Þingfrestun

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 22:14:01 (7357)

1996-06-05 22:14:01# 120. lþ. 163.96 fundur 350#B þingfrestun#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 163. fundur

[22:14]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Ég þakka hv. 8. þm. Reykv., Svavari Gestssyni, fyrir hlý orð í minn garð og fjölskyldu minnar og þakka hv. þingmönnum fyrir að taka undir þau orð. Ég endurtek óskir mínar til allra þingmanna og starfsliðs Alþingis.

[Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, gekk í salinn.]

Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir.

Í tilefni þess að forseti Íslands er hingað kominn í Alþingishúsið í síðasta sinn í embættiserindum vil ég í nafni Alþingis ávarpa forsetann nokkrum orðum.

Við þingsetningu í haust sýndi frú Vigdís Finnbogadóttir Alþingi þá virðingu að tilkynna hér í þingsalnum þá ákvörðun sína að hún hygðist ekki gefa kost á sér á ný til endurkjörs í embætti forseta Íslands. Sá virðingarvottur er forseti Íslands sýndi Alþingi þá er til marks um það ánægjulega samstarf og samskipti sem verið hafa milli forseta Íslands og Alþingis alla embættistíð forsetans.

Samstarf Alþingis og forseta Íslands hefur eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst helgast af því að saman fara þau bæði með löggjafarvaldið. Í þessum sal er því nú saman komið fullskipað löggjafarvald. Það er mér ánægja að segja að engan skugga hefur borið á samvinnu forseta Íslands og Alþingis um löggjafarstörfin.

Samskipti þings og forseta hafa þó ekki eingöngu verið bundin við löggjafarstörfin. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir allar þær ánægjustundir sem við alþingismenn höfum átt þegar við höfum sótt forseta heim að Bessastöðum árlega á jólaföstu.

Á þeim tíma sem frú Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt embætti forseta Íslands hefur hún sett sterkan svip á embættið og átt drjúgan þátt í mótun þess og þróun. Þau 16 ár sem frú Vigdís Finnbogadóttir hefur setið á forsetastól er tæplega þriðjungur þess tíma sem liðinn er frá stofnun embættisins árið 1944. Þetta er langur kafli í sögu okkar unga lýðveldis. Á sama tíma hafa orðið verulegar breytingar á skipan þingsins sem sést m.a. á því að á embættistíma frú Vigdísar Finnbogadóttur hafa 146 þingmenn tekið fast sæti á Alþingi og aðeins 14 núverandi þingmanna áttu sæti á Alþingi við upphaf embættistíma hennar.

Ég veit að nú við lok embættistíðar frú Vigdísar Finnbogadóttur er þjóðin öll full þakklætis í hennar garð fyrir sérstaklega vel unnin og farsæl störf sem hún hefur innt af hendi á forsetastóli. Ég vil á þessum tímamótum færa frú Vigdísi Finnbogadóttur hugheilar þakkir okkar allra alþingismanna um leið og ég óska henni gæfu og guðs blessunar í framtíðinni. Ég vil biðja þingheim að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]