Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 18:46:25 (7327)

1996-06-05 18:46:25# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[18:46]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi náttúruverndarnefndir skv. 10. gr. frv. er það rétt að það er ekki mikil breyting frá gildandi löggjöf. En sú löggjöf er líka frá 1990, hraðsoðin þegar ráðuneytið var sett á laggirnar ef ég man rétt með tilliti til þess að sýslur höfðu fallið af sem stjórnsýslueiningar. Sveitarstjórnir ,,eða`` héraðsstjórnir er breyting, það var held ég sveitarstjórnir og héraðsstjórnir í gildandi lögum. Ég hef það ekki fyrir framan mig. Það er smávegis breyting en lögin eru bara ekki nógu góð eins og þau eru. Þau hafa ekki virkað sem slík og það er það sem verið er að vísa til fyrir utan að það skapast togstreita milli sveitarstjórna annars vegar og héraðsstjórnanna um það hvor á að kjósa og hætt við því að þetta verði sundurleitt og ósamstætt. Það eru þær áhyggjur m.a. sem ég deili auk þess sem ég held að það sé kostur að ætla náttúruverndarnefndum stærra umdæmi en líklegt er að komi út samkvæmt ákvæðum frv. og að þær fái jafnframt stuðning náttúrustofanna á sínu svæði.

Varðandi náttúruminjaskrána held ég að það sé ekki bundið í gildandi löggjöf um útgáfu hennar. Það segir með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarráð skal með aðstoð náttúruverndarnefnda kynna sér eftir föngum náttúruminjar, sem ástæða er til að friðlýsa, svo og lönd sem ástæða kann að verða til að lýsa friðlönd eða leggja til þjóðgarða eða fólkvanga. Skal ráðið semja skrá um slíkar minjar og slík lönd.``

Þarna eru engin tímamörk sett og ég man ekki eftir þeim annars staðar í lögum þannig að ég held að þarna sé verið að taka upp nýja siði sem eru ekki heppilegir.