Þingfrestun

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 22:11:09 (7356)

1996-06-05 22:11:09# 120. lþ. 163.96 fundur 350#B þingfrestun#, SvG
[prenta uppsett í dálka] 163. fundur

[22:11]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sviptingasömu þinghaldi er að ljúka sem hefur á margan hátt verið mjög óvenjulegt. Í fyrsta lagi hafa verið afgreidd óvenjuheit deilumál sem áreiðanlega munu draga dilk á eftir sér á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu. Í annan stað hafa deilumál þessi haft það í för með sér að við lok þingsins hefur ekkert samkomulag verið um niðurröðun mála og ekkert samkomulag um afgreiðslu mála. Það er óvenjulegt.

Þá er það einnig óvenjulegt að þrátt fyrir þessar deilur hafa átökin ekki verið á milli stjórnarandstöðu annars vegar og forseta hins vegar eins og á fyrri árum, heldur hafa þau einkum verið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hljóta þingmenn almennt að velta þessu fyrir sér svo og þeim átökum milli þingsins og framkvæmdarvaldsins sem hafa aftur og aftur komið upp á þessu þingi og hljóta að vera okkur nokkurt umhugsunarefni.

Þegar deilumál eru uppi á Alþingi á stjórnin einn aðalkost og stjórnarandstaðan annan. Úrræði stjórnarliðs eru gjarnan þau að lengja þingið fram eftir sumri uns flest mál hafa verið afgreidd. Nú átti að ljúka þinginu 15. maí, í dag er 5. júní. Þingið er orðið þremur vikum lengra en gert var ráð fyrir.

Stjórnarandstaðan á þann varnarkost að lengja mál sitt. Stjórn og stjórnarandstaða eiga því nokkuð óskipt mál um þessa tilhögun, sök segja sumir. Spurningin er sú hvort ekki er nauðsynlegt að huga að starfsháttum okkar á ný til þess í senn að tryggja í fyrsta lagi eðlilegan rétt meiri hluta til að ná fram sínum málum, í öðru lagi rétt minni hlutans til þess að koma fram sjónarmiðum sínum á afgerandi hátt og í þriðja lagi sem er mikilsverðast, að tryggja þjóðinni vandaða lagasetningu. Ekkert þessara markmiða næst með núgildandi lögum þannig að öruggt sé.

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þingmanna þakka starfsliði Alþingis öllu fyrir framúrskarandi störf, þolinmæði, lipurð og starfsgleði á hverju sem gengur. Í því starfsliði eru allir jafnmikilvægir.

Ég vil einnig fyrir hönd okkar þingmanna þakka hæstv. forseta fyrir störfin í vetur. Hann hefur leyst úr erfiðum verkefnum með stakri prýði, þolinmæði og myndugleika. Ég flyt honum og fjölskyldu hans óskir um gleðilegt sumar og læt í ljós ósk um að við megum hitta forsetann heilan á húfi að loknu sumri við þingstörf á ný. Ég bið þingmenn að taka undir óskir mínar til hæstv. forseta með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]