Þingfrestun

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 22:02:58 (7355)

1996-06-05 22:02:58# 120. lþ. 163.96 fundur 350#B þingfrestun#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 163. fundur

[22:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Hv. alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 120. löggjafarþings.

Þingið stóð yfir frá 2. október til 22. desember 1995 og frá 30. janúar til 5. júní 1996. Þingfundadagar urðu alls 113. Þingfundir hafa verið 163. Verða nú lesin úrslit þingmála.

Lagafrumvörp voru samtals 207. Stjórnarfrumvörp voru 131 og þingmannafrumvörp 76.

109 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 22.

18 þingmannafrumvörp urðu að lögum en 58 þingmannafrumvörp eru óútrædd.

Af 207 frumvörpum urðu alls 127 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 87.

Stjórnartillögur voru 16 og þingmannatillögur 71.

22 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis, sex var vísað til ríkisstjórnarinnar, tvær kallaðar aftur og 57 eru óútræddar.

Skýrslur voru samtals 22. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru sex og bárust fimm skýrslur. 17 aðrar skýrslur voru lagðar fram.

Fyrirspurnir voru 226. Svör bárust við 218 fyrirspurnum. Munnlegar fyrirspurnir voru 122 og var þeim öllum svarað nema fjórum. Tvær voru kallaðar aftur. Beðið var um skrifleg svör við 104 fyrirspurnum og bárust svör við öllum nema einni.

Alls voru til meðferðar í þinginu 543 mál. Þar af hlutu 383 þingmál afgreiðslu og tala prentaðra þingskjala var 1227.

Eins og heyra má af þessu yfirliti um störf 120. löggjafarþings hefur þingið verið mjög athafnasamt. Mörg og stór mál hafa verið afgreidd á þinginu. Þeirra á meðal eru nokkur mál sem valdið hafa miklum deilum innan og utan þings, ekki síst frumvörpin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur. Skiljanlegt er að þingmönnum hefur legið margt á hjarta síðustu vikurnar og margar ræður hafa verið fluttar. Þetta olli hins vegar því að þinghaldið fór nokkuð úr skorðum. Ég vil þó láta í ljós sérstakar þakkir mínar til ráðherra og þingmanna fyrir samstarfsvilja þeirra. Að því er Alþingi sómi.

Ég verð aftur á móti að láta í ljós vonbrigði mín með að ekki skuli hafa tekist að standa við starfsáætlun þingsins þrátt fyrir að hún hafi verið endurskoðuð í janúar sl. Veigamikil ástæða þess að þingstörfin hafa dregist á langinn er vitaskuld þau deilumál sem ég vék hér að áðan. Um leið ítreka ég í þessu sambandi það sem ég hef áður sagt um mikilvægi þess að ríkisstjórn hverju sinni ætli Alþingi rúman tíma til að fjalla um og afgreiða mál sem hún leggur fram og vill fá afgreidd. Ég tel að vísu að þetta horfi til hins betra. En þessi mál verða ekki komin í viðunandi horf fyrr en við búum við þá skipan að þingmál verði ekki lögð fram á síðustu vikum fyrir jóla- og sumarhlé þings nema í algerum undantekningartilvikum.

Í ræðu minni við setningu þingsins í haust varpaði ég fram þeirri hugmynd hvort stíga mætti eitt veigamikið skref í þá átt að skipuleggja þinghaldið betur með því að þingmenn sameinuðust um að flytja aldrei lengri ræður hverju sinni en sem næmi hálfri klukkustund. Þó að ekki hafi verið gert formlegt samkomulag um þetta atriði milli þingflokka tel ég að þetta hafi í reynd gengið eftir fram eftir hausti. Ýmsir vildu þó taka þá hófsemd sem ríkti í ræðuhöldum sem tákn um vanmátt stjórnarandstöðunnar. Slíkt tel ég algera firru. Ég tel að stjórnarandstaðan hverju sinni þurfi að gæta þess að falla ekki í þá gryfju að telja sjálfa sig algerlega máttlausa þó að þingstörfin gangi eðlilega fyrir sig. Það er ekki þörf á því að sanna sig með því að setja störf Alþingis í uppnám með óeðlilega löngum ræðuhöldum.

Ég er enn sannfærðari en áður um mikilvægi þess að við reynum að ná samkomulagi um skynsamlegt hóf í ræðulengd. Í þessu sambandi vil ég segja það sem mína skoðun að þingmenn hafa margt þarfara að gera en sitja undir löngum ræðum þar sem menn endurtaka sömu atriðin hvað eftir annað og er skiljanlegt að þingbekkir séu þunnskipaðir á slíkum stundum. Reynslan sýnir hins vegar að það stendur ekki á þingmönnum að fylla þingsalinn þegar snarpar og áhugaverðar ræður eru fluttar. Ég vil því leggja áherslu á þá kröfu til þingmanna að þeir setji mál sitt fram í stuttu en hnitmiðuðu máli. Slíkt er ekki aðeins spurning um tillitssemi við aðra þingmenn sem þurfa að tjá sig og þá þingmenn sem sitja og hlýða á umræður, heldur einnig eðlilegt með hliðsjón af því að þingmenn hafa í nútímaþjóðfélagi ýmsa aðra möguleika en ræðustól þingsins til að koma skoðunum sínum á framfæri við umbjóðendur sína. Öllum er ljóst að þegar þingmenn tala yfir tómum þingsal þá er það ekki til þess fallið að skapa jákvæða ímynd af þinginu.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að nefndastarfi þingsins sem hefur orðið æ mikilvægara eftir að þingið varð ein málstofa. Ég vil fyrst segja að hlúa þarf betur að nefndastarfinu og hef þá ekki síst í huga starfsaðstöðu nefndanna í Þórshamri, aðstöðu sem er þinginu í reynd til vansæmdar. Flestar nefndirnar búa við óviðunandi fundaaðstöðu sem gerir þeim oft erfitt að sinna störfum sínum, t.d. þegar kalla þarf fjölda gesta á fund þeirra. Þó að líklegt sé að þær nefndir sem eru með fundaaðstöðu í Þórshamri verði þar áfram um einhvern tíma, þá er brýnt að reyna að bæta aðstöðu þeirra. Það er skoðun mín að heppilegt væri að koma þeirri skipan á að nefndastörfum ljúki a.m.k.tveimur vikum fyrir áætlaða þingfrestun að vori. Slíkt mundi gefa þinginu rýmri tíma til að fjalla um og afgreiða mál sem nefndir skila áliti um. Í þessu sambandi teldi ég einnig koma til greina að fella niður þingfundi síðustu daga nefndastarfsins þannig að nefndirnar fengju rúman tíma til að ljúka störfum sínum. Um þessi atriði vil ég hafa samráð við þingflokksformenn fyrir upphaf þings í haust. Ég tel að bætt nefndastarf sé hluti af því að koma almennt á aukinni festu í störfum þingsins og hyggst halda áfram að vinna að því að slíkt megi ganga eftir. Ég vil í því sambandi nefna að mikilvægt er að efla tengsl forseta og formanna fastanefndanna og hef því á þessu þingi átt tvívegs gagnlega fundi með þeim um nefndastarfið. Ég hyggst efla frekar samstarfið við nefndaformenn og vil færa þeim sérstakar þakkir fyrir samstarfsvilja þeirra.

Ég nefndi í ávarpi mínu við þingfrestun í fyrrasumar að ég hyggðist beita mér fyrir endurskoðun á þeim þáttum þingskapa sem æskilegt er að gera breytingar á og sem ætla má að samstaða geti tekist um meðal allra þingflokka. Þó að enn hafi ekki tekist að ljúka þeirri endurskoðun vil ég skýra hv. þm. frá því að ég hef á þessu þingi átt nokkra fundi um þetta mál með formönnum þingflokkanna og ég vænti þess að okkur takist að leggja fram á fyrstu vikum haustþings tillögur um breytingar á þingsköpum.

Nú við lok þinghaldsins vil ég ítreka þakkir mínar til allra þingmanna fyrir ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Forseti þarf eðlis starfs síns vegna að hafa nána samvinnu við varaforseta þingsins og formenn þingflokka. Ég vil því færa varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokkanna fyrir sérlega gott og náið samstarf á þessu þingi.

Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.