Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 18:48:46 (7328)

1996-06-05 18:48:46# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[18:48]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. þingmál sem ber heitið Frumvarp til laga um náttúruvernd. Það er þó í rauninni rangnefni og ætti með réttu að vera Frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd. Þetta frv. er sem sé langt frá því að vera það sem það þykist vera, þ.e. endurskoðuð heildarlöggjöf um náttúruvernd. Það er það alls ekki. Reyndar kemur það fram í greinargerð með frv. þar sem segir að frv. feli í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála og örfáar efnisbreytingar á lögum um náttúruvernd.

Gömlu lögin frá 1971 eru sem sagt tekin og krafsað í nokkrar greinar þeirra og sett svo ákvæði til bráðabirgða um að lögin beri að endurskoða í heild sinni innan tveggja ára frá gildistöku. Þessi vinnubrögð eru mér satt að segja óskiljanleg og mér finnst þau lýsa bæði skilningsleysi og vissu metnaðarleysi þeirra sem með þessi mál fara.

Endurskoðun náttúruverndarlaganna er vissulega orðin brýn. Þau voru sett árið 1971 og þarf ekki að fara mörgum orðum um það að margt og mikið hefur gerst í umhverfis- og náttúruverndarmálum hér á landi sem annars staðar í veröldinni á þeim 25 árum sem síðan eru liðin. Hvarvetna hafa menn verið að vakna til vitundar um mikilvægi umhverfismála, verið að átta sig á þeim hrikalegu spjöllum sem mannkynið hefur unnið á náttúrunni og hversu brýnt er að snúa af þeirri braut, ekki bara vegna þess að náttúran er fögur og margbreytileg og hefur fullan rétt til að vera það, heldur einnig vegna þeirra einföldu staðreyndar að ef maðurinn gerspillir náttúrunni, tortímir hann mannkyninu um leið. Svo einfalt er það nú. En því miður hefur maðurinn í græðgi sinni og heimsku gengið heldur rustalega um móður jörð. Hann hefur talið sig herra jarðarinnar í stað þess að viðurkenna sig sem hluta af náttúrunni og hann hefur gengið þvert á lögmál hennar í æðisgenginni leit sinni að stundargróða. Það er því fyrir margt að bæta í þessu efni. Sumt verður auðvitað aldrei bætt og því miður eru enn þá allt of margir allt of víða sem líta á umhverfis- og náttúruvernd sem sérvisku tiltölulega fámenns hóps, gott ef ekki er talsverð tilhneiging í þessa átt hér á landi. Að vísu eru umhverfismál nú svolítið í tísku, en ærið misjafnt hvað býr að baki þessu orði í huga fólks og hversu langt menn vilja í raun og veru ganga. Sumir setja mörkin við ruslatínslu og þrif í kringum húsið sitt, aðrir safna pappír og einnota umbúðum og enn aðrir rækta trjáplöntur af kappi og allir vinna þeir auðvitað að umhverfismálum. En umhverfismál og náttúruvernd eru vitaskuld miklu víðfeðmari en þetta og í raun og veru er eitt það brýnasta í þessu efni að skipuleggja og efla fræðslu um náttúruvernd og umhverfismál. Um það flutti þingflokkur Kvennalistans tillögu oftar en einu sinni, að vísu á öðru kjörtímabili Kvennalistans á Alþingi og fékk tillögu samþykkta um þetta efni. En því miður verð ég að segja að framkvæmd hennar hefur ekki verið í samræmi við vonir okkar og óskir.

Það verður víst að viðurkennast að enda þótt margt og mikið hafi verið að gerast og við séum sannarlega í öðrum sporum en árið 1971 þegar lögin um náttúruvernd voru sett, er umræðan þrátt fyrir allt ekki nægilega mikil og ekki nógu langt komin. Það er mjög nauðsynlegt að efla hana og við getum ekki skorast undan því að taka á þessum málum og setja um þau nauðsynlegan lagaramma. Þess vegna er það beinlínis gremjulegt að staðið sé að verki eins og hér hefur verið gert. Að mínu viti er orsakarinnar að leita í því að umhverfismálin eru enn hornreka í stjórnsýslunni. Þau hafa ekki það vægi sem þeim ber að mínu mati. Í rauninni ætti umhvrn. að hafa jafnmikið vægi og fjmrh. sem er auðvitað víðs fjarri eins og nú háttar til, enda voru mikil átök og ágreiningur um stofnun þessa ráðuneytis og væri svo sem fróðlegt að rifja það allt saman upp sem ég ætla ekki að gera, þ.e. rifja það upp hvernig Sjálfstfl. barðist með oddi og egg gegn stofnun ráðuneytisins og hélt uppi umræðum á Alþingi til þess að tefja málið eins og hann hafði afl til.

Reyndar verður það að viðurkennast að við þingkonur Kvennalistans vorum ekki par hrifnar af því hvernig staðið var að því verki þegar það var loks unnið. Við höfðum lagt fram tillögu um hvernig ætti að koma þessum málum fyrir og sú tillaga var vissulega talsvert öðruvísi en síðan varð niðurstaðan, auk þess sem meginástæðan fyrir stofnun ráðuneytisins í þá daga var sú að það vantaði ráðherrastól handa Borgaraflokknum. Göfugra var nú megintilefnið ekki. Það er önnur saga en samt ástæða til að rifja þetta upp vegna þess sem ég nefndi, þ.e. að umhverfismálin eru enn þá hálfgerð hornreka í stjórnkerfinu og er það sjálfsagt með öðru ástæða þess hvernig að verki er staðið með þetta frv.

Auðvitað átti að ganga í það verk að endurskoða lögin í heild sinni og það þarf hvort eð er að gera. En úr því að menn treystu sér ekki til þess og fannst svo brýnt að breyta stjórnunarþætti náttúruverndarmála að það gæti ekki beðið eftir heildarendurskoðun átti auðvitað að taka þann þátt sérstaklega fyrir og leggja fram frv. til breytinga á núgildandi lögum. Um þetta skiptust hv. síðasti ræðumaður og hæstv. ráðherra á orðum áðan. Ég er ekki sammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að það hafi verið flókið að taka þetta út úr þar sem slík breyting sem hér er lögð til hefði áhrif svo víða í löggjöfinni. Það er ekki flóknara en svo að það hefði mátt taka það fyrir í einni grein að orðin ,,umhverfisráðherra`` eða ,,náttúruvernd ríkisins`` kæmi eftir því sem við ætti í staðinn fyrir orðið ,,náttúruverndarráð`` í hinum ýmsu greinum.

Hitt er svo ekki síður slæmt að frv. fékk ekki eðlilega og vandaða meðferð í hv. umhvn. Það var vissulega til umfjöllunar á nokkrum fundum. Það var sent til umsagnar. Allmargar umsagnir bárust og nefndin fékk nokkra gesti til fundar. En þegar kom að efnislegri umfjöllun og umræðum í nefndinni var því hafnað af meiri hluta nefndarinnar sem afgreiddi málið frá sér í fullkominni andstöðu við minni hlutann. Efnisleg umfjöllun fór fram --- og þá kalla ég það efnislega umfjöllun þegar nefndin tekur mál til umræðu án þess að gestir séu viðstaddir, það er sem sagt farið yfir frv. frá einni grein til annarrar og hún rædd til fullnustu. Efnisleg umfjöllun fór fram á einum fundi sem var aukafundur í nefndinni þar sem aðeins einn fulltrúi var til staðar frá hvorum stjórnarflokki. Á þeim fundi var að mínu mati með nokkrum eftirgangsmunum farið yfir tæplega þriðjung frv. en á næsta fundi voru svo öll sæti stjórnarliða fullsetin og málið drifið út úr nefndinni með örfáum breytingum. Þannig var sú atburðarás og er allt málið hæstv. ráðherra og meiri hluta umhvn. til lítils sóma og mér satt að segja algerlega óskiljanleg.

Ég get vottað að samstarf í hv. umhvn. hefur til þessa verið nánast áfallalaust. Ég minnist þess ekki að það hafi komið nein vandamál upp og það var bara lengst af mjög gott. Það voru viðtekin vinnubrögð að fara ítarlega yfir öll mál, fara sameiginlega yfir öll atriði og freista þess að ná samkomulagi um þau. Og þannig eiga menn að vinna. Hér varð sem sagt annað uppi á teningnum en því ferli er annars lýst í nefndaráliti minni hlutans á þskj. 1091 og þjónar litlum tilgangi að rekja það enn einu sinni.

[19:00]

Eins og hv. þingmenn hafa sjálfsagt tekið eftir er álit minni hluta umhvn. ítarlegt, enda töldum við sem undir það skrifum nauðsynlegt að rökstyðja mál okkar ítarlega á þingskjali sem allir geta kynnt sér. Hér er um svo stórt og mikilvægt mál að ræða að það varðar miklu að koma öllum atriðum málsins rækilega til skila og þótt vissulega gefist tækifæri til þess úr þessum ræðustóli, þá vitum við auðvitað öll að það er undir hælinn lagt hverjir hlusta og hvernig sá boðskapur kemst til skila. Ég ætla ekkert að gagnrýna það sérstaklega hér. Það hefur oft verið gert en auðvitað geta þingmenn fylgst með umræðum frá skrifstofum sínum eins og við vitum. En okkur fannst varða miklu að flest gagnrýnisatriði og rökstuðningur kæmi fram á þingskjali til þess að menn sannarlega hefðu tækifæri til að kynna sér þau. Það er von okkar sem stöndum að þessu nefndaráliti að það megi verða til gagns við frekari umfjöllun þegar kemur að boðaðri heildarendurskoðun og verður vitaskuld að ætlast til þess að vel verði vandað til þess máls.

Í þessu nefndaráliti er stuðst við ýmsar af þeim umsögnum sem nefndinni bárust en þær voru margar mjög góðar og upplýsandi þótt meiri hlutinn bæri ekki gæfu til að taka mark á þeim eða taka mið af þeim nema að mjög litlu leyti. Eins og hér hefur komið fram eru það fyrst og fremst fyrstu 13 greinar frv. sem málið snýst um og þó svo sem ekki allar þeirra því sumar eru óbreyttar frá gildandi lögum eða mjög lítið breyttar. En í sumum þessara greina koma fram þær breytingar sem menn vilja gera á stjórnun náttúruverndarmála. Fyrstu tvær greinarnar fjalla reyndar um markmið náttúruverndar og 1. gr. er óbreytt frá núgildandi lögum en mætti vissulega endurskoða og verður vafalaust endurskoðuð. Það mætti e.t.v. breyta orðalagi þótt meginhugsunin sé fyllilega góð og gild. Það kom nú reyndar fram í umsögnum og í viðtölum við gesti nefndarinnar að menn söknuðu skilgreininga á orðum bæði í þessari grein og víðar í frv. Það hlýtur að verða til skoðunar og umfjöllunar við þá heildarskoðun sem á að fara fram og verður vonandi ráðist í hið fyrsta.

Það er svo að segja um þær greinar sem lúta að stjórnun náttúruverndarmála, um nýja stofnun og nýja skipan, að mér finnst þar margt athugunarvert. Hér er verið að setja á fót nýja stofnun, Náttúruvernd ríkisins, sem í meginatriðum tekur yfir hlutverk Náttúruverndarráðs en fær á sig meiri stofnanablæ og er færð meira undir vald ráðherra en raunin hefur verið með Náttúruverndarráð. Það gæti alveg verið af hinu góða ef sú nýja stofnun væri um leið efld frá því sem verið hefur með Náttúruverndarráð og ráðið hefði jafnframt fengið ákveðna stöðu sem hefði gert því kleift að veita raunverulegt aðhald. Ég verð að segja það að ég varð óneitanlega fyrir vonbrigðum með þá útfærslu sem hér er á borðinu.

Ég kynntist því lítillega fyrir nokkrum árum hvernig skyldri starfsemi er hagað í Kanada, þ.e. þar er nú reyndar ekki um umhverfismál að ræða heldur jafnréttismál. Þar er stofnun eða starfsemi sem svipar til okkar jafnréttisráðs. Þetta ráð fær myndarlega starfsaðstöðu og fjármagn frá ríkinu og hefur vissulega ákveðnum skyldum að gegna en er samt mjög sjálfstætt gagnvart ríkisvaldinu. Það stundar sjálfstæðar rannsóknir á högum kvenna og á stöðu jafnréttismála. Það gefur út skýrslur og heilu bækurnar um jafnréttismál og kemur upplýsingum og fræðslu á framfæri með ýmsu móti. Það fylgist grannt með aðgerðum ríkisvaldsins í þessum málaflokki og veitir því virkt aðhald og ráðgjöf.

Mér virtist þetta starf og fyrirkomulag til fyrirmyndar og sá einmitt fyrir mér eitthvað þessu líkt þegar farið var að tala um breytingar á stjórnun náttúruverndarmála hér á landi og breytingar á hlutverki Náttúruverndarráðs. Að mínu mati þarf og þyrfti Náttúruverndarráð að vera öflugur eftirlitsaðili sem er sífellt á vaktinni og í stakk búið til að veita kröftugt aðhald. En það fyrirkomulag sem hér verður nú að öllum líkindum lögfest býður ekki upp á mikið svigrúm eða breytingar til batnaðar og hugsanlega reyndar til hins verra. Sú skipan sem verið hefur í þessum málum hefur að mörgu leyti hentað vel með tilliti til þeirra aðstæðna sem við búum við og með tilliti til þess litla fjármagns sem stjórnvöld hafa verið tilbúin til að láta til þessa málaflokks. Náttúruverndarráð hefur fengið sífellt stærra hlutverk og fleiri og stærri verkefni á undanförnum árum án þess að hafa í sama mæli fengið aukið fé og mannskap til að sinna þeim verkefnum. Á skrifstofu Náttúruverndarráðs starfar fátt fólk miðað við umfang starfseminnar og þau verkefni sem því er ætlað að sinna. Þar af leiðandi hefur breidd í menntun og þekkingu ekki verið næg. Það hefur hins vegar verið gæfa skrifstofunnar og þess starfs sem þar er unnið að í ráðið sjálft hefur valist fólk með margvíslega þekkingu í hinum ýmsu greinum náttúruvísinda og fræða og þetta fólk hefur af hugsjónaástæðum og miklum áhuga og velvild lagt þekkingu sína og reynslu af mörkum, reyndar oftast endurgjaldslaust, og þannig í rauninni bjargað málunum. Um þetta segir í umsögn Náttúruverndarráðs til umhvn., með leyfi forseta:

,,Verði frv. að lögum verða verulegar breytingar á umfjöllun um náttúruverndarmál og ákvarðanatöku í þeim. Undanfarin 25 ár hefur framkvæmdin verið með þeim hætti að einstakir fulltrúar í Náttúruverndarráði og í seinni tíð vinnunefndir skipaðar fulltrúum úr ráðinu hafa veitt starfsmönnum skrifstofu ráðsins faglega ráðgjöf við undirbúning mála sem lögð eru fyrir Náttúruverndarráð. Þessi ráðgjöf hefur verið mikilvægari fyrir þær sakir að fjárveitingavaldið hefur aldrei viðurkennt umfang starfsemi Náttúruverndarráðs. Það hefur leitt til langvarandi rekstrarfjárskorts sem m.a. hefur haft þær afleiðingar að ekki hefur verið hægt að ráða nægilega marga sérfræðinga til að sinna lögboðnum verkefnum Náttúruverndarráðs. Það er skoðun Náttúruverndarráðs að tilgangslítið sé að breyta lögum nr. 47/1947 eins og lagt er til í frumvarpinu ...`` --- það stendur hér 1947. Ég hélt að þetta væri nú annað ártal --- ,,... ef ekki er tryggt að Náttúruvernd ríkisins geti sinnt lögboðnum verkefnum á faglegan hátt. Hætta er á því að starfsemi Náttúruverndar ríkisins verði í tómarúmi ef faglegrar ráðgjafar Náttúruverndarráðs nýtur ekki lengur við. Reynsla undanfarinna áratuga gerir það að verkum að ekki er líklegt að auknum fjárveitingum verði varið til rekstrar Náttúruverndar ríkisins og styður umsögn fjármálaráðuneytis um frv. þá niðurstöðu. Vegna þessa þykir rétt að tryggt verði í lögum að Náttúruverndarráð veiti Náttúruvernd ríkisins faglega ráðgjöf.``

Þetta er nú reyndar eitt af þeim atriðum sem meiri hluti umhvn. tók nokkurt tillit til ef ég man rétt. Ég er að vísu ekki með breytingartillögur meiri hlutans hjá mér en ég man ekki betur en tekið sé tillit til þessara athugasemda en ég vildi lesa þetta hér upp vegna þess að það styður nákvæmlega það sem ég var að segja áðan. Og ég er nú ansi hrædd um að þessi breytingartillaga dugi ekki til að halda þó uppi því starfi sem unnið hefur verið af svo mikilli óeigingirni og af hugsjónaástæðum á undanförnum árum.

Mér virðist sem nú sé að nokkru höggvið á þessi tengsl, að nú verði starfsemin, þ.e. hin daglegu verkefni, umsjón, rekstur, eftirlit og annað lokað inni í stofnun sem verður að umfangi hin sama og hjá núverandi Náttúruverndarráði en hún verði meira úr tengslum við lifandi starf utan stofnunarinnar og Náttúruverndarráð sjálft sé vængstýft og valdalaust og muni ekki nýtast til sömu áhrifa og áður. Þetta eru nú mínar áhyggjur núna en vonandi fer þetta allt betur en ég óttast.

Eitt hið sérkennilegasta við tillögur til breytinga á stjórnun náttúruverndarmála og stofnun Náttúruverndar ríkisins er um skipan stjórnar þeirrar stofnunar. Reyndar er líka einkennilega margtuggið í þeim greinum sem um þetta fjalla, þ.e. 3. og 4. gr., hver fari með yfirstjórn náttúruverndarmála. Það er tekið fram í fyrri mgr. 3. gr. að umhvrh. fari með yfirstjórn náttúruverndarmála. Í 1. mgr. 4. gr. er talin ástæða til að taka það fram að Náttúruverndarráð sé ríkisstofnun undir yfirstjórn umhvrh. og enn er talað um yfirstjórn í 3. mgr. en þar er sagt að stjórnin fari með yfirstjórn Náttúruverndar ríkisins og er nú orðið mikið um stjórnir og yfirstjórnir. En látum nú svo vera. Ég held að það hafi nú ekki verið tekið neitt á þessu en um stjórnina segir, með leyfi forseta, í 4. gr., 2. mgr.:

,,Umhverfisráðherra skipar að loknum alþingiskosningum Náttúruvernd ríkisins fimm manna stjórn. Þrír skulu skipaðir án tilnefningar, þar af formaður sérstaklega, einn samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs og einn samkvæmt tilnefningu samgrh. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.``

Margir viðmælendur nefndarinnar urðu til þess að gagnrýna þetta atriði ýmist að eigin frumkvæði eða í svari við fyrirspurn nefndarmanna um þetta atriði. Og menn spurðu: ,,Hvers vegna samgrh. en ekki t.d. sjútvrh., iðnrh. eða landbrh.``, en allir þessir málaflokkar tengjast umhverfis- og náttúruverndarmálum með einhverju móti og verða ekki séð nein haldbær rök fyrir því að samgrh. eigi að hafa hönd í bagga með skipan þessarar stjórnar frekar en aðrir sem ég tel reyndar engu frekar eiga að koma þarna að máli.

[19:15]

Stjórn Náttúruverndar ríkisins á að vera skipuð mönnum sem ekki hafa annarra hagsmuna að gæta en náttúruverndar. Um eðlilegt samráð ráðuneyta og stofnana gegnir allt öðru máli og því má auðvitað koma við með öðru móti. Þessi skipan mála er öldungis fráleit og forkastanleg og hefur ekki fengist skýrð að mínu mati á nokkurn hátt. Það eru ekki gild rök að hér sé verið að tryggja hagsmuni ferðaþjónustu enda eiga, eins og ég sagði áðan, stjórnarmenn og stofnunin sjálf að setja hagsmuni náttúruverndar ofar öllu en ekki tengja þá einhverjum öðrum hagsmunum.

Þá er einnig fráleit sú skipan Náttúruverndarráðs sem hér er lögð til og mikil breyting frá því sem nú er og lagt var til reyndar í fyrri frv. um þetta mál. Samkvæmt núgildandi lögum er Náttúruverndarráð skipað sjö mönnum, sex sem eru kjörnir á náttúruverndarþingi en umhvrh. skipar einn sem er jafnframt formaður ráðsins og varamenn eru svo valdir á sama hátt. Hér er hins vegar lagt til að umhvrh. skipi sex fulltrúa, einn án tilnefningar sem verður formaður en hina fimm skulu Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóli Íslands, Bændasamtök Íslands, Ferðamálaráð Íslands og skipulagsstjóri ríkisins tilnefna. Þrír í viðbót verða svo kjörnir á náttúruverndarþingi. Þetta er auðvitað mikil afturför frá núgildandi lögum og mjög gagnrýnisverð að mínu mati. Ég botna eiginlega ekkert í höfundum þessa frv. að vera að leggja til þetta fyrirkomulag, ég vil segja andlýðræðislegt fyrirkomulag. En það er því miður tilhneigingin í þessu máli að auka miðstýringu, safna valdinu til ráðuneytisins og til ráðherra sjálfs, minnka áhrif grasrótar og áhugamanna og spilla fyrir því nauðsynlega samstarfi sem þarf að ríkja milli hinna ýmsu áhuga- og kunnáttumanna um náttúruverndarmál. Það hefði átt að vera meginlínan og markmiðið með þessum breytingum.

Nú verður að segjast eins og er að skrifstofa Náttúruverndarráðs hafði raunar allt aðrar tillögur á lofti og vildi tengja ráðið miklu fastari böndum við hina nýju stofnun, sjálfsagt með það í huga að tryggja utanaðkomandi þekkingu farveg inn til stofnunarinnar. En niðurstaðan af þessu öllu saman er hálfgerður bastarður. En ég endurtek að maður verður að vona hið besta og óska þessu fyrirkomulagi alls góðs og maklegs skilnings yfirvalda.

Það er vissulega margt fleira athugunarvert í þessu frv. En þessi tvö atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni finnast mér gríðarlega mikilvæg vegna þess að það var tilgangur og er tilgangur þessa frv. að gera breytingar á stjórnun umhverfismála og náttúruverndarmála og þá er afleitt að svo hrapallega skyldi til takast.

Það er ýmislegt fleira sem mætti tína til. Það er kannski óþarfi að tíunda allt það sem fram kemur í nál. minni hlutans. Við verðum að treysta því að hv. þm. kynni sér þau sjónarmið og athugasemdir sem þar koma fram og það nýtist allt saman við þá heildarendurskoðun sem boðuð er og verður vonandi farið sem fyrst í. En ég hlýt að nefna hér örfá atriði sem nauðsynlegt hefði verið að taka á ef menn hefðu viljað taka sér þann tíma sem þurfti. Eins og t.d. það sem kemur fram í 4. mgr. 13. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa.`` Síðar segir: ,,Verði ágreiningur um kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa skal málum vísað til úrskurðar á þinginu sjálfu.``

Við þetta hafa margir gert athugasemd í umsögnum sínum og telja það orka tvímælis og sé jafnvel stjórnsýsluleg rökleysa að Náttúruverndarráð ráði þingsetu, kosningarrétti og kjörgengi á náttúruverndarþingi sem síðan kýs fulltrúa í Náttúruverndarráð. Um það sem kemur á eftir þessum fyrstu 13 greinum sem fjalla meira og minna um stjórnunarfyrirkomulag er það fyrst og fremst að segja að hér eru í flestum greinum, flestum atriðum teknar upp greinar úr núgildandi lögum um náttúruvernd frá 1971. Og enda þótt sumar þeirra og kannski flestar séu góðar og gildar er það auðvitað ekkert annað en hálfkák að taka gild lög, krukka í örfáar greinar þeirra og vísa svo í ákv. til brb. til heildarendurskoðunar. Þær breytingar sem gerðar eru á núgildandi lögum í þessu frv. eru vægast sagt umdeildar sumar hverjar. Það er t.d. fáránlegt orðalag sem sett er í 16. gr. frv. um akstur utan vega. Það á auðvitað að vera regla en ekki undantekning að akstur utan vega sé eingöngu bannaður á svæðum þar sem hætta er á náttúruspjöllum eins og ráða má af orðanna hljóðan í 2. mgr. 16. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins setur umhverfisráðherra reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.``

Hér finnst mér áherslan vera þveröfug við það sem hún ætti að vera. Akstur utan vega á ekki að vera heimill nema í sérstökum undantekningartilvikum sem setja verður reglur um. Þetta er eitt af mikilvægu atriðunum í lögum um náttúruvernd, þ.e. að gengið sé um landið með varúð og því ekki að óþörfu spillt. Svo er það auðvitað annað mál hvernig við skilgreinum orð eins og ,,að óþörfu``, ,,að þarfleysu`` og fleiri í þeim dúr. Það er nefnilega svo misjafnt hvernig menn túlka orð af þessu tagi. Ég hefði kosið að um einhverjar breytingar á þessari grein hefði náðst samkomulag því að hún er mjög athugunarverð, að ég tali nú ekki um þegar hér er farið að ætla umhvrh. að setja reglur um leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja. Ég hefði nú haldið að það væri ekki á verksviði umhvrh., en hér kennir kannski áhrifa samgrh. sem frumvarpshöfundar telja að eigi að hafa svo mikið vægi í þessum málum að hann eigi að tilnefna mann í stjórn Náttúruverndar ríkisins.

Í 3. mgr. 16. gr. er það nýmæli að hægt verði að takmarka umferð og loka einstökum svæðum í óbyggðum ef sú hætta blasir við að þau liggi undir skemmdum. Það er hins vegar álitamál hvort á að binda þessa heimild við óbyggðir eins og gert er í greininni. Ég er sammála því að þessi heimild sé fyrir hendi enda þótt ég skilji afstöðu t.d. Ferðamálaráðs sem hefur brugðist hart við og telur þessa grein andstæða ferðaþjónustunni. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel þessa grein alls ekki andstæða ferðaþjónustunni. Ástand landsins og verndun okkar viðkvæmu og dýrmætu náttúru hlýtur að ganga fyrir stundarhagsmunum ferðaþjónustuaðila. Náttúruvernd og fullkomin aðgát gagnvart náttúrunni þjónar einmitt langtíma hagsmunum ferðaþjónustu og það þurfa menn að skilja. Ég hef ekki trú á því að þessu ákvæði verði misbeitt.

Hins vegar hef ég aðra skoðun á gjaldtökuheimildinni sem kveðið er á um í 35. gr. frv. Því ákvæði er ég algjörlega mótfallin, ekki síst eftir reynslu mína af starfi í Ferðamálaráði og samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Það á ekki að taka gjald fyrir aðgang að náttúru landsins. Það er hins vegar sjálfsagt að taka gjald fyrir veitta þjónustu. Það er allt annað mál að taka gjald fyrir veitta þjónustu, húsaskjól, veittan beina, tjaldsvæði, leiðsögn og annað það sem nefna má þjónustu. Ég veit fullvel að slíkur aðgangseyrir sem hér er lagður til tíðkast sums staðar í öðrum löndum en oft er það þannig að einhver þjónusta fylgir með í kaupum. Aðstæður eru einfaldlega þannig hér að þótt mönnum dytti í hug að reyna þetta, það hefur svo sem verið reynt, mundi það ekki svara kostnaði.

Það er líka nauðsynlegt að fjalla rækilega um reglur sem lúta að sorphirðu og því að halda landinu hreinu og lausu við rusl, hvort sem um er að ræða óbyggðir eða alfaraleiðir. Um þetta þurfa að vera reglur þótt þetta sé í rauninni spurning um fræðslu og viðhorf. Það á auðvitað engum að detta í hug að skilja eftir sig rusl úti í náttúrunni, ekki frekar en mönnum líðst að skilja rusl eftir í hrúgu á stofugólfinu heima hjá sér. Við erum nefnilega að tala um viðhafnarstofu okkar alla. Viðhafnarstofu sem við ættum að vera stolt af að halda hreinni og fágaðri.

[19:30]

Þá hefði þurft að ákveða nánar ákvæði 17. gr. frv. og nú vil ég endilega biðja hæstv. umhvrh. að hlusta. Ég vona að hann sé ekki að missa af einhverri mikilvægri frétt í útvarpinu sem hv. formaður umhvn. var að ljá honum. Ég get alveg beðið ef það er eitthvað sem hæstv. ráðherra þarf að heyra. En þá ætla ég að nefna þetta með ákvæði 17. gr. Ég veit ekki hvort það kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, en þar vantar t.d. inn í ákvæði um grasatínslu sem er hreinlega orðin atvinnugrein, þ.e. að tína grös, fjallagrös og fleiri grös til að vinna hér lyf, líkjöra, krem og hvað það nú er. Í 17. gr. er minnt á að ekki megi eyða eða spilla að óþörfu eins og segir, gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt eða saurga vatnsból o.s.frv. Þarna ætti að koma inn ákvæði um grasatínslu. Þetta mál var nýlega til umræðu hér í fyrirspurnatíma og þá sýndi hæstv. umhvrh. mikinn skilning á málinu og var sammála því að brýnt væri að setja um þetta lög og reglur eða í það minnsta reglur til að koma í veg fyrir slys og skemmdir á jurtaríki landsins þannig að ekki verði gengið um of á þessa auðlind og þennan hluta af þeirri náttúru sem við eigum auðvitað að varðveita. En hann hefur þó ekki nýtt tækifærið til að taka á því í þessu frv. né séð ástæðu til að biðja meiri hlutann að flytja um það breytingartillögu við þessa umræðu.

18. gr. ber þess vitni að það var enginn einhugur um skipan mála þegar umhvrn. var stofnað heldur var búinn til sá hrærigrautur sem umhvrh. og landbrh. mega hafa í hvert mál. Með þessari grein er einfaldlega verið að viðhalda samkrulli sem sett var á til bráðabirgða þegar umhvrn. var stofnað. Það lá nefnilega svo hastarlega á að búa til ráðuneyti handa fulltrúa Borgaraflokksins sem þáv. ríkisstjórn þurfti á að halda til styrkingar sínu stjórnarráði. Þessi draugur hefur greinilega fengið gott og öruggt framhaldslíf í skjóli núv. stjórnarflokka.

Herra forseti. Þannig væri í rauninni ástæða til að fjalla ítarlega um mörg atriði þessa frv. sem sigldi hér inn í þingið undir fölsku flaggi. Það er hér borið fram undir því yfirskyni að hér sé um nýja löggjöf að ræða þegar í raun og veru er ætlunin að lögfesta upp á nýtt aldarfjórðungsgamla löggjöf með fjölda óendurskoðaðra greina en vissulega einnig með afgerandi og afdrifaríkum breytingum. Þessar breytingar eru því miður illa hugsaðar og beinlínis fáránlegar sumar. Hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn hafa lítinn sóma af þeirri afgreiðslu málsins sem nú blasir við.

Ég vil svo aðeins að lokum láta í ljósi áhyggjur og í rauninni hneykslun, jafnvel reiði, yfir því hversu illa er búið að þessum málum fjárhagslega. Svo verður augljóslega áfram. Verkefni þeirrar stofnunar sem hér er ætlað að stofna með lögum eru gríðarlega mikil og margvísleg eins og raunin er í Náttúruverndarráði nú og þeim mun ekki fækka. Þeim mun frekar fjölga eftir því sem þróunin er og eftir því sem það rennur upp fyrir mönnum á hversu mörgu þarf að taka í umhverfismálum. Fjársvelti hefur alltaf háð starfsemi ráðsins. En það hefur notið góðs af skipan þess sem hefur tryggt tengsl við mjög breiða og margháttaða reynslu og þekkingu. Nú er skorið á þau tengsl. Náttúruverndarráð er vængstíft og tök ráðherra hert á öllum málum. Ég tel ekki nægilega brugðist við af hálfu meiri hluta umhvn. með ákvæði um að Náttúruverndarráði beri að veita faglega ráðgjöf. Ég er ekki viss um að það gangi eins og þessu er öllu fyrir komið. Fjárhagsrammi Náttúruverndar ríkisins verður þröngur og fjárhagsrammi Náttúruverndarráðs verður fáránlega þröngur. Hann verður fáránlega þröngur.

Herra forseti. Það er svo margt athugunarvert við frv. að það er óforsvaranlegt með öllu að standa að slíkri lagasetningu. Það var frá upphafi deginum ljósara að þessu þingmáli væri stórlega áfátt. Það hefði aldrei átt að koma fram í þeim búningi sem það er.

Við sem skipum minni hluta umhvn. í þessu máli vildum sannarlega leggja okkar fram um að færa frv. til betri vegar, en eins og áður er lýst þá fékkst ekki ráðrúm til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni. Við sjáum nauðugan einn kost að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eins og lagt er til í áliti okkar á þskj. 1091. Það hefði reyndar einnig verið viðunandi niðurstaða ef hæstv. ráðherra hefði dregið frv. til baka og flutt annað frv. þar sem eingöngu hefði verið tekið á þeim þáttum sem lúta að stjórnun náttúruverndarmála sem er megintilgangurinn með þessu öllu saman. Það hefði verið ólíkt skárri svipur á því að standa þannig að verki. Þannig hefði verið auðveldara að sætta sig við afgreiðslu þessa máls. Þriðji kosturinn var auðvitað sá að taka á verstu agnúum frv. og ná samkomulagi um viðunandi breytingar eða lágmarksbreytingar á allra verstu atriðunum. Ég nefni þá sérstaklega ákvæði 4. gr. frv. um skipan stjórnar Náttúruverndar ríkisins þar sem samgrh. er ætlað að tilnefna mann í stjórn sem er vitaskuld ómöguleg og fáránleg tillaga. Ég vorkenni satt að segja hæstv. umhvrh. að hafa þurft að taka þennan leiðinda bagga á sínar herðar.

Ég nefni líka sérstaklega ákvæði 11. gr. um skipan Náttúruverndarráðs sem er gjörbreyting frá núgildandi lögum, breyting sem herðir tök og afskipti ráðherra gagnstætt því sem margir héldu að ætlunin væri, þ.e. að gera Náttúruverndarráð óháðara og sjálfstæðara og betur í stakk búið til að vera gagnrýninn aðhaldsaðili og þá vonandi aðhaldsaðili gagnvart málum sem unnin væru í styrkari stofnun en hér virðist eiga að setja á fót. En auk þessara tveggja meginatriða hefði auðvitað þurft að gera lágmarksbreytingar á nokkrum atriðum en það er reyndar til hálfgerðs vansa að ætla að lögfesta þau sum hver hér. En meiri hluti Alþingis kaus að afgreiða þetta mál á þennan hátt og við því getur minni hlutinn ekki gert annað en að nýta sinn löglega og siðferðilega rétt til að koma skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri í þingræðum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.