Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 21:26:10 (16)

1995-10-04 21:26:10# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, GÁS
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ný ríkisstjórn hefur setið að valdastólum í tæpa sex mánuði. Eðlilegt er að spurt sé tíðinda því að landsmenn eru að sönnu litlu nær um það nú en á fyrstu dögum nýrrar stjórnar hvað það er sem þessi ríkisstjórn ætlar sér í hinum stóru málum þjóðarinnar. Stefnumiðin hafa verið óskýr og eftir höfðinu dansa limirnir þannig að ákaflega hefur þetta verið verklítil ríkisstjórn.

Það er og ekki að undra þegar til þess er litið að hina raunverulegu, pólitísku stefnumörkun vantar fullkomlega bæði í stjórnarsáttmála og innan stjórnarflokkanna sjálfra. Þeir forðast framtíðina en binda sitt trúss við fortíð og núið, óbreytt ástand. Það er sannarlega áhyggjuefni þjóðar, þjóðar sem hefur fyrir eigin atorku og kraft komist í gegnum erfiða tíð kreppu og samdráttar og vill horfa með bjartsýni fram á veg, nýta það góðæri sem við getum skapað okkur ef við þorum og viljum. Það hefur því þegar komið í ljós og mun enn frekar koma á daginn hversu miklu munar hvaða máli það skiptir að áhrifa Alþfl. gætir ekki lengur við stjórn landsins. Öll stefnumörkun til framtíðar, öll framtíðarsýn sem Alþfl. hefur ævinlega haft að leiðarljósi og gætti mjög við landsstjórnina síðustu tvö kjörtímabil undir forustu jafnaðarmanna, er ekki að finna á stjórnarheimilinu í dag. Það virðist því allt benda til þess því miður, að þessi helmingaskiptastjórn Sjálfstfl. og Framsfl. verði með svipuðum hætti og fyrr hefur verið þegar þessir flokkar renna á annað borð saman í eina sæng og sporin hræða.

Hver man ekki eftir viðskilnaði helmingaskiptastjórnar Framsóknar og Sjálfstfl. 1974--1978, þegar kjósendur gáfu þeim flokkum reisupassann svo um munaði í kosningum í lok þess kjörtímabils. Svipað var uppi á teningnum eftir samkrull þessara flokka 1983--1987. Ekki glæsilegur viðskilnaður það.

Og enn á ný eru þessi öfl runnin saman við ríkisstjórnarborðið og því ekki furða þótt ugg setji að mörgum.

Forsrh. flutti hér ákaflega áferðarfallega og um margt hljómþýða ræðu í upphafi þessa kvöldfundar eins og raunar vænta mátti úr þeirri áttinni. En að sama skapi var ákaflega lítið handfast þar að finna þegar hismið hafði verið skilið frá kjarnanum. Það var þó hárrétt í ræðu hæstv. forsrh. að við Íslendingar höfum gengið í gegnum þrengingar efnahagskreppu eins og raunar margar nágrannaþjóðir okkar. En með samstilltu átaki þjóðar og stjórnvalda hefur okkur tekist að komast í gegnum erfiðleikatímabilið. Alþfl., einn stjórnmálaflokka, var aðili að ríkisstjórn öll þessi erfðu ár og var í meginhlutverki þeirrar varnarbaráttu. Það er vissulega ekki óskastaða neinna stjórnmálaflokka að vera við stjórnvölinn þegar á móti blæs. Það er sjaldnast til vinsælda fallið en þó nauðsynlegt verk sem þarf að vinna. Miklu eftirsóknarverðara er að láta til sín taka með vindinn í bakið og þegar allar aðstæður eru hagstæðar. Og nú eru mestu erfiðleikarnir að baki og með öruggum og markvissum vinnubrögðum er betri tíð fram undan, möguleikar á góðæri sem til hafa orðið vegna þess að við fórum ekki á taugum og misstum ekki allt úr böndum á tímum erfiðleika og þrenginga.

Alþfl. er stoltur af verkum sínum í vörninni. Hann hefði gjarnan viljað vera þátttakandi í sókn til bættra lífskjara nú þegar möguleikar eru á slíku en það kemur í hlut núverandi stjórnarflokka að njóta ávaxtanna af árangri umliðinna kjörtímabila. Þeirra eru möguleikarnir. En hvort þeir nýta þá til hagsbóta fyrir íslenskt launafólk, íslenska þjóð, er svo allt önnur saga.

Það eru raunar fyrir hendi sterkar vísbendingar um það að núverandi stjórnarflokkar ætli að fara á hraða skjaldbökunnar inn í nýja tíð og láta möguleika hagstæðra ytri skilyrða fram hjá sér fara, láta möguleikana á góðærinu fljóta fram hjá. Nágrannaþjóðir okkar eru þegar komnar á blússandi ferð. Fjárfestingar þar aukast og hagvöxtur fer upp á við. Því miður er því ekki þannig farið hér á landi. Hér er skjaldbökustjórn við völd og óðurinn til kyrrstöðunnar sá söngur sem hæst hljómar.

Góðir landsmenn. Lítum aðeins á loforð og efndir í íslenskum stjórnmálum. Ég átti von á því að nú þegar lægi það fyrir í smáatriðum hvar þessi 12 þúsund nýju störf yrðu til sem Framsfl. lofaði fyrir kosningarnar í vor. Nei, engar vísbendingar enn þá um störfin 12 þúsund. Hins vegar er að finna í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar nákvæma áætlun um það hvernig ríkisvaldið sjálft ætlar að fækka störfum á almennum vinnumarkaði. Þeir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn ætla nefnilega að skera niður framlög til fjárfestinga, svo sem samgöngumála, félagslegra íbúðabygginga og á vettvangi heilbrigðisþjónustunnar um hvorki meira né minna en 1,9 milljarða kr. á næsta ári. Þeim fjölgar ekki beinlínis störfunum með þeirri ráðstöfun heldur þvert á móti fækkar til mikilla muna, sennilega um ein 1.500 talsins. Nei, loforðin um 12 þúsund störfin frá því í vor eru eins og rispuð og illa farin hljómplata sem var notuð of mikið í samkvæmi gærkvöldsins, í aðdraganda síðustu kosningar og eigandinn, formaður Framsfl., hefur sett út í öskutunnu. Þetta heitir á mæltu máli svikin kosningaloforð. Eða hvar eru störfin 12 þúsund, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson?

Sama er að segja um þennan eina milljarð sem Framsfl. lofaði að veita á ári hverju til nýsköpunar í atvinnulífi. Hvar er hann? Týndur og tröllum gefinn. Svo vildi Framsfl. fyrir kosningar veita hugmyndaríku fólki áhættulán til nýsköpunar í atvinnulífinu. Hvar er þann nýja lánaflokk að finna? Hann er öllum hulinn. E.t.v. upplýsir Finnur Ingólfsson, hæstv. viðskrh., þjóðina um það við tækifæri hvar hann er falinn.

Einnig lofaði Framsfl. að reisa heimilin við, koma með umfangsmiklar aðgerðir til að mæta erfiðleikum margra skuldsettra heimila í landinu. Eru þær aðgerðir e.t.v. fólgnar í lækkun barna- og ekki síst vaxtabóta sem ríkisstjórnin hefur boðað? Eða er þær að finna í hækkun verðbólgu og vaxta sem ýmsir efnahagssérfræðingar sjá handan við hornið? Hvar eru bjargráðin fyrir heimilin í landinu sem vilja og þurfa að lækka skuldirnar? Hvar eru þau, hæstv. félmrh. Páll Pétursson?

Virðulegi forseti. Það er gjarnan talað um virðingu Alþingis. Og satt er það, hún er mikilvæg í lýðræðisþjóðfélagi. Hitt er þó ekki síður nauðsynlegt að þjóðin geti tekið mark á stjórnmálamönnum. En því miður er það svo að allt of margir stjórnmálamenn tala með tungum tveimur, einni röddu fyrir kosningar og oft annarri eftir þær. Hverjum hefði til að mynda til hugar komið að það yrði meginmarkmið Ingibjargar Pálmadóttur, núv. hæstv. heilbrrh., í íslenskum stjórnmálum að láta þá Íslendinga alla sem sökum heilsubrests þurfa á sjúkrahús, greiða aðgangseyri, innritunargjald burt séð frá efnum þeirra og félagslegum aðstæðum? Þessi sama kona gagnrýndi ráðherra síðustu ríkisstjórnar harðlega fyrir sparnað í heilbrigðismálum og taldi þá gerlegt að gera svo öllum líkaði. Hún lofaði á báðar hendur, en nú er öldin önnur. Nú gengur hún lengra í niðurskurði en nokkru sinni fyrr hefur verið gert. Enginn er óhultur. Mæðra- og feðralaun skulu lækka og bætur í almannatryggingakerfinu til þess fólks sem hvað höllustum fæti stendur eru skornar þvers og kruss. Já, þær eru svæsnar, öfugmælavísurnar, sem þjóðinni er boðið upp á. Þegar hlustað er annars vegar eftir hástemmdum loforðum þáv. stjórnarandstöðuþingmanns Ingibjargar Pálmadóttur fyrir síðustu kosningar og svo aftur grimmilegar niðurskurðaráætlanir sömu konu en nú í sæti heilbrrh. eftir kosningar. Getur þjóðin tekið mark á slíkum stjórnmálamönnum?

Og Sjálfstfl., þessi málsvari frelsis, mannúðar og umbóta, eins og hann kallar sig í aðdraganda kosninga, hvar er hann staddur núna tæpum sex mánuðum eftir þær? Þessi flokkur frelsis og samkeppni snýr GATT-samningnum á hvolf og í stað aukinnar samkeppni, vöruúrvals og lækkaðs vöruverðs þá eru efndirnar tollamúrar, bönn og hindranir og með þeim afleiðingum að matvælaverð er hér enn í hæstu hæðum. Og nýskipan landbúnaðarmála í loforðum Sjálfstfl. birtist í nýjum búvörusamningi sem festir í sessi fátækt og erfiðleika íslenskra bænda en um leið eitt hæsta búvöruverð til neytenda sem þekkist á byggðu bóli. Já, þær eru merkar umbæturnar hjá þeim sjálfstæðismönnum eða hitt þó heldur.

Og stjórnarsinnar sameina svo sálirnar um helmingaskiptafyrirkomulagið, um kyrrstöðuna þegar þeir sl. vor festu enn frekar í sessi gatslitið og ónýtt kvótakerfi sem löngu er ljóst að aldrei verður nein þjóðarsátt um.

Alþfl. segir kyrrstöðunni stríð á hendur. Við viljum stokka upp og gjörbreyta landbúnaðarkerfinu, einnig stjórn fiskveiða. Við viljum að silfur hafsins, þorskurinn í sjónum, verði sameign allrar þjóðarinnar en ekki örfárra útvaldra. Við viljum lækka matvöruverð, fara neðar með vextina, stórauka fjárfestingu og þá ekki síst fjárfestingu erlendra aðila hérlendis. Við viljum umræðu um Evrópusambandið á dagskrá. Alþfl. er ekki og verður ekki flokkur yfirboða eða gylliboða. Hann er sjálfum sér samkvæmur hvort heldur hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við munum vera heiðarleg í stjórnarandstöðu, en halda stjórnarflokkunum við efnið, koma þeim úr sporunum. Þrátt fyrir drjúgan þingmeirihluta Framsfl. og Sjálfstfl. er núv. ríkisstjórn veik í eðli sínu því markmiðin hennar vantar.

Virðulegi forseti. Við viljum takast á við verkefnin en ekki hlaupa frá þeim. Við viljum nýta möguleikana sem góður árangur af störfum Alþfl. á umliðnum árum hefur skapað. Við getum fangað góðærið, aukið hér velmegun ef rétt er að verki staðið. Við jafnaðarmenn viljum bæta lífskjör og nú er það hægt. Núna er það hægt. Við viljum einfaldlega nota tækifærin sem fram undan eru en ekki glata þeim. --- Góðar stundir.