunarþáttinn. Undir það sjónarmið tekur minni hluti nefndarinnar. Þar við bætist að mikið skortir á að fyrirliggjandi frv. fengi eðlilega umræðu og athugun í nefndinni. Þrátt fyrir nokkrar breytingartillögur af hálfu meiri hlutans úir og grúir af stórum og smáum atriðum sem breyta þyrfti í frv. til að það teldist frambærilegt. Þar fyrir utan er í frv. fjöldinn allur af úreltum ákvæðum sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um og óeðlilegt er að Alþingi fari nú að leggja blessun yfir í atkvæðagreiðslu.

Með vísan til framangreindra atriða er minni hluti nefndarinnar andvígur lögfestingu frv. og gerir tillögu um að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að heildstæð endurskoðun á lögum um náttúruvernd fari fram sem fyrst.``

Þetta var tilvitnun í meginniðurstöðu minni hluta umhvn.

Það kom fram í máli talsmanns meiri hlutans, hv. formanns nefndarinnar sem talaði áðan, að meiri hlutinn fagni sérstaklega að nú skuli ráðist í heildstæða endurskoðun þessara laga. Þegar ég heyrði þessi orð hugsaði ég að það væri betur að menn hefðu fundið það púður upp eitthvað fyrr, að menn hefðu reynt að tryggja það við meðferð málsins, upptök þess, að fram fari heildstæð endurskoðun laganna. Satt að segja er það svo ef marka má málflutning meiri hlutans og það sem fram hefur komið í nefndinni sem og þá framsöguræðu sem hæstv. umhvrh. hafði fyrir þessu máli við 1. umr. málsins, að lítill hugur fylgir máli þegar talað er um heildarendurskoðun laganna. Ég held að þar séu á ferðinni blekkingar af hálfu meiri hlutans og hæstv. ráðherra ef marka má þau orð hans sem fram komu við 1. umr. að þessi heildarendurskoðun mundi taka talsverðan tíma, sennilega ein tvö ár, og hæstv. ráðherra tiltók ákveðin ártöl hvenær þessari heildarendurskoðun, þessu mikla verki gæti verið lokið, endurskoðun laga um náttúruvernd. Mér sýndist að það væri svona undir lok kjörtímabilsins, kannski einu ári fyrr svo maður geri ekki meira úr þessu heldur en fram kom hjá hæstv. ráðherra og vita þá allir hvað verður úr efndunum ef þannig er staðið að verki varðandi heildarendurskoðun.

Ég nefni þetta, virðulegur forseti, vegna þess að hér er verið að taka inn í breytingartillögur við gildandi lög um náttúruvernd ýmis atriði sem varða ekki stjórnunarþátt laganna, ýmis atriði sem meiri hlutinn ber sérstaklega fyrir brjósti og vill því taka með núna vegna þess að enginn hlutur fylgir máli í sambandi við heildarendurskoðun málsins. Við erum að fjalla um mjög gildan þátt laga um náttúruvernd þar sem er þessi stjórnarþáttur. En drjúgur hluti af lögunum hefur enga gagnrýna meðferð fengið af hálfu meiri hlutans eða hæstv. ráðherra sem leggur þetta fyrir og hér er því lagður fyrir þingið lagabálkur um endurskoðun á lögum sem eru frá 1971 með smávegis breytingu vegna stofnunar umhvrn. 1990, sem hefur að geyma fjöldann allan af gersamlega úreltum ákvæðum þó að lögin á sínum tíma hafi verið býsna góð í mörgum greinum, með undantekningum þó, sem stöfuðu m.a. af viðhorfi þeirra sömu þröngsýnu afla sem er enn að finna á meðal okkar í báðum núverandi stjórnarflokkum þegar kemur að náttúruverndarmálum, atriði sem valda því að staða Íslands, einnig gagnvart öðrum þjóðum að því er varðar vörslu lands og landgæða og möguleikum Íslendinga til þess að nýta land sitt og njóta þess, er í verulegri hættu. Það sem ég hef m.a. í huga að þessu leyti er það viðhorf til almannaréttar sem gildandi lög nr. 71 endurspegla sem var ein lakasta greinin í þeirri löggjöf sem þá var lögfest og ekkert er hróflað við hér þrátt fyrir það að þetta er heildstætt frv. sem er lagt fyrir að meiri hlutinn hefur farið inn í ýmsa þætti málsins sem snerta ekki í þröngri merkingu stjórnunarþátt laga um náttúruvernd.

Þetta ber að harma, virðulegur forseti. Þetta ber vott um það að mínu mati að enginn hugur fylgir máli af hálfu meiri hlutans í sambandi við heildarendurskoðun á löggjöfinni og þess vegna er málið lagt fyrir með þessum hætti. Ef menn væru með það í huga að ráðast í það þarfa verkefni að færa löggjöf um náttúruvernd í það horf sem samsvarar kröfum tímans, ekki síst breyttum viðhorfum á alþjóðavettvangi og í landi okkar að því er varðar kröfur til verndunar, þá lægi þetta mál fyrir með allt öðrum hætti. Þá væru menn ekki að endurprenta markmið laganna frá 1971 án nokkurs tillits til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið síðan og eru viðurkennd og mynda kjarnann og uppistöðuna í alþjóðasamningum á þessu sviði. --- Virðulegur forseti. Það væri æskilegt að ekki væru margir fundir í húsinu á sama tíma og í þingsal og þá hefðu menn kannski tekið inn í útgáfuna að lögum um náttúruvernd viðhorf eins og þau sem eru í huga margra tengd við sáttmálana frá Ríó, heimsráðstefnuna í Ríó, samninga sem þar voru undirritaðir og sjónarmið sem lágu að baki þeirra samninga og áttu sér rætur í endurskoðun á viðhorfum í þessum málum sem tengdir hafa verið við Brundtland-nefndina sem forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, veitti forustu og hefur borið nafn hennar síðan og hún skilaði af sér 1987. Hið margumrædda hugtak um sjálfbæra þróun sem þar er að finna í tillögum þeirrar nefndar og sem er leiðarstjarna, sem hefur verið notað sem leiðarstjarna í sambandi við samningagerð og lögfestingu í náttúruvernd allar götur síðan, í Ríó-sáttmálanum og fjölmörgum samningum sem tengjast því ferli. Þetta er dagskrá 21, sem svo er kölluð, sem á að vera framkvæmdaáætlun fyrir heimsbyggðina til þess að reyna að komast hjá því neyðarástandi sem skapast mun smám saman og herða mun fastar og fastar að mannkyninu, Íslendingum meðtöldum á næstu árum í tíð núlifandi manna svo ekki sé talað um komandi kynslóðir.

En það fylgir ekki hugur máli. Hæstv. núv. ríkisstjórn er mjög langt niðri á skalanum þegar litið er til þess hvort vilji er raunverulega til staðar til þess að taka á hinum mikla vanda sem tengist umhverfisvánni og sem krafan um umhverfis- og náttúruvernd er svarið við, krafa um verndun í þeim efnum sem ræðst að rótum vandans en er ekki fólgið í sjálfsblekkingum sem er því miður það sem menn hugga sig við og halla sér að. Lengra nær þetta ekki. Það er varaþjónusta sem mætti kalla svo, það er í orði þjónað hugtökum þegar vel lætur, ekki í þessu frv., ekki af hálfu þessarar ríkisstjórnar nema einstaka sinnum þegar mikið liggur við, til hátíðabrigða, að setja fram sjónarmið sem raunverulega varða sjálfbæra þróun eins og sú hugsun er mótuð fyrr og síðar og þess vegna er heldur dökkt í álinn, virðulegur forseti.

Það vill ekki betur til þegar sett er saman ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að afloknum síðustu kosningum að þá er umhverfisverndinni sýnd sú dæmalausa lítilsvirðing að ráðuneyti umhverfismála fær ekki að búa að einum og sjálfstæðum ráðherra heldur er gert að eins konar hjáleigu undir landbrn., þ.e. að sá ráðherra sem á að sinna umhverfismálum er gerður að eins konar hjáleigubónda frá landbrn. Ég veit að vísu ekki nákvæmlega hvar hæstv. umhvrh., sem við leyfum okkur að kalla svo í góðri trú auðvitað, heldur til daglega með sinn kontór, hvort hann situr í Vonarstræti í húsnæði umhvrn. eða hvort hann heldur sig aðallega uppi á Rauðarárstíg í landbrn. Ég hef ekki yfirlit um það en mig grunar það að ansi mikið af tíma og orku þess ráðherra, sem settur var yfir umhverfismálin, fari í að sinna hinu ráðuneytinu, ráðuneyti atvinnumála, ráðuneyti landbúnaðarins og það eigi ansi mikið, sem er kannski er ekkert óeðlilegt, hug og hjarta hæstv. ráðherra sem kemur úr gildu landbúnaðarkjördæmi. Hann reynir auðvitað að taka þann þátt alvarlega og var kannski betur undir það atriði búinn þegar hæstv. ráðherra kom að störfum að sinna landbúnaðarmálunum en hinum stóra bálki umhverfismálanna og ætla ég þó hæstv. ráðherra ekki slæman vilja í þessum efnum. En það sýnir hug ríkisstjórnarinnar betur en flest annað að gera umhverfismálin að eins konar hjáleigu undir landbrn. í staðinn fyrir að það á auðvitað skilyrðislaust að vera ráðuneyti með sérstakan ráðherra sem er ekki bundinn á klafa annarra hagsmuna gagnvart ríkisvaldinu, framkvæmdarvaldinu á þeim tíma sem viðkomandi hæstv. ráðherra gegnir störfum. Þetta er afskaplega raunalegt og þetta kemur til með að hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir þennan málaflokk á meðan núv. hæstv. ríkisstjórn situr. Nógu slæmt er veganestið samt þar sem er hugmyndafræði þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni, sú hugmyndafræði sem er í raun eins langt frá hugsuninni um sjálfbæra þróun og nokkuð getur verið þegar farið er að skoða innviðina þar sem fjármagnið er það sem ræður ferðinni, þar sem fjármagnsöflin eru þau öfl sem ráða ferðinni. Sjónarmið fjármagnsins eru leiðarstjarnan hvar sem er og þar sem rekast saman sjónarmið fjármagnsins og umhverfisverndar verður það í mjög mörgum tilvikum, fullyrði ég, umhverfisverndarsjónarmiðin sem koma til með að víkja. Mér sýnist það gerast í raun dag hvern, virðulegur forseti, því miður.

Dæmin um þetta eru fleiri en tölu verður á komið. Það fer í rauninni bara eftir því hvar gripið er niður, virðulegi forseti, í ákvörðunum og afstöðu hjá hæstv. ríkisstjórn hvort það er í sambandi við umferð, í sambandi við efnistökumál, í sambandi við það hvort fólk fær að njóta í sæmilegum friði dvalar í bústöðum sem það hefur komið sér upp eins og austur í Grímsnesi. Hæstv. ráðherra á að vísu eftir að kveða upp úrskurð í því máli, kæru sem liggja á borði hans. Það verður fróðlegt að sá hvernig sú niðurstaða verður sem þar kemur upp. Ég er ansi smeykur um að þar kunni að halla á í sambandi við eðlileg viðhorf til þessara mála.

Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að álitamál eru mörg þegar um er að ræða einstök úrlausnarefni og einstök atriði. Ég er ekki að segja að menn séu þar alltaf í auðveldu hlutverki sem eigi að kveða upp úrskurði frá degi til dags í málum. Miklu meira skiptir auðvitað meginsjónarmiðið, meginviðhorfin í málafylgjunni. Það fer ekkert hjá því að þegar sami ráðherra er settur í það dapurlega hlutverk að þjóna tveimur herrum, hagsmunum umhverfisverndar annars vegar og hins vegar atvinnumálaráðuneyti, er hæstv. viðkomandi ráðherra settur í mjög erfiða stöðu. Ég er hræddur um að það frv., virðulegi forseti, sem við erum að byrja að ræða við 2. umr. máls beri þess ansi mörg merki og aðdragandi þessa frv. að hæstv. ráðherra hefur haft takmarkaðan tíma til þess að setja sig inn í þetta mál sem kemur inn í þingið því að ég þykist hafa orðið þess áskynja að þetta frv. þar sem handverkið er eins og gengur unnið af hálfu embættismanna í talsverðum mæli, hæstv. ráðherra hafi ekki haldið vöku sinni í sambandi við þá leiðsögn sem hann gaf í upphafi hvernig að verkinu skyldi staðið. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi gert sér það ljóst að hann væri að leggja inn í þingið heildarlöggjöf til laga um náttúruvernd sem bæri þann afleita svip sem þetta frv. ber, þ.e. að vera drjúgum hluta hlaðið úreltum ákvæðum sem Alþingi Íslendinga verður svo að taka afstöðu til.

[14:45]

Ég er alveg viss um, virðulegi forseti, að ef þetta frv. lægi fyrir í höndum manna í nágrannalöndum okkar á þeirra tungu og aðgengilegt mundu menn spyrja: Hvers konar skrælingjalýður er þetta sem býr þarna uppi á Íslandi? Hafa menn ekkert verið að fylgjast með í umhverfismálum undanfarna áratugi? Hvað hafa menn verið að gera? Það er meira að segja komið umhverfisráðuneyti þarna, en það kemur fram á Alþingi Íslendinga frv. sem ber merki forneskjunnar miðað við þá öru þróun og þau breyttu viðhorf sem orðið hafa í umhverfismálum á undanförnum aldarfjórðungi.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, virðulegur forseti, og þetta unga ráðuneyti umhverfismála hefur ekki verið mjög heppið í sambandi við uppbygginguna. Því var komið á í harðri andstöðu við Sjálfstfl. á sínum tíma sem stóð fyrir því og tafði það í einn og hálfan áratug að hér yrði horfið að því ráði sem umtalað var í kringum 1975 og m.a. borið fram af þáverandi Náttúruverndarráði og formanni þess, formanni Framsfl. á þeim tíma, þ.e. flokks sem heitir sama nafni, hann heitir Framsfl. enn í dag, en er orðinn býsna ólíkur því sem var á 8. áratugnum undir forustu manna eins og Eysteins Jónssonar sem veitti flokknum forustu til 1974 a.m.k. og varðveitti eitthvað af þeim eldi sem fylgdi Framsfl. fram undir þetta leyti og jafnvel nokkru lengur, áður en sú hallarbylting hefur orðið sem við urðum vitni að upp úr 1990. Raunar er hægt að kenna hana við árið 1994 þegar við tók núv. formaður sem sneri þar flestu á haus í þeim meginviðhorfum sem áður höfðu verið þar við hún, þótt farið væri að gefa á bátinn áður.

Þegar við rifjum upp þessa tíma hljótum við að minnast merkisbera Framsfl., manna eins og Eysteins Jónssonar sem höfðu bæði tryggt jarðsamband við landið og þjóðina og voru ekki búnir að skrifa upp á forskrift fjármagnsins sem núna er dyggilega fylgt af núv. forustu Framsfl. Hæstv. umhvrh. kemur aðeins við þessa sögu, ég læt ekki titil landbrh. fylgja með, virðulegi forseti, og vona að mér líðist það. Einkenni hans er að vera góðviljaður maður. Hæstv. umhvrh. er góðviljaður maður. Hann vill helst hafa nokkuð kyrrt í kringum sig, hæstv. ráðherra, gott veður og gott andrúmsloft og vill flestra vinur vera frá degi til dags og kann illa við að vera í stríði við allt og alla. (Gripið fram í: Við þekkjum þetta.) Og ég heyri það á undirsátum hæstv. ráðherra, viðstöddum hv. þingmönnum, að þeir kannast einmitt við þessar eigindir sem eru auðvitað mjög góðar á sinn hátt en þó með vissum takmörkunum og ekki síst þegar um það er að ræða að menn þurfi að þjóna tveimur herrum. Þá vandast málið hjá þeim sem þurfa helst að ráða einhverju og hafa stefnu ef þeir þurfa að þjóna tveimur herrum eins og hæstv. ráðherra var dæmdur til í ráðuneyti Davíðs Oddssonar hinu síðara, að þjóna ráðuneyti landbúnaðarmála og umhverfismála.

Það er ekkert sældarbrauð fyrir hæstv. ráðherra. Hann hefur að vísu svokallaða aðstoðarmenn, ég ætlaði að segja svokallaða aðstoðarráðherra því að stundum eru þeir ranglega nefndir svo, sinn á hvorum bænum svona til þess að leiðbeina sér og auðvitað eru þeir að toga í sitt hvort jakkalafið á hæstv. ráðherra frá degi til dags þegar hann er að skjótast á milli húsa frá höfuðbólinu yfir á hjáleiguna í Vonarstræti.

En þessi vandkvæði hæstv. umhvrh. hafa auðvitað verið mörg eins og vill verða hjá flokki sem hefur í seinni tíð verið haldinn þeim eiginleikum að teljast opinn í báða enda. Hann hefur skipað sér inn á miðju íslenskra stjórnmála en færst af henni yfir til hægri, langt til hægri, en samt er opið í báða enda þótt þröng sé öðrum megin. Hæstv. ráðherra lenti einmitt í slíku prófi skömmu fyrir hallarbyltinguna í Hafnarfirði vorið 1994. Það próf fór fram í atkvæðagreiðslu á árinu 1993 um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, samning sem hefur m.a. haft mikil og róttæk áhrif á möguleika Íslendinga til þess að fylgja sjálfstæðri stefnu í umhverfismálum sem og á öðrum sviðum. Þá gekkst hæstv. umhvrh. undir ákveðið próf og var ekki í auðveldu hlutverki. Framsfl. var á þeim tíma eitt flakandi, blæðandi sár. Formaður flokksins, forsrh. í ríkisstjórn til 1991, hafði lent í þeim hremmingum að láta dragast út á þá braut að gera samninga um Evrópska efnahagssvæðið og vera í forsæti ríkisstjórnar þar sem alþýðuflokksmaður mjög glaðbeittur, ekki síst á erlendri grund, dró vagninn í sambandi við þessa samningsgerð og blekkti Framsfl. og jafnvel fleiri til að byrja með með því að það stæði til að taka tillit til sjónarmiða forsrh. frá 1989, Steingríms Hermannssonar, í sambandi við málið. En það var erfitt að fylgja þeirri leiðsögn, einnig fyrir forsrh. Steingrím Hermannsson. Hann átti margar andvökunætur geri ég ráð fyrir á meðan hann var í ráðuneyti, svo ekki sé minnst á eftirleikinn þegar spurningin kom um uppgjör í þessu afdrifaríka máli, afstöðu til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það höfðu myndast tvær meginfylkingar í þingflokki Framsfl. á þessum tíma eftir að ríkisstjórnin sundraðist og ráðuneyti Davíðs Oddssonar hið fyrra komst til valda. Þar toguðust menn á og foringjar þessara tveggja fylkinga voru þáv. formaður flokksins, Steingrímur Hermannsson annars vegar og hins vegar hinn uppkomandi prins. Ég segi ekki erfðaprins, ég veit ekki hvort það er rétt að nota þá einkunn, ég efast satt að segja um það. En hinn uppkomandi prins braust til valda í Framsfl. vorið 1994 og innleiddi þau bókhaldsvísindi, þau fjármagnsvísindi sem þar ráða nú ferðinni í hólf og gólf í flokknum.

Lengi vel var það svo á árinu 1992 og 1993 að það horfði svo að formaður Framsfl. yrði bókstaflega undir í eigin flokki í þessu stóra og afdrifaríka máli, afstöðunni til Evrópusambandsins sem þá var kallað Evrópubandalag og því hvort við ættum að bindast þar aftan í vagninn með þeim hætti sem uppleggið var í þessu samningaferli.

Þá var það sem kom að hæstv. núv. umhvrh., hv. þáv. þm. stjórnarandstöðu, Guðmundi Bjarnasyni. Þá átti hv. þm. um tvennt að velja. Hann vildi varðveita friðinn, vildi helst hafa alla góða og var í þeim mikla vanda á hvora sveifina hann ætti að leggjast, á sveif með þeim sem var að brjótast til valda í flokknum og var kominn með sér við hlið fimm manns af 13 manna þingflokki eða þá formanni flokksins með álíka liðssveit, kannski einum fleiri eða svo, og eitt atkvæði gat riðið baggamuninn hvort formaðurinn yrði undir í afstöðu um þetta mál sem skipt hefur sköpum í íslenskum stjórnmálum, virðulegur forseti. Við erum merkt af því á hverjum degi og hverri stund, ekki síst á Alþingi Íslendinga, sem ofan á varð í þessu máli. Þá valdi hæstv. núv. umhvrh. og þáv. hv. þm. Guðmundur Bjarnason að styðja sinn formann og leggja lóðið á vogarskálina með þeim hluta þingflokksins sem greiddi atkvæði gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég býst við að þetta hafi verið með erfiðari sporum sem hv. þm. þurfti að stíga, en hann tók þá ákvörðun þarna sem ég tel hann meiri mann að, þó svo hann hafi eðli málsins samkvæmt bæði að manneðli og aðstæðum verið tiltölulega fljótur að aðlaga sig síðan hinni nýju forustu eftir að hallarbyltingin var gerð. Þar brýtur því ekkert á því lengur. Og þarna voru býsna afdrifaríkar þær eigindir sem tengjast þeim sem hefur forsjá umhverfismálanna í ríkisstjórn nú um stundir og taldi ég nauðsynlegt að koma aðeins að þessari dæmisögu því hún segir okkur heilmikið.

Virðulegur forseti. Þá ætla ég aðeins að koma frekar að umhvrn. og þeirri sögu sem tengist mótun eða endurskoðun laga um náttúruvernd sem hefur verið á dagskrá þessa ráðuneytis síðan 1991. Ráðuneytið varð til í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1988--1991, þá varð þetta umhvrn. til með býsna sögulegum hætti eins og menn muna sem lifðu þá tíð sem þátttakendur í stjórnmálunum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988--1991 bjó ekki að mjög tryggum meiri hluta lengi vel og þótti býsna tvísýnt hvernig færi. En það var ákveðinn hópur manna í þingsölum á þeim tíma sem kallaður var Borgaraflokkur eða gekk undir þeim merkjum. Það eru allir búnir að gleyma því núna nema langminnugir og þeir sem leggja á sig að halda til haga atburðum úr stjórnmálasögum liðinnar tíðar. Þá passaði að höfða til metnaðar þeirra sem voru í þessu flakatrússi sem kallað var Borgaraflokkur og hafði orðið til í kringum Albert Guðmundsson heitinn ráðherra varðandi það að hægt væri að rýma til í Stjórnarráðinu og það væri kannski hægt að skapa mönnum pláss. Þetta sameinaðist og tengdist hugmyndinni sem hafði vakað lengi og m.a. var á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar sem ég er þarna að nefna, ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, að koma á fót umhvrn. Þá var brugðið á þetta ráð. Það voru ekki mín ráð að taka Borgaraflokkinn inn í ríkisstjórnina og bjóða honum tvo ráðherrastóla. Ef ég man rétt var dómsmálaráðherrasætið annað þeirra og hitt var hið nýja embætti, hið nýja starf umhvrh. sem einn af lagsmönnum Borgaraflokksins, þáv. ágætur þingmaður Júlíus Sólnes, tók að sér að gegna. Hann varð fyrsti ráðherra umhverfismála í þessari ríkisstjórn og varð sem sagt fyrsti húsbóndinn í þessu ráðuneyti.

Þetta varð til með nokkuð sögulegum hætti og auðvitað hafði það áhrif á ráðuneytið. Hún átti hins vegar aldrei að verða nema til bráðabirgða, sú skipan sem innleidd var 1990. Það átti rétt að koma fótum undir ráðuneyti sem auðvitað var hugmyndin og tekið fram strax við byrjun að ætti að styrkja og efla. Öllum var ljóst að mikil nauðsyn var á því fyrir utan það að endurskoða löggöf sem tengdist þessu ráðuneyti.

Eftir kosningarnar 1991 tekur við sem húsbóndi í umhvrn. Eiður Guðnason sem annar umhvrh. á Íslandi og ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. sem þá hafði verið mynduð. Hæstv. þáv. ráðherra hafði áhuga á því að leggja til atlögu við endurskoðun á lögum um umhverfismál, um náttúruvernd frá 1971, og setti sérstaka nefnd til þess að vinna það verk fyrir hönd ráðuneytisins að leggja inn tillögur um það hvernig best væri að standa að endurskoðun þessara laga og efnisþátta þar að lútandi. Þessi nefnd var skipuð fulltrúum þingflokka auk fulltrúa úr ráðuneyti, tveggja fremur en eins sem ráðuneytið lagði til, og var að störfum í rösklega ár þegar mannaskipti urðu í umhvrn. og við tók nýr ráðherra af hálfu Alþfl. Hinn fyrri fór í utanríkisþjónustuna þar sem hann sinnir störfum enn í dag. Þá var brugðið á óheillaráð sem gagnrýnt var af ýmsum, þar á meðal einum nefndarmanni úr þessari endurskoðunarnefnd, núv. formanni þingflokks Framsfl. Valgerði Sverrisdóttur, sem átti sæti með þeim sem hér talar ásamt ýmsum fleirum í þessari endurskoðunarnefnd. Nefndin var slegin af með bréfi að lítt athuguðu máli í hinu mesta fljótræði þarna um sumarið. Það er líklega sumarið 1993 sem þetta gerist þó ég vilji ekki alveg fullyrða það. Ég held að þetta sé á miðju sumri 1993 án þess að ég vilji alveg negla niður ártalið.

[15:00]

Þá er brugðið á það ráð af nýjum ráðherra að vísu úr sama flokki að setja málið í gerð hjá embættismönnum, tilkvöddum embættismönnum í ráðuneytinu og kannski einhverjum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki rifjað það upp nýlega. En því breiða samstarfi sem lagt var upp með í endurskoðun þessarar löggjafar var sem sagt hætt og málið sett í miklu þrengri farveg. Og það er úr þeim farvegi sem fyrsta endurskoðunarfrv. birtist á Alþingi á 117. löggjafarþingi og var þá lagt fram sem frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, þ.e. það var ekki í þeim búningi eins og hér liggur fyrir að vera sett upp sem heildstætt frv. heldur breyting á lögum. Viðfangsefnið var að stofni til hið sama og hér er verið að glíma við hvað innihald tillagnanna snertir. Viðfangsefnið var að gera breytingar á stjórnunarþættinum sérstaklega til þess að aðlaga stýringu þessa málaflokks að tilvist ráðuneytisins af þeirri staðreynd að komið var nýtt ráðuneyti. Þetta var út af fyrir sig alveg á sínum stað og ekkert á móti því ef sæmilega hefði til tekist í þessari endurskoðunarvinnu. Það var hins vegar því miður ekki. Það voru mjög margir meinbugir á málinu, þessu stjfrv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþing. Höfðu þó komið til ráðuneytisins margháttuð heilræði um málið. Já, það er sumarið 1993 sem þessi ráðherraskipti verða. Ég sé það af gögnum sem ég hef handa á milli. En mörg heilræði sem höfðu komið til ráðuneytisins, m.a. veganesti frá náttúruverndarþingi hinu áttunda í röðinni sem haldið var í lok október 1993 og fjallaði um stefnu í náttúruvernd að frumkvæði þáv. Náttúruverndarráðs sem hafði rætt málið um langt skeið, fjallað um það hvernig æskilegt væri að móta stefnu í náttúruvernd og endurskoða löggjöf og það lagði þessa stefnu sína inn á áttunda náttúruverndarþing um haustið 1993.

Það gerðist hins vegar jafnhliða að inn á þetta sama þing kemur nýr ráðherra, ráðherra sem búinn er að verma stólinn í örfáa mánuði og flytur sinn boðskap og sína stefnu. Það var hinn ungi, vaski umhvrh. Össur Skarphéðinsson sem við höfðum kynnst sem vöskum þingmanni í stjórnarandstöðu. Hann kom fram með sinn boðskap á þessu náttúruverndarþingi og það var alveg ljóst að það rímaði ekki saman við það sem kom frá Náttúruverndarráði sem tillögur.

Nú sakna ég þess, virðulegi forseti, að ábyrgðaraðili málsins við 2. umr., hv. þm. Ólafur Haraldsson, er ekki nærstaddur. Ég held að það væri nauðsynlegt, fyrir utan það að ekki ætti að þurfa að hafa orð á því, að hv. þm. og helst auðvitað allur meiri hluti stjórnarinnar sem stendur að áliti, sé viðstaddur umræðuna. Ég fagna því nú alveg sérstaklega að hv. þm. Einar Kristjánsson, (Gripið fram í: Oddur.) einnig kallaður Einar Oddur Kristjánsson þegar mikið er haft við, virðulegur forseti, er hér á meðal okkar sem einn af þeim sem skrifað hefur á álit meiri hlutans og ætíð birtist í umhvn. Alþingis þegar mikið liggur við. Það var auðvitað ekkert lítið sem lá undir þegar um það var að ræða að koma þessu máli út úr nefnd á vordögum, nánar tiltekið 7. maí. Ég man ekki betur en hv. þm. hafi þá einmitt birst á vettvangi nefndarinnar í þriðja sinn á yfirstandandi þingi eða svo án þess að ég hafi nákvæmt bókhald yfir það, en það er líklega ekki fjarri því, og stillti menn af í sambandi við þetta mál og veitti formanni nefndarinnar stuðning sem hefur staðið í ólgusjó á stundum. Hv. þm. kastaði olíu á vatnið til að lægja öldurnar í meiri hlutanum en þær höfðu verið allúfnar um skeið vegna deilna í stjórnarmeirihlutanum um frv. til laga um spilliefnagjald. En að því máli kom einmitt hv. þm. Einar Kristjánsson í umhvn. með mjög ákveðin sjónarmið í sambandi við frv. til laga um spilliefni. Ekki varð það allt til þess að efla friðinn í nefndinni eða hjá stjórnarmeirihlutanum þá um stundir. En yfir þann þröskuld varð komist m.a. fyrir hógværð og þolinmæði stjórnarandstöðunnar sem fylgdist með þessum hrikalegu átökum í stjórnarmeirihlutanum um það lykilatriði hvort Vinnumálasamband samvinnufélaga mætti koma með nokkrum hætti við sögu þegar reynt væri að safna spilliefnum í landinu og koma þeim í förgun á skilmerkilegan hátt. Það mál er hins vegar á borði hæstv. umhvrh. í þeim búningi sem við afgreiddum það á sínum tíma og ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mun fylgjast með því hver verði niðurstaðan þegar hæstv. umhvrh. fer að skipa í spilliefnanefndina. Það dregst vonandi ekki mjög lengi úr þessu, en það getur verið hagkvæmt að Alþingi hafi lokið störfum þegar þar að kemur þannig að málið beri ekki inn í þingsalina til að ýfa upp gömul sár. Við skulum vona að ekki dragi að því.

Ekki bólar á frsm. meiri hluta umhvn., virðulegi forseti, og nú spyr ég hæstv. forseta, hvað veldur?

(Forseti (GÁS): Forseti mun gera ráðstafanir til að fá hv. þm. til salarkynna.)

Já. Ég þakka fyrir atbeina forseta í málinu en mér finnst það satt að segja ekki góður siður að það þurfi eftirgangsmuni til þess að fá ábyrgðaraðila málsins í þingsal fyrir utan þann ágæta fulltrúa meiri hlutans sem hér birtist áðan.

Það bar mikið á milli þeirra hugmynda sem hæstv. fyrrv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson bar fram á náttúruverndarþingi og þeirrar stefnu sem Náttúruverndarráð bar fyrir brjósti og kynnti á þinginu og var þar rætt og ályktað um. Samt varð til frv. Það frv. hlaut hins vegar ekki byr í þingsölum. Það var gagnrýnt af mjög mörgum. Meðal þeirra sem gagnrýndu það mál mjög ákveðið og hart var fulltrúi Framsfl. í umhvn. á þessum tíma, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, ef ég man rétt, þegar þetta var á döfinni nema við hafi tekið þá þegar sá sem síðar varð fulltrúi í nefndinni, hv. þm. Jón Helgason, sem við söknum hér úr þingsölum eftir síðustu kosningar. Hv. þm. Jón Helgason flutti gagnmerkar ræður um þetta mál þegar frv. lá fyrir öðru sinni frá hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni og gagnrýndi skarplega og ákveðið og hart mörg ákvæði þess frv. sem lá fyrir 118. þingi. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að af hálfu meiri hlutans og talsmanns meiri hlutans var einmitt vikið að þessu frv. sérstaklega, minnt á að það hefði verið flutt hér mál áður og talsmenn þessa frv. sem nú liggur fyrir eru iðulega að vitna til þess að það sé skýrt samhengi þarna á milli. En þá minni ég á það að af hálfu Framsfl. hefur þetta mál hlotið mjög harða gagnrýni, þ.e. frumvörp sem vörðuðu stjórnunarþátt þessara mála og lágu fyrir fyrri þingum. Og það kann að vera ástæða til þess, virðulegur forseti, að rifja það upp síðar í þessari umræðu hvernig hv. þm. Jón Helgason hélt á máli, hagaði sínu máli í sambandi við þau efni því að það gæti verið lærdómsríkt fyrir þá sem nú halda á málum í umhvn. að bera saman þau viðhorf við þau viðhorf sem hv. þm. Jón Helgason túlkaði í þingsölum að því er varðaði mörg atriði sem eru skyld í þessu máli og því sem lá fyrir t.d. 118. þingi.

Nú var það svo, virðulegur forseti, að Össur Skarphéðinsson umhvrh. flutti þetta mál öðru sinni í hittifyrra talið héðan frá, þ.e. á 118. þingi veturinn 1994--1995 og hafði þá gert allnokkrar breytingar á hinu fyrra frv. Það var hins vegar svo að ekki varð um það mikill friður. Margháttuð gagnrýni kom fram um það á frv. frá fjölmörgum umsagnaraðilum, mjög gildum aðilum sem gagnrýndu þá stefnu sem þar var uppi. Ég nefni t.d. Ferðafélag Íslands sem reiddi fram mjög efnismikil og verðmæt viðhorf til þess máls á þessu þingi og lét fylgja uppkast að frv., drög að frv. af sinni hálfu sem hugmynd til umhvn. þingsins í sinni umsögn og ég vitna enn í umsögn til umhvn. um þetta mál til, þess frv. sem þar liggur fyrir í drögum, frv. sem Ferðafélag Íslands lagði vinnu og verk í að efna saman í og leggja fyrir þingið.

Síðan gerðist það jafnframt að Náttúruverndarráð, þar sem er auðvitað að finna það fólk sem hefur lagt mest í þessi mál, mesta reynslu hefur til þessara mála, herti enn á gagnrýni sinni frá því sem verið hafði á 117. þingi og fann að þessu frv. í mjög mörgum greinum og þessi viðhorf þessara aðila og fjölmargra ónefndra ásamt þeirri gagnrýni sem minni hluti umhvn. bar fram á þeim tíma, þar á meðal og hluti af þeim minni hluta hv. þm. Jón Helgason, varð til þess að horfið var frá því á næstsíðasta þingi, hinu 118., að lögfesta málið.

Þessi frv. bæði á hinu 117. og 118. þingi voru í forminu breyting á lögum um náttúruvernd en ekki sett fram sem heildstæð endurskoðun þeirra laga eins og halda mætti að sé á ferðinni þegar litið er á búning þessa frv. Að báðum þessum málum var staðið hvað undirbúning snerti mjög þröngt án þess að kveðja þar til fulltrúa þingflokka, ég tala nú ekki um fulltrúa þingflokka stjórnarandstöðu sem fengu þar hvergi nærri að koma.

Þetta er í raun staða málsins þegar hæstv. núv. umhvrh., Guðmundur Bjarnason, tekur við búi og umhvrn. verður að þeirri hjáleigu sem það nú er undir ráðherra sem er ætlað að gegna bæði landbúnaðar- og umhverfismálum. Við skyldum hafa ætlað að hæstv. umhvrh. hefði tekið sér tíma í að fara yfir málin og reyna að læra eitthvað af þeirri hrakfallasögu sem forveri hans hafði lent í í sambandi við þessi mál og þessa málafylgju og t.d. að fara yfir viðhorf þess reynda þingmanns til málsins, hv. þm. Jóns Helgasonar, sem hafði að vísu kvatt þingsali á liðnu hausti og athuga hvort ekki væri réttmætt að taka tillit til þeirra sjónarmiða þegar farið væri á nýjan leik að efna í endurskoðun á gildandi lögum um náttúruvernd. En þetta varð ekki niðurstaðan. Að þessu ráði varð ekki horfið og það varð ekki horfið að því ráði sem þó var leiðandi í umsögnum manna um frv. um stjórnunarþátt náttúruverndarmála á 118. þingi, að ráðast fyrr en seinna í heildarendurskoðun laganna. Nei, enn skyldi málið bundið við sama staurinn. Enn skyldi endurskoðunin takmörkuð við stjórnunarþáttinn og þess skyldi áfram vandlega gætt, virðulegur forseti, að stjórnarandstaðan á Alþingi, þeir flokkar sem nú voru komnir í stjórnarandstöðu, fengju nokkuð að koma að undirbúningi málsins. Þess skyldi vandlega gætt að að þeim undirbúningi kæmust ekki aðrir en tilkvaddir þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl. sem nafngreindir eru í greinargerð með þessu frv. og voru hv. þm. Árni M. Mathiesen og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem voru í þeirri nefnd ásamt fleiri embættismönnum og trúnaðarmönnum ráðherra sem komu að þessu máli. Það er mjög sérstakt, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra skyldi ekki reyna að læra eitthvað af sögu fyrri ára í þessum málum, skyldi ekki leitast við að læra eitthvað af sögu forvera síns í starfi og læra eitthvað af þeim heilræðum sem hv. þm. Jón Helgason reiddi fram í þingsölum í fyrravetur, veturinn 1994--1995. En það var ekki svo. Þess í stað fáum við inn í þingið þann 11. mars 1996 það frv. sem við erum að byrja umræðu um við 2. umr. málsins sem er merkt mörgum þeim eigindum sem voru slæmir í hinu fyrra máli en í einstaka þáttum þó betur fyrir komið því að ég ætla alls ekki að draga fjöður yfir það sem telja má að hafi verið heldur til bóta frá því sem var í fyrri gerð. En það má segja að það hafi verið tekið aftur með því að færa til verri vegar aðra þætti sem voru skaplegri í því seinna frv. sem hæstv. fyrrv. umhvrh. lagði fyrir 118. þing.

[15:15]

Nú var umhvn. komin með mál í hendurnar. Þegar ég nefni 11. mars, þá mun það vera dagurinn þegar frv. var vísað til umhvn. og þá stóð umhvn. frammi fyrir því hvaða mál hún skyldi taka fyrir næst því að mörg mál frá ríkisstjórninni höfðu borist til nefndarinnar áður, þar á meðal snemma á þingi frv. til laga um nýja löggjöf í skipulagsmálum. En hæstv. umhvrh. hafði sagt þegar hann mælti fyrir því máli snemma á þessu þingi að hann bæri það mjög fyrir brjósti og vildi umfram allt að frv. til laga um skipulagslög og nýtt frv. til skipulags- og byggingarlaga yrði lagt fyrir þingið og afgreitt á þessu þingi. Við höfðum lýst því yfir stjórnarandstæðingar í umhvn. að við værum vissulega reiðubúnir til þess að vinna að því máli vegna þess að frv. um skipulags- og byggingarlög hafði komið fyrir þingið sennilega í þrígang, a.m.k. í tvígang á fyrri kjörtímabilum og fátt er nauðsynlegra en að breyta þeirri löggjöf sem er gömul, úrelt og myndar á vissan hátt undirstöðu undir marga þætti, þar á meðal þá löggjöf sem hér er um að ræða, það frv. sem hér er til umræðu. Það er sannarlega áhyggjuefni, virðulegur forseti, að svo skyldi fara að hæstv. umhvrh. gerði kröfu til þess, þegar hann stóð frammi fyrir vali, að leggja til hliðar frv. til laga um breytingu á skipulagslöggjöfinni og veðja á þann hest sem nú er riðið á í þingsölum, sem nú hefur verið leiddur inn í þingsali, þ.e. frv. um náttúruvernd, veðja á þann hest, en leggja hitt til hliðar einn ganginn enn, frv. til breytinga á lögum um skipulagsmál. Það var afdrifaríkt, virðulegur forseti. Það voru afdrifarík mistök af hálfu hæstv. ráðherra að þetta varð sem hann réð auðvitað mestu um. Og þess vegna eru menn einn ganginn enn að fara öfugt að þessu máli því að auðvitað var það mikilvægt að löggjöfin um skipulagsmál og hefur alla tíð verið svo í mínum huga a.m.k., fengi afgreiðslu sem ákveðinn grunnur, einnig þegar litið er til náttúruverndarmálanna, vegna þess að það er fátt mikilvægara fyrir skilmerkilega löggjöf í náttúruverndarmálum en að hún hvíli á skynsamlegri og góðri löggjöf skipulagsmála.

Skipulagslöggjöf er á vissan hátt undirstaða góðrar löggjafar á öðrum sviðum umhverfismála. Skipulagslöggjöfin á að mynda sterkan og góðan grunn til þess að þoka fram ákvörðunum og lagasetningu á öðru sviði, t.d. á náttúruverndarsviðinu þar sem sannarlega reynir á skipuleg tök mála þegar verið er að friðlýsa einstök landsvæði, veita þeim sérstaka stöðu samkvæmt náttúruverndarlöggjöf en sem auðvitað þarf jafnhliða að fella að skipulagslögum. Og spurningin um landnot og meðferð landsins þarf öðru fremur að hvíla á góðum og skírum og skilmerkilegum ákvæðum í skipulagslöggjöf.

En það varð ekki vitinu komið fyrir stjórnarmeirihlutann í þessu máli frekar en í ýmsum öðrum efnum. Þarna var búið að stinga upp í vitin hjá stjórnarmeirihlutanum í þessu máli. Það hafði að vísu tekist varðandi umfjöllun og afgreiðslu annarra frv. að skapa samvinnuanda og samstarfsanda sem stjórnarandstaðan átti ekki lítinn þátt í að mótaðist, t.d. í löggjöf um erfðabreyttar lífverur sem var eitt af þeim allflóknu viðfangsefnum sem umhvn. var að glíma við fyrr á þessu þingi. Þar tókst samvinna um mál eins og við hefðum kosið að sjá í sambandi við það vandasama mál sem hér er til umræðu og tókst að leiða til lykta löggjöf um nýmæli í löggjöf varðandi það nýja og flókna og vandasama svið sem eru erfðabreyttar lífverur, í góðri samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu með umfangsmiklum breytingum á því frv. sem vísað var til nefndarinnar snemma þings. Eitthvað svipað hefðum við kosið að sjá nú. Ég held að það hefði verið, virðulegur forseti, ólíkt lánlegra ef stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ráðherra þessara mála hefði lagst á þá sveif að beina vinnu að frv. til skipulags- og byggingarlaga í stað þess að fara í flausturslega vinnu á heldur löku frv. svo vægt sé til orða tekið, virðulegur forseti, og rusla því út úr umhvn. eins og raun ber vitni og staðið var að af meiri hlutanum. Vinnubrögðin að þessum málum af hálfu umhvn. geta verið skólabókardæmi um það, virðulegur forseti, hvernig ekki á að standa að vinnu að málum í þingnefnd, skólabókardæmi um það. Enda er það svo, virðulegur forseti, að það er mikið feimnismál í raun hjá stjórnarmeirihlutanum að standa frammi fyrir þessum gjörningi sínum hér á síðustu dögum þings og ætla sér að knýja stuðningslið ríkisstjórnarinnar til þess að koma þessu máli fram, lögfesta þetta mál með þeim hætti sem tillögur liggja fyrir um frá meiri hluta umhvn. með gjörsamlega úreltum ákvæðum og með brestum í frv. sem eru slíkir að það er satt að segja með fádæmum, virðulegur forseti, að fólk sem kvatt er til verka undir merkjum umhverfismála, sett til verka í umhvn., skuli ljá nafn sitt þar við.

[15:30]

Ein afglöp sem tengjast þessu máli birtast okkur í brtt. frá formanni nefndarinnar sem verið var að veita afbrigði fyrir. Því er ætlað að koma í veg fyrir stórt slys í umhverfismálum og er þannig fram borið á elleftu stundu sem eitt dæmið um afglöpin sem liggja fyrir af hálfu meiri hlutans. Það þurfti minni hlutann og álit hans til þess að flutt væri þessi vandræðalega breytingartillaga sem við vorum að veita afbrigði fyrir áðan. Hún er aðeins eitt dæmið af mýmörgum sem ég á eftir að koma að í mínu máli, virðulegi forseti, um hrákasmíðina sem er á þessu máli af hálfu meiri hlutans. Og það er satt að segja raunalegt til þess að vita, virðulegur forseti, að nýir þingmenn af hálfu Framsfl. sem koma inn í þingsali, sumir jafnvel til að leysa af menn sem hafa starfað hér áratugum saman, setið í forsetastól og sinnt þessum málum, þar á meðal umhverfismálum eins og ég hef rakið dæmi um, skuli svo gera sig seka um vinnubrögð af því tagi sem hér blasa við. Inn í umhvn. þingsins að þessu sinni komu tveir hv. þingmenn Framsfl., báðir lítt reyndir að þingstörfum og skal það út af fyrir sig ekkert lastað, en lakara er það þegar vandvirkninni er ekki fyrir að fara og þegar menn leyfa sér svo óvönduð vinnubrögð og flaustur í meðhöndlun þingmála eins og vinnan að þessu frv. ber vitni um. Þeir taka ekki lágmarksábendingum sem fram eru bornar af fullri vinsemd í störfum nefndarinnar til þess að komast hjá verulegum fingurbrjótum og áföllum í sambandi við afgreiðslu mála. Þetta er satt að segja mjög raunalegt og lofar ekki góðu til viðbótar við að búið er að skipta um forrit í Framsfl. með forustuskiptum í flokknum fyrir tveimur árum með þeim afdrifaríka hætti sem blasir við í afgreiðslu mála, hverju stórmálinu á fætur öðru. En því verður ekki breytt af þeim sem hér talar eða þeim sem á horfa. Þar geta þeir einir reynt að koma við einhverri lagfæringu sem ábyrgð bera í þeim flokki sem enn ber nafnið Framsfl. en er ekki annað en svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Hann er orðinn handbendi fjármagnsaflanna þar sem fjármagnsöflin og hið frjálsa fjármagn fá að ráða ferðinni hindrunarlítið með þeim afdrifaríku afleiðingum sem það hefur fyrir umhverfi okkar og framtíð, ekki aðeins þessarar þjóðar heldur mannkyns alls á meðan ekki er breytt með róttækum hætti þar um stefnu.

Þannig fór, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. lenti í þessu díkinu. Auðvitað búum við að því og erum að súpa seyðið af því þegar við stöndum á lokadögum þings og erum að ræða þetta frv. sem er merkt þeim óvönduðu vinnubrögðum og því uppleggi sem lagt var upp með þegar frv. kom fram og ég mun gera frekar að umtalsefni, virðulegur forseti.

Áður en ég kem að einstökum þáttum er nauðsynlegt að víkja aðeins að því atriði, virðulegur forseti, sem varðar hið algera stefnuleysi Framsfl. í þessum málaflokki sem flokkurinn þó yfirtekur í ríkisstjórn. Það vill svo undarlega til að á þessu sviði, eins og reyndar mörgum öðrum, gerist það að Framsfl. skellir sér í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Réð þar auðvitað mestu formaður flokksins, hið nýja flaggskip, formaður Framsfl., þeirri siglingu og hefur ekki fyrir því að reyna að marka þessari stjórn að einhverju leyti ásýnd flokksins, ef flokkurinn hefur einhverja stefnu umfram það að styðja EES og hugsa sér til hreyfings í sambandi við aðild að Evrópusambandinu. Þetta birtist okkur með þeim hætti, virðulegur forseti, að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá 23. apríl 1995 er upp á 8 blaðsíður í brotinu A-5. En í lok þeirrar stefnuyfirlýsingar er að finna ákvæði um það að á haustþingi 1995 muni koma sérstök verkefnaskrá, sérstök verkefnalýsing á áformaðri stefnu og verkefnum einstakra ráðuneyta á kjörtímabilinu.

Menn hugsuðu sem svo að kannski kæmi einhver sem setti mark Framsfl. að einhverju leyti á þetta stjórnarsamstarf. En það var upplýst í þinginu fyrir þremur dögum eða svo að það hefði verið ákveðið af ríkisstjórninni að vera ekkert að baksa við það að setja fram slíka verkefnalýsingu. Menn hefðu komist að því að það væri best að láta það ógert og láta duga það sem komið væri á blað og væntanlega eftir atvikum það sem hægt væri að grípa til þegar í harðbakkann slæi úr búi Alþfl. og Sjálfstfl. í þeirri ríkisstjórn sem hafði fyrir því að setja saman verkefnalýsingu upp á 45 blaðsíður sem bar heitið Velferð á varanlegum grunni og einhverjir kunna að minnast enn kafla úr.

Ég tengi þetta stefnuleysi Framsfl. af því að það er innsiglað að því er varðar umhverfismálin af hæstv. umhvrh. Þegar hæstv. umhvrh. leggur fram eitt fyrsta frv. sitt á 119. þingi, frv. um erfðabreyttar lífverur, vísar hæstv. umhvrh. í greinargerð þess frv. til stefnu fyrrv. ríkisstjórnar í umhverfismálum. Ég hef ekki heyrt frá hæstv. umhvrh. að það hafi komið í rauninni nokkur viðleitni til sjálfstæðrar stefnumótunar í þessum málaflokki fram að þessu. Og eftir að búið var að slátra hugmyndinni og loforðinu um sérstaka verkefnalýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar, en af sérstökum ástæðum verður fundi frestað um nokkurra mínútna skeið þannig að ef það eru sérstök kaflaskil í ræðu hv. þm. á næstu sekúndum eða mínútum, verður það forseta þóknanlegt.)

Virðulegur forseti. Ræðumaður gerir allt til að þóknast forseta. Kaflaskilin geta verið hér alveg eins og að mínútu liðinni svo að þess vegna má fresta fundi. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið.

(Forseti (GÁS): Forseti þakkar skilninginn hjá hv. þm. og verður nú gert hlé á fundinum um nokkurra mínútna skeið.)