Þingfrestun

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 22:18:00 (7359)

1996-06-05 22:18:00# 120. lþ. 163.96 fundur 350#B þingfrestun#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 163. fundur

[22:18]

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Gefið hefur verið út svofellt forsetabréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til samþykkis Alþingis, fresta fundum Alþingis, 120. löggjafarþings, frá 5. júní 1996 til septemberloka.

Gjört í Reykjavík, 5. júní 1996.

Vigdís Finnbogadóttir.

--------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.``

Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að fundum Alþingis, 120. löggjafarþings, er frestað.

Hæstv. ríkisstjórn. Alþingisforseti. Hv. alþingismenn.

Hér er komið að skilnaðarstundu. Við þingslit á þessum degi vinn ég síðasta embættisverk mitt með Alþingi Íslendinga eftir 16 ára samstarf. Ég vil þakka alþingismönnum hverjum og einum fyrir hollustu við embætti forseta Íslands og vinsemd í minn garð. Jafnframt minnist ég góðra kynna við alþingismenn sem setið hafa á þingi í embættistíð minni, en eru hér ekki nú.

Á þessum tímamótum hverf ég aftur til þeirra hugsana og orða sem voru mér leiðarljós þegar mér var í fyrsta sinn falið að setja Alþingi árið 1980 við upphaf 103. löggjafarþings Íslendinga. Þannig vil ég loka hringnum við sömu hugsjón sem er mér óbreytt í sinni og ég tel jafnan vera grundvöll mannlegrar reisnar. Þá lauk ég máli mínu á þennan veg:

,,Lýðræði er mikið og vandmeðfarið verðmæti. Í varðveislu þess reynir á þroska, skilning og tillitssemi okkar í garð hvers annars, en ekki síður gagnvart þjóðarheildinni í nútíð og framtíð, því sem við eigum saman, því sem gerir okkur að þjóð.

Það er ósk mín okkur til handa, þjóðarinnar í heild og ykkar lýðræðiskjörinna þingmanna, sem hafið tekið á ykkur þá ábyrgð að handleika fjöregg þessarar þjóðar um sinn, að þið megið bera gæfu til að standa sem fastast saman og láta það, sem sameinar, sitja í fyrirrúmi fremur en ágreiningsefni, og setja þjóðarheill nú og um alla framtíð ofar stundarhagsmunum og flokkadráttum.

Þá þarf ekki að ugga um Ísland.``

Þessi orð tel ég enn í fullu gildi.

Að svo mæltu óska ég þingmönnum og fjölskyldum þeirra alls velfarnaðar og Íslendingum öllum giftu og styrks landsins sjálfs um ókomna tíma. Þjóð minni þakka ég af alhug vináttuna löngu og traustu.

Ég bið alþingismenn að minnast fósturjarðarinnar, Íslands, með því að rísa úr sætum.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]