Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:34:24 (23)

1995-10-04 22:34:24# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Á síðasta ári kom út bók eftir þekktan breskan sagnfræðing, Theodore Zeldin, sem heitir Persónuleg saga mannskyns. Tilgangur bókarinnar er að öðlast nýja sýn á framtíðina með því að skoða fortíðina í nýju ljósi. Upphafskaflinn, eins og reyndar allir 25 kaflar bókarinnar, hefst á viðtali við nútímamanneskju sem á sér drauma og bakþanka og upplifir hindranir sem eiga sér djúpar sögulegar rætur. Rætt er við Júlíönu, 51 árs, sem hefur verið þjónustustúlka á einkaheimili í Frakklandi frá 16 ára aldri eins og móðir hennar. Júlíana eignaðist barn 16 ára, gifti sig og eignaðist átta önnur börn sem hún hafði lítinn tíma til að sinna. Hún einangraðist frá systkinum sínum og vinum og sagði engum frá ofbeldishneigð eiginmannsins gagnvart sér og börnunum. Vinnan var flótti frá heimilinu en enginn hafði bent henni á aðrar brautir í lífinu þrátt fyrir verulega óhamingju. Henni finnst hún hafa tapað í lífinu, að hún hafi ekki lifað almennilegu lífi, ekki sem sjálfstæð manneskja. Aldrei hafði verið hlustað á hana, og hún upplifði sig sem þræl eða eign annarra. Það er nákvæmlega þetta sem viðurkennt er opinberlega að gerist með þræla, en einhvern veginn er sú hugsun ekki jafnsjálfsögð þegar við heyrum slíka sögu. Við vísum gjarna til þess að hver sé sinnar gæfu smiður eða að við örlögin sé að sakast.

Bókarhöfundur skoðar mannshugann sem athvarf fyrir aldagamlar hugmyndir sem rétt eins og frumur líkamans endurnýjast og úreldast með mismunandi hraða. Allir viðmælendur höfundar eru konur þó að hann sé að skrifa um sögu mannkynsins. Ástæðan er sú að honum finnst að margar konur líti á lífið með mjög ferskum augum og að sjálfsævisögur margra þeirra séu frumlegasti hluti nútímabókmennta. Mannkynssagan sé of bundin við karla og að ný sýn á framtíðina sé ómöguleg nema að tekið sé mið af öllu mannkyni, báðum kynjum. Zeldin kallar á nýja sýn á söguna, stjórnmálin og framtíðina.

Hér í kvöld höfum við hlustað á stefnuræðu hæstv. forsrh. Því miður er hún afar hefðbundin og ekki gerð hin minnsta tilraun til að taka á framtíðinni á ferskan hátt út frá sjónarmiðum jafnréttis og kvenfrelsis. Kannski er ekki við öðru að búast þegar um er að ræða stefnuræðu ríkisstjórnar afturhaldssaflanna í íslensku þjóðfélagi, ríkisstjórn þeirra flokka sem hafa staðið vörð um hefðbundna og rótgróna hagsmuni á flestum sviðum.

Athyglisverðastur finnst mér undirtónninn í ræðunni, nefnilega sá að hér sé allt í blóma en samt verði almenningur að lifa við helmingi lægri laun en í nágrannalöndunum. Efnahagsbatinn, sem að langstærstum hluta má rekja til aflans úr Smugunni, á ekki að fara til almennings. Þótt 6.000 manns gangi nú um atvinnulausir verður ekki séð að neinar úrbætur séu í augsýn. Viðurkennt er þó að helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins sé í smáfyrirtækjum eins og Kvennalistinn hefur boðað í 12 ár.

Reiði almennings í kjölfar launahækkana til æðstu embættismanna er mjög skiljanleg þar sem á yfirborðinu hefur verið rekin sú launastefna að hækka lægstu launin mest. Háttsettir aðilar á öllum sviðum samfélagsins virðast ávallt halda sínu enda ná venjulegir kjarasamningar ekki til þeirra nema að hluta og sporslurnar svokölluðu geta verið ansi drjúgar. Það er löngu tímabært að stokka upp allt launakerfið í landinu þannig að öll laun séu sýnileg og uppi á yfirborðinu. Það höfum við kvennalistakonur lagt til hér á Alþingi, nú síðast á vorþinginu í þeim tilgangi að opinbera og ráðast gegn því óþolandi launamisrétti sem tíðkast á milli kynja og að því máli vinnum við áfram.

Fólk verður að fara að átta sig á því að það er hrópandi mótsögn á milli þess hversu þjóðartekjur okkar eru háar og launastigsins í landinu.

Stóra verkefnið í íslenskum stjórnmálum hlýtur að vera að finna skýringar á því hvers vegna íslenskir launamenn eru aðeins hálfdrættingar á við launamenn í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við, þrátt fyrir háa landsframleiðslu. Og ég tala nú ekki um ef höfð er í huga skoðun Alþjóðabankans að við séum sjöunda ríkasta þjóð heims.

Flestir eru sammála um að skýringarnar liggi í mistökum stjórnmálamanna og annarra ráðamanna. Stórfelld fjárfestingarmistök hafa átt sér stað með aðstoð ríkisbankanna. Nægir sem dæmi að nefna offjárfestingar í virkjunum, laxeldi og í allt of stórum fiskiskipastóli, með vaxtabyrði sem er að sliga ríkissjóð. Á meðan stjórnmálamenn hafa ekki kjark til að taka þjóðhollar ákvarðanir sem stríða gegn sérhagsmunahópum, hvort sem þeir eru á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs, í velferðarkerfinu eða hjá peningavaldinu yfirleitt, þá verður kökunni misskipt og launastigið í landinu allt of lágt miðað við þjóðarauð. Því miður virðist núverandi stjórn ekki líkleg til að taka á þessu misrétti, heldur viðheldur hún því. Nægir að nefna framkvæmdina á GATT-samningnum, sem snúist hefur í andhverfu sína eins og frægt var í sumar þegar verðið á grænmeti var hærra en nokkru sinni fyrr.

Í stefnuræðu forsrh. kom fram ýmislegt góðra gjalda vert um menntamál þó að útfærslur séu óljósar. Ég er svo sannarlega sammála því sjónarmiði að framlög til menntamála séu skynsamleg fjárfesting til framtíðar. Samkvæmt fjárlagafrv. á samt að lækka framlögin til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um heilar 80 milljónir frá síðasta ári og áfram á að neyða Háskóla Íslands til að fjármagna rekstur sinn að hluta með dulbúnum skólagjöldum sem kölluð eru skrásetningargjöld, til að geta talist lögleg. Þá stendur til að skerða fjárveitingar til Rannsóknarráðs Íslands og Nýsköpunarsjóðs námsmanna allverulega. Þá verður fróðlegt að fylgjast með hvort fé fæst af fjárlögum háskólans til að koma á laggirnar námi í kvennafræðum næsta haust eins og nú stendur loksins til. Þessi nýja námsbraut mun aðeins kosta eina milljón, sem byggist á því að verulega er byggt á námskeiðum sem fyrir eru. Kvennafræði hafa verið kennd í velflestum háskólum erlendis í allt að 25 ár og nú er tækifærið til að raungera þá viðamiklu undirbúningsvinnu, sem ég og fleiri hafa unnið að á undanförnum árum.

Lítið er fjallað um börnin okkar í stefnuræðunni eða hvernig búið er að barnafjölskyldum, sem nú flytjast úr landi í meira mæli en áður í hærri laun og mun betra bótakerfi á velflestum sviðum. Nú á enn að skerða bótagreiðslur eða að fresta því alfarið að greiða þær út.

Einn af veiku hlekkjunum í okkar velferðarkerfi er fæðingarorlofið, sem Kvennalistinn hefur mjög látið til sín taka hér á Alþingi. Nú er nauðsynlegt að taka upp sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs og tryggja það að foreldrar sinni saman börnum sínum í níu mánuði eftir fæðingu, og geti tryggt þau tilfinningabönd sem myndast við ungabörn á fyrsta æviárinu og mun ég beita mér fyrir því á þessu þingi.

Á nýafstaðinni ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína var samþykkt merkileg framkvæmdaáætlun um mannréttindi kvenna. Þar náðust fram í fyrsta skipti ýmis ákvæði um mannréttindi stúlkubarna. Þótt íslensk stúlkubörn þurfi ekki að líða sömu hörmungar og stallsystur þeirra víða úti í heimi, þ.e. umskurð, svelti eða menntunarleysi, þá verðum við að tryggja það að við getum horft beint í augu þeirra með jafngóðri samvisku og í augu drengjanna okkar eins og Gro Harlem Brundtland komst að orði í lokaræðu ráðstefnunnar. Það má ekki mismuna stúlkum hvort sem er í kennslubókunum eða á vinnumarkaðnum og kynferðislega misnotkun og allt ofbeldi og vanrækslu á börnum verður að uppræta með öllu.

Í menntakerfum Evrópusambandsins eru þegar komin upp vandamál samfara því að þjóðríkið sem meginhugtak sjálfsmyndar skipar annan sess en áður. Þetta birtist ekki síst í menntakerfinu þar sem æ vaxandi hluti skólabarna í hverju landi finnur sig ekki þar sem áherslan er á eitt þjóðerni og eitt tungumál. Menningarlegur margbreytileiki er staðreynd og þá opnast um leið augu fólks fyrir því hve ráðandi öfl halda oft einstrengingslegri mynd af veruleikanum að fólki, ekki síst í kennslubókunum sem gjarna eru nokkrum árum á eftir tímanum í hverju landi. Þótt ég sé sammála forsrh. um að við megum ekki draga úr kröfum um þekkingu barna á menningararfinum, ekki síst vegna rannsóknar minnar á þekkingu barna og unglinga á íslenskri menningu, þá bendir fjölþjóðleg rannsókn Sigríðar Valgeirsdóttur til að það sé helst á sviði myndmáls og tæknilæsis sem þekking íslenskra unglinga er ekki í fremstu röð. Óháð samskiptum okkar við önnur lönd ber okkur að virða menningu allra þeirra barna sem eru í okkar skólum og líklegt er að fjöldi erlendra barna fari vaxandi ef EES-samningurinn hefur tilætluð áhrif á flæði fólks á milli landa.

Virðulegi forseti. Ég er sammála áðurnefndum sagnfræðingi, Theodore Zeldin, að þörf sé á nýrri sýn á söguna, framtíðina og stjórnmálin. Nauðsynlegt er að taka mið af reynslu og breyttri stöðu kvenna ekki síður en karla. Stjórnmálin þurfa að vera í takt við stöðu nútímamanneskjunnar í öllum sínum margbreytileika og byggjast á raunverulegu lýðræði. Það er sannfæring mín að sterkt afl undir forustu kvenna geti komið með nýja sýn í íslenskum stjórnmálum. Það afl má ekki vera á kafi í hagsmunatengslum og það þarf að tryggja hér samfélag þar sem jafnrétti og jöfnuður ríkir. Allir minnihlutahópar hvort sem þeir kallast konur, innflytjendur, samkynhneigðir eða fatlaðir njóti mannréttinda eins og aðrir. Menningarlegur margbreytileiki getur vel þrifist með sterkri íslenskri menningu. Við verðum að opna augun og lokast ekki af í þjóðhverfum hugsunarhætti fortíðarinnar. Við höfum vonandi öll meðtekið boðskapinn frá kvennaráðstefnunni í Kína um að mannréttindi séu algild og nái jafnt til allra. Ég vil gjarnan taka þátt í og móta slíkt afl sem hefði kvenfrelsi, jafnrétti, menningarlega víðsýni, náttúruvernd og samábyrgð að leiðarljósi rétt eins og Kvennalistinn gerir nú. Þetta afl þarf að vera sterkt ef við eigum að komast upp úr þeim hjólförum sem íslensk stjórnmál eru nú í.

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég þakka áheyrnina.