Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa

Mánudaginn 02. október 1995, kl. 14:16:55 (4)

1995-10-02 14:16:55# 120. lþ. 0.3 fundur 3#B kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa#, Aldursforseti RA
[prenta uppsett í dálka]

Aldursforseti (Ragnar Arnalds):

Nú fer fram kosning forseta Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þingskapa eru þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru. Ég óska eftir tilnefningu.

Forseta hefur borist tilnefning um 1. þm. Reykn., Ólaf G. Einarsson. Aðrar tilnefningar hafa ekki borist. Ólafur G. Einarsson er því einn í kjöri.

Þar sem aðeins er einn í kjöri er það ætlun forseta að láta fara fram að þessu sinni kosningu með atkvæðagreiðslukerfinu. Kerfið hefur verið stillt þannig að jafna má til leynilegrar atkvæðagreiðslu. Töflurnar á veggjunum hér til beggja hliða munu aðeins sýna hverjir hafa neytt atkvæðisréttar síns en ekki hvernig þeir greiddu atkvæði og sama gildir um minni tölvunnar sem við nýtum okkur við atkvæðagreiðsluna. Þeir sem kjósa Ólaf G. Einarsson ýti á já-hnappinn en þeir sem skila vilja auðu ýti á hnappinn sem merktur er: Greiðir ekki atkvæði.

Þar sem þessi tilhögun er nýmæli var hún borin undir fráfarandi forsætisnefnd og formenn þingflokka og voru ekki gerðar athugasemdir við að hafa þennan háttinn á. Ég bið hv. alþingismenn að gera viðvart nú þegar ef einhverjir þeirra una ekki við þessa tilhögun sem ekki hefur verið reynd hér áður á Alþingi. Komi fram mótmæli frá einhverjum hv. þm. fer fram skrifleg kosning.

Þar sem ekki virðast vera gerðar athugasemdir við þennan hátt á kosningunni hefst nú atkvæðagreiðslan.